«

»

Molar um málfar og miðla 589

 

Hér er, eins og lesendur vita  manna best, oft  fjallað um  sömu hlutina í þeirri  von að dropinn holi steininn. Fréttamaður Stöðvar tvö  sagði (16.04.2011): Þú hyggst flytja erlendis.  Menn dveljast erlendis eða eru erlendis. Flytja   til útlanda eða  fara til útlanda. Þetta er rótgróið í málinu og engin ástæða  til að breyta því.

Það er gaman að rekast á blaðagreinar,sem eru svo vel skrifaðar  að  það er næstum nautn að lesa þær,  og  skipta skoðanir höfundar og lesara þá  engu.  Þannig  var um grein í  Morgunblaðinu  16.apríl: Hífðu í búkkann og statt’ann upp brekkurnar, Steingrímur.  Höfundur  greinarinnar er  Pétur Óli Pétursson,hefilstjóri. Hann heldur  betur á penna   en  flestir  langskólagengnir fréttaskrifarar. Það var gaman að bera grein hefilstjórans saman við grein lögfræðings og  Framsóknarþingmanns á  sömu síðu. 

Ritsnilldin ræður ríkjum á mbl.is,(16.04.2011): Ölvuðum og mjög æstum manni sem hafði verið til vandræða var vísað út af skemmtistaðnum Lundinn í Vestmannaeyjum í nótt. Kom hann sér strax í einhver áflog fyrir utan staðinn  og þegar hann reyndi aftur að komast inn á staðinn var honum enn vísað frá af dyravörðum. Það er  fallafælni að beygja  ekki  nafn staðarins, — vísað út af skemmtistaðnum  Lundanum, ætti þetta að vera.   Einhver áflog ??? Vísað frá  af  dyravörðum. Þarna  færi betur að nota germynd. Vísuðu  dyraverðir honum frá.

Í  sunnudagsþættti  Sirrýjar á Rás  tvö (17.04.2011)  var fróðlegt viðtal við Sigurgeir Pétursson  skipstjóra á Nýja Sjálandi, sem  er frumkvöðull í bættri  umgengni við hafið á  fiskiðmiðunum við Suðurskautslandið.  Við Einar Benediktsson  sendiherra áttum góðan dag með Geira P. á Nýja Sjálandi fyrir nokkrum árum.

Sunnudagsþátturinn á   Rás  tvö er áreiðanlega vinsæll hjá mörgum hlustendum, en stjórnandi fer oft  háskalega nærri   auglýsingamörkunum. Það er vísast hætt að skipta máli hjá stjórnendum í Efstaleiti. Í þessum efnum eiga að  gilda   siðareglur, sem stjórnendur virða. Þetta gildir  raunar um fleiri þætti eins og  t.d. Kastljósið.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Tók eftir þessu, Björn. verður nefnt í Molum.

  2. Björn S. Lárusson skrifar:

    Þeim er ekki alls varnað fréttamönnunum á Stöð 2. Í kvöldfréttum í gærkvöldi sagði einn fréttamaðurinn „… samningarnir runnu út um þúfur“. Eitthvað fer út um þúfur eða rennur út í sandinn – eða hvað?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>