«

»

Molar um málfar og miðla 610

Eftir því sem við var að búast voru  Grímsvatnagosi gerð ágæt skil í tíufréttum Ríkisútvarps og  aukafréttatíma  Ríkissjónvarps (21.05.2011).Sömuleiðis í morgunfréttum klukkan 0700 daginn eftir. Vefur Ríkisútvarpsins og mbl.is  gerðu málinu  einnig mjög  góð skil snemma á   sunnudagsmorgni. Þá var og mjög vel að verki staðið í  löngum fréttatíma  á Rás eitt milli  klukkan átta og hálfníu.

Það er búið að stytta upp, sagði veðurfréttamaður Stöðvar tvö (20.05.2011). betra  hefði verið að segja: Það hefur stytt upp, það hefur hætt að  rigna.

Í myndatexta á vef Ríkisútvarpsins var  (21.05.2011) talað um Laugavatn. Og á pressan.is  var (22.005.2011) talað um Laugadalslaug. Undarleg fáfræði um  algeng  staðanöfn.

Óþörf þolmyndarnotkun getur valdið því að merking verður óljós. Í  hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (20.05.2011) sagði fréttamaður um  tilteknar ábyrgðir:…. og voru  ekki innheimtar af Landsbankanum. Molaskrifara  er ekki ljós  hvot átt var  við að  Landsbankinn hefði ekki innheimt ábyrgðirnar, eða hvort  ábyrgðirnar  hefðu ekki verið innheimtar hjá Landsbankanum.

Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (20.05.2011) var sagt: Atlantshafsbandalagið varpaði sprengjum á höfnina í Tripoli, Al khums og  Sirte ….  Hér er ekki um eina höfn að  ræða,  heldur þrjár. Því hefði átt að segja, að sprengjum hefði verið varpað á hafnirnar……

 Oft hefur verið  minnst hér á  auglýsingastofu Ríkisútvarpsins , þar sem dómgreindarleysið  ræður ríkjum. Það er dómgreindarleysi að taka við auglýsingum þar sem talað er um að fíla tölvur og meikóverdag. Þetta er ekki íslenska og því ekki í samræmi við yfirlýsta málstefnu Ríkisútvarpsins. Auglýsingastofan telur  sig ekki þurfa að fylgja málstefnu Ríkisútvarpsins.  

Frétt um að fyrrum breskur umhverfisráðherra og þingmaður Elliot Morley hefði verið  dæmdur  í fangelsi fyrir að svíkja fé út úr breska ríkinu rifjaði upp  gamalt  samtal Molaskrifara við þennan sama Morley. Það átti sér stað á CITES (Samningur um verndun  dýra í útrýmingarhættu) ársfundi  í Nairobi, líklega 2001. Bretar höfðu borið fram tillögu um  aukna vernd beinhákarls , en lögðu  ekki  fram nein  vísindaleg gögn máli sínu  til stuðnings. Því studdum við Íslendingar ekki tillöguna. Hún var ekki studd vísindalegum rökum.  Við Morley mættumst á   förnum  vegi í ráðstefnuhúsinu og hann sagði: ,,Leitt að þið skylduð ekki  geta stutt  tillögu okkar um beinhákarlinn”.  ,,Þið lögðuð  ekki fram nein vísindaleg gögn máli ykkar til stuðnings”, svaraði ég. ,,Já, auðvitað verðum við að hafa vísindin að leiðarljósi” (,,Yes, we must always be guided by science”), sagði þá Morley. ,, Já  við erum einmitt  að reyna að segja ykkur  það um hvalastofnana”,  svaraði ég. Þar með var samtalinu eiginlega lokið og hélt hvor sína leið.

11 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ekki var það verra.

  2. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    Eins og talað úr mínu hjarta!
    Þar urðum við þó sammála!

  3. Eiður skrifar:

    Ég þykist ekki hafa það sem þú kallar ,,löggiltan smekk“, enda slíkt ekki til. Ég hlusta á máltilfinningu mína. Hroki er engum til framdráttar.

  4. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    „Ekki sambærilegt.“
    Úr því svo er þá dettur mér í hug hið fornkveðna: „Vi alene vide.“ Löggiltur smekkur lætur ekki að sér hæða. Við því er vitaskuld ekkert að segja.

  5. Eiður skrifar:

    Má vera. Tek þetta út.

  6. Stefán skrifar:

    Sæll Eiður,

    Þér misheyrðist. Páll segir „Kópavogsbæ var heimilt“ ekki „Kópavogsbær var heimilt“.

    Hlustaðu aftur, þá heyrir þú vonandi hið rétta í málinu:

    http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4547349/2011/05/20/9/

  7. Eiður skrifar:

    Ekki sambærilegt.

  8. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    Finnst þér þá eðlilegt að segja: „Siggi og Nonni hristu höfuðin“? Fyndist þér eðlilegt að segja: Áhorfendur lokuðu augunum? Trúlega því þeir hafa væntanlega flestir tvö augu. En: Áhorfendur lokuðu vinstri augunum? Færi ekki betur á því að segja: Áhorfendur lokuðu vinstra auganu? Varla hafa þeir mörg vinstri augu hver? Myndirðu virkilega segja: Áhorfendur héldu kjöftum? Og í framhaldi af því að þeir hafi haldið niðri í sér öndunum? (Þó væri hægt að réttlæta það orðalag með góðum vilja ef um væri að ræða endur sem þeir hefðu étið og þá margar hver!)
    Var ekki sprengjum varpað á höfnina í Trípólí, höfnina í Al Khums og höfnina í Sirte? Er þá óeðlilegt orðalag að segja að sprengjum hafi verið varpað á höfnina í Trípólí, Al Khums og Sirte? Hver er grundvallarmunurinn á því og að segja að ofbeldismaður hafi rassskellt Gaddafí, Bin Laden og Idi Amin? Eru rassarnir ekki örugglega þrír í dæminu? Varla myndum við þó rassaskella þá? Eða hvað?

  9. Eiður skrifar:

    Ég er ekki sammála þessari röksemdafærslu.

  10. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    „Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (20.05.2011) var sagt: Atlantshafsbandalagið varpaði sprengjum á höfnina í Tripoli, Al khums og Sirte …. Hér er ekki um eina höfn að ræða, heldur þrjár. Því hefði átt að segja, að sprengjum hefði verið varpað á hafnirnar……“
    Ertu alveg viss um þetta? Orðalagið sem þú mælir með bendir nefnilega til þess að á hverjum stað séu fleiri en ein höfn; og væri sambærilegt við að segja: „Jón og Siggi hristu höfuðin.“ Nú veit ég ekki hvernig háttað er hafnamálum á þessum stöðum, og má geta þess að t.d. í Reykjavík eru a.m.k. 3, ef ekki fleiri, hafnir, en sé svo að á hverjum stað sé höfnin ein er aðfundið orðalag fyllilega réttlætanlegt. Þetta minnir mig á hið algenga orðalag sem notað er við allskyns náttúruhamfarir í útlöndum: „Þúsundir misstu heimili sín“. Þetta hefur alltaf farið dálítið í taugarnar á mér því þarna er því haldið fram að hver einstaklingur hafi átt fleiri en eitt heimili. Nú kann svo að vera um suma en fjarri því að vera aðalreglan, jafnvel er líklegt að heimilin séu mun færri en missendurnir.

  11. Þorkell Guðbrandsson skrifar:

    „Grimsvatnargosið í heimsfréttunum“

    Fyrirsögn á visir.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>