«

»

Molar um málfar og miðla 575

Líklega þarf svolítinn tíma  til að venjast veðurfréttum Ríkissjónvarpsins í  nýjum búningi. Flest er þó þar til bóta, mest  það sem  Molaskrifari hefur  oft  beðið um, –  að fá að  sjá  til veðurs í vesturheimi.  Takk fyrir það.  En ágætu   sjónvarpsmenn,  hlífið okkur við þessum iðandi, órólega  bakgrunni fréttalesara. Hann er algjörlega óþolandi. Því fyrr því betra…….

 Í fréttum Ríkissjónvarps (03.04.2011) var   sagt frá  samningaviðræðum. Tvívegis  notaði fréttamaður orðmyndina   viðræðanna   (ef. flt.). Molaskrifari er hallast að því, að hér hefði fréttamaður átt að segja: viðræðnanna , en er ekki viss í sinni sök.  Í sama fréttatíma var sagt: ..  og voru  öll sund lokuð  fyrir honum. Hér  hefði  Molaskrifara fallið betur ef sagt hefði verið: Og  voru honum öll sund lokuð. Margir eiga í erfiðleikum með   að bera rétt fram  heiti ríkisins Connecticut.  C-ið í miðju orðinu heyrist ekki í framburði. Það heyrðist mjög  skýrt í framburði íþróttafréttamanns í þessum fréttatíma.  

Undarlegt er að  fréttamenn skuli  sífellt  tala um ársgrundvöll  þegar nægir að tala um ár. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (02.04.2011) var talað um  sparnað á ársgrundvelli. Átt var við  sparnað  á ári. Menn ættu að spara  ársgrundvöllinn.

Í þessum sama fréttatíma   Ríkisútvarpsins var  talað um samninga sem hefðu verið þinglýstir. Þetta er  rangt. Rétt hefði verið að  tala um samninga,sem  hefði verið þinglýst. Samningarnir  voru ekki þinglýstir. Samningunum var þinglýst.

Enn eitt dæmið um nefnifallssýkina úr mbl.is (02.04.2011): 19:20 Sérsveitarmenn frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum tókst að frelsa olíuflutningaskip úr hendi sjóræningja í dag. Þetta er eiginlega óskiljanlegt. Hér ætti að standa: Sérsveitarmönnum tókst…

Í  fréttum Stöðvar tvö (03.04.2011) var talað um  að  stíga  út  af sporinu.  Venja er  að  tala um að fara út af sporinu, þegar eitthvað fer úrskeiðis. Í sama fréttatíma var talað um að láta fé  rakna til  einhvers. Málvenja er að tala um að láta  fé af hendi  rakna til einhvers, þegar veittur er fjárstuðningur..

Þegar íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins segir (02.04.2011) að  allur  botninn hafi  dottið úr leik liðsins, þá er hann að bulla. Við tölum um að botninn  detti úr  einhverju sem  reynist ónýtt eða  á sandi  reist. En að  tala um allan  botninn  eins    gert var,  er   út í hött.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Jón Ómar Möller skrifar:

    Sæll og blessaður!
    Stórkostleg var fréttin á síðu tvö í Mogganum í morgun.
    Fyrirsögnin var: Flugvél hæfði svan við flugtak á Ísafirði. Þetta hlýtur að teljast ágætis hittni.
    Bestu kveðjur.
    Ómar Möller

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>