Úr mbl.is (03.04.2011): Airbus og Air France fjármögnuðu leitina. Kafað var á 4.000 metra dýpi og voru m.a. sérstök leitarvélmenni notuð, en þau rannsökuðu sjávargólfið á milli Brasilíu og Vestur-Afríku. Í netfréttinni er fyrsta málsgreinin á ensku og þegar talað er um sjávargólf í fréttinni þá er það dæmigerð aulaþýðing úr ensku. Seafloor er ekki sjávargólf heldur sjávarbotn á íslensku. Það er ekkert smáræðis gólf, sem nær milli Brasilíu og Vestur Afríku! Þetta minnir næstum á Staff hershöfðingja, sem kom við sögu í stríðsfréttum Moggans fyrir áratugum!
Undarlegt er að nafnkunnir leikarar skuli ekki geta látið frá sér fara auglýsingar á sæmilega vönduðu máli. Egill Ólafsson er andvígur Icesave og les auglýsingu, sem hann er sagður hafa samið sjálfur: „Samkvæmt annálaskrifum voru íslensk börn seld í ánauð til námuvinnu á Bretlandseyjum á fimmtándu öld. Það er engin ástæða til að endurtaka áþekka framkomu vegna börnum framtíðar. Þessvegna segi ég nei við Icesave.“ Hér ætti leikarinn að segja: … vegna barna framtíðar. ….. vegna börnum framtíðar er málvilla. Þá er þess látið ógetið hve óendanlega lágt er hér lagst í málflutningi. Villan var seinna leiðrétt.
Á dögunum viðurkenndu útvarpsstjóri og dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins að orðið taxfree væri ekki lýtalaus íslenska (!) og ætti því ekki heima í auglýsingatímum Ríkisútvarpsins. En hvað segir þetta ágæta fólk þá um skelfilega auglýsingu frá gleraugnaverslun sem kallar sig Eyesland (æsland). Í auglýsingunni segir; Há dú jú læk æsland? Það hefur greinilega orðið alvarleg bilun í auglýsingadeild Ríkisútvarpsins. Og það sem meira er. Þar er búið að vera bilað lengi. Það er dómgreindin sem er biluð. Veit einhver um góða, eða bara sæmilega dómgreind til að lána auglýsingadeild Ríkisútvarpsins? Það á að henda auglýsingum sem koma frá málsóðum eins og þeim sem samdi þessa auglýsingu.
Molavin í austurvegi sendi eftirfarandi:,, Úr frétt í Netmogga dagsins: „Meterslangt gat“ og „Hvellur hvað við er þakið rifnaði.“
Það virðist brýnt að ítreka að ensku orðin „meter, liter og virus“ eru þýdd á íslensku sem „metri, lítri og veira“ og beygjast samkvæmt því. Um hitt er fátt að segja annað en að gera verður ráð fyrir að þeir, sem ráðast til blaðamennsku kunni reglur málfræðinnar, þmt. hv- og kv-regluna.
Hannes Hafstein komst svo að orði í ljóði sínu um Skarphéðin í brennunni: „Buldi við brestur, brotnaði þekjan.“ Molaskrifari þakkar sendinguna.
Skildu eftir svar