«

»

Molar um málfar og miðla 579

Úr dv.is (05.04.2011): Til átaka kom á Akranesi í hádeginu í dag þegar húseigandi reyndi að fá hús sitt afhent af leigjendum. Reyndi að fá  hús sitt afhent  af leigjendum ! Óskiljanlegt orðalag.  Leigjendur áttu að hafa sig á brott úr húsinu.  Seinna í sömu frétt segir: Við þetta snöppuðu þeir og réðust á hann,“ segir Hjördís Ágústsdóttir. Þetta er óboðlegt orðalag. Snöppuðu þýðir víst   í þessu  samhengi, – misstu stjórn á sér.

Meira úr dv. is (06.04.2011). Enn er nefnifallsýkin á ferð: Kennari sem fékk nóg af nemanda sem flakkaði um heimasíður í stað þess að glósa í tíma hefur verið vikið úr starfi fyrir að loka fartölvu nemandans.  Kennara sem …. var vikið úr starfi. Hér er  hálf  hugsun á ferð , – og líklega illa það.  Meiri nefnifallssýki, nú úr  mbl.is (06.04.2011) : Sjómaður hefur sent erindi til umboðsmanns Alþingis og til innanríkisráðuneytisins vegna þess að hann og öðrum í áhöfninni er gert ókleift að kjósa um Icesave. …. vegna þess að hann… er gert ókleift að kjósa.   Vegna þess að honum  er gert ókleift…  ætti þetta að vera.

Úr mbl.is (05.04.2011) : Hróarskelduhátíðin í fyrra þénaði 374 milljónir króna og verður upphæðin öll gefin til góðgerðarmála.  Hátíðin  þénaði!  Hátíðin skilaði hagnaði, hefði verið betra.  Mogginn hefur greinilega ekki  ráð á að ráða fólk,sem vel kann til verka. 

Auglýsingar stórfyrirtækisins Símans  bera  það með  sér að þar hafa menn  ekki taugar  til tungunnar, íslenskrar tungu.  Síminn  gekkst  fyrir  auglýsingaherferð undir  slagorðinu  ring, sem er ekki  íslenska.   Nú er í  auglýsingum  Símans  talað um  statusinn á  feisbókinni.  Þetta er hrognamál.  Af hverju ekki stöðuna á  fésbókinni,  eða  stöðuna á snjáldru?

Og svo getur hitt líka hafa gerst að þjóðin hafi eytt svo miklu tilfinngalegu púðri í tvær Icesavekosningar, svona  bloggar Egill Helgason (07.04.2011). Ekki er  hægt að   tala um tvær kosningar. Kosningar er fleirtöluorð. Þessvegna: Tvennar kosningar.

Eins og  hér hefur áður verið sagt er breytingin á veðurfréttum Ríkissjónvarpsins  fín. En þegar  birt  er  tafla með  veðurfróðleik verður  hún að standa  það lengi á skjánum að unnt  sé að lesa , helst allt sem þar stendur.  Það   er verra en ekkert að bregða  svona  töflu á skjáinn í nokkrar sekúndur.  Og að lokum legg ég til að hringjavitleysan  á bak  við fréttaþul  verði send út í hafsauga. Myndin sjálf er í lagi,  en  iðið og óróleikinn er  til  bölvunar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>