Molaskrifari hnaut um fyrirsögn í Viðskiptablaði Morgunblaðsins (31.03.2011): Þjóðnýting eigna er eins og að missa þvag í skó. Íslenskt orðtak segir: Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn. Þegar penpíuhátturinn er svo mikill að talað er um að missa þvag í stað þess að pissa, er langt gengið. Þar að auki er merkingin ekki sú sama . Svo þarf reyndar að leita vel í greininni til að finna þeirri hugsun stað, sem í fyrirsögninni felst.
Það er daglegt brauð að Ríkissjónvarpið þverbrjóti auglýsingareglur stofnunarinnar. Á fimmtudagskvöld (31.03.2011) auglýsti sjónvarpið helgarbrunch. Auglýsingar eiga að vera á lýtalausri íslensku. Orðskrípið helgarbrunch er ekki lýtalaus íslenska. Það er hrognamál. Í sama auglýsingatíma var auglýstur bjór. Orðið léttöl á bjórflöskunni var nánast ólæsilegt. Þetta er ekki aðeins brot á auglýsingareglum, heldur líka lögbrot. Innanríkisráðherra hefur nú lagt fram á Alþingi frumvarp til laga ,sem vonandi verður samþykkt fyrir þinglok um að banna bjórauglýsingar eins og Ríkissjónvarpið hefur hellt yfir þjóðina í mörg ár undir því ómerkilega yfirskini að verið væri að auglýsa óáfengan bjór.
Úr mbl.is (01.04.2011): „Ég hef trú á að fundahöld í dag muni skera úr um hvort það verður framhald í kjaraviðræðum eða hvort hér verða slit,“. Venja er að tala um framhald á einhverju, ekki framhald í einhverju.
Nefnifallssýkin breiðist út. Úr viðtali í DV (01.04.2011) : Inga Lind varð að eigin sögn hverft við … Einhverjum verður hverft við. Ingu Lind varð hverft við. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (01.04.2011) var sagt: … en hann er ósáttur við viðbrögð yfirstjórn spítalans. …. Hér hefði orðið yfirstjórn átt að vera í eignarfalli: Ósáttur við viðbrögð einhvers.
Í fréttum Stöðvar tvö (01.04.2011) var talað um konungsborið fólk. Þar var s ofaukið. Talað er um konungborið fólk.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Júlíus Hraunberg skrifar:
02/04/2011 at 17:15 (UTC 0)
Til hamingju með þessa síðu Eiður. Lít reglulega inn til þín.