Úr mbl.is (05.04.2011) „Við getum ekki staðið hér í logni og horft á höfnina okkar lokaða vegna þess að Herjólfur ristir of mikið,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Molaskrifari játar, að hann hefur ekki heyrt talað um að skip risti of mikið. Aðeins að skip risti djúpt. En hljóta ekki Vestmannaeyingar að vita þetta? En orðabókin segir hinsvegar að sá sem risti ekki djúpt, vaði ekki í vitinu.
Það var nefnt í morgunþætti Rásar tvö (05.04.2011) að spurt hefði verið um orðið úlfatími. Það er rétt. Það var gert á þessum stað. Ekki var spurt um hvaða tíma sólarhrings væri verið að tala, heldur hvernig orðið hefði fengið þá merkingu að tákna tímann frá því að börn koma heim úr skóla þar til þau fara í háttinn. Við því kom ekkert svar.
Í þessum sama morgunþætti var talað um vinnuþrælkun barna. Í sjónvarpi sjáum við í viku hverri ömurleg dæmi um þrælkun og svívirðilegan aðbúnað barna víðsvegar í veröldinni. Börn deyja milljónum saman úr hungri og sjúkdómum ,sem er auðlæknanlegir. Í morgunþættinum var talað um heimalærdóm og íþróttaiðkun íslenskra barna sem barnaþrælkun. Hve mikil getur firring þjóðar orðið? Mikil. Ótrúlega mikil.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (05.04.2011) talaði borgarstjórinn í Reykjavík tvisvar sinnum um að búa til event. Orðið event er enska og þýðir atburður. Í febrúar árið 1848, lét bæjarfógetinn í Reykjavík festa upp svohljóðandi auglýsingu: „Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi“. Líklega hefur borgarstjórinn í Reykjavík aldrei heyrt þetta.
Hver sem deyr í nafni Allah er píslarvætti, var skrifaði í texta í fréttum Ríkissjónvarps (05.04.2011). Molaskrifari hefði haldið, að hér hefði átt að nota orðið píslarvottur, en ekki píslarvætti.
Alltaf er jafn hvimleitt að heyra fréttamenn segja: … samkvæmt lögreglunni. Betra væri: Að sögn lögreglunnar.
Molaskrifari heyrði stjórnmálamann segja að flokkur hans væri lausnamiðaður. Merkingarlaust rugl !
Skildu eftir svar