«

»

Molar um málfar og miðla 611

Báðar gerðu sjónvarpsstöðvarnar Grímsvatnagosi góð skil í fréttatímum á sunnudagskvöld (22.05.2011) og verður þar ekki gert upp á milli. Í Ríkissjónvarpinu stóð Landinn að venju fyrir sínu og  svo  fylgdi  ágæt mynd Eggerts Gunnarssonar um flutning sinfóníunnar úr Háskólabíói í Hörpu.

 Á stundum er fréttamat Fréttastofu Ríkisútvarpsins svo einkennilegt, að undrun sætir og gamlir fréttamenn klóra sér í hausnum!

Íslenskir  jarðvísindamenn vissu  síðdegis á laugardag að  gos væri  um það bil að hefjast í Grímsvötnum, virkustu  eldstöð landsins. Hvað var  fyrsta frétt Ríkissjónvarps? Frétt um slæman aðbúnað  heilabilaðs manns. Vissulega  efni,  sem  þarft er  að vekja  athygli á og  fjalla um t.d. í Kastljósi, eða sem  lokaþátt fréttatíma. En aldeilis óskiljanlegt fréttamat að hafa þetta  fyrstu frétt  í aðalfréttatíma, þegar vitað var að eldgos var um það bil að hefjast. Þetta var slæmur dómgreindarbrestur.

Illa að orði komist á pressan.is (21.05.201): Myndina tók Sigurlaug Linnet sem staðsetter á sveitabæ þar í nágrenninu.  Staðsett á  sveitabæ! Af hverju er  bærinn ekki nefndur?  Blaðamaður  hefði  getað sagt:  Sigurlaug Linnet  á  (nafn bæjarins) tók myndina. Frábær mynd.

Fyrsti vinningur eru  fimm  milljónir, sagði Lottóþulur (21.05.2011). Eðlilegra hefði verið að segja: Fyrsti finningur er  fimm milljónir…

Úr mbl.is (21.05.2011): Aska rigni úr mekkinum bæði til suðurs og norðurs vegna þess hvað vindur sé hægur.  Molaskrifari hefði haldið, að hér  hefði átt að standa: Ösku rignir úr  mökknum ( eða mekkinum)….

Heimsendaspá bandaríska  predikarans Harolds Campings hefur verið  fréttaefni að undanförnu. Hún rættist ekki frekar en aðrar  slíkar til þessa. Prédikarinn á  margar útvarpsstöðvar, sem á  ensku  heita Family Stations Inc. Í fimm fréttum Ríkisútvarps að morgni dags (21.05.2011) var talað um Family Stations Included. Það er rangt Skammstöfunin Inc.  er  stytting  á orðinu incorporated, sem  þýðir að  fyrirtæki sé lögaðili, með takmarkaða ábyrgð eigenda eins og í hlutafélagi. Þegar orðið  including  eða inclusive er  skammstafað, þá er skammstöfunin venjulega incl.

Efnahagsásatandið hefur bitnað harkalega á  hjúkrunarheimilum og íbúum þess, sagði  fréttamaður  í fréttum Ríkissjónvarps (21.05.2011). þetta er auðvitað rangt. Hann hefði til dæmis getað sagt: Efnahagsástandið hefur  bitnað harkalega á hjúkrunarheimilum og þeim sem þar  búa. Í þessum sama fréttatíma  ræddi fréttaþulur við fulltrúa Almannavarna og sagði: … það er engin saga í þá  veru að það sé nein hætta, sem stafar af þessu gosi?   Það var og.

Á  Rás tvö (22.05.2011) var á sunnudagsmorgni talað um að setja á sig  handheldar græjur. Líklega átti þáttastjórnandinn við að  hún  ætlaði  að nota   þráðlausan hljóðnema og sendi. Handheldar  græjur ! Þáttastjórnendur eiga að vanda málfar sitt.

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það er eins og kunnátta í móðurmálinu og sæmileg þekking á Íslandi sé ekki lengur forsenda þess að segja okkur fréttir í Ríkisútvarpinu.

  2. Grímur Sigurðsson skrifar:

    Heyrði í áttafréttum RÚV í morgun talað um að áhrifa eldgossins gætti „til Víkurs“ (í Mýrdal). Hélt þetta hefði verið missögn eða -heyrn, en ambagan var endurtekin í hálfníuyfirlitinu.

  3. Emil R. Hjartarson skrifar:

    Laugardaginn 21.maí birtist grein í „Mogga“ þar sem m.a. var sagt frá að líkbrennslum fjölgaði mjög hér á landi. Fyrirsögn greinarinnar var: BÁLFARIR AÐ VERÐA HEITASTAR Í ÚTFÖRUM

    Býður einhver betur ?!!

  4. GG skrifar:

    gættu að stafsetningarvillunum í skrifum þínum um villur annarra…. 🙂

    sjá ma. „Á stundum er fréttamat Fréttastofu Ríkisútvarpsins vo einkennilegt, að undrun sætir og gamlir fréttamenn kóra sér í hausnum!…“

  5. Eiður skrifar:

    Sammála. Það var prýðilega fjallað um þetta í Daglegu máli á Rás eitt í þættinum Vítt og breitt rétt fyrir klukkan átta í morgun.

  6. Jóhannes Laxdal skrifar:

    Sæll Eiður, Eitt sem hefur farið dálítið í taugarnar á mér varðandi umfjöllun um gos almennt, er hvernig fjölmiðlamenn beygja orðið mökkur. Mín máltilfinning segir mér að betur fari á að nota eignarfallsmyndina, mökks en ekki makkar. Samanber Kökkur. Engum dettur í hug að segja kakkar!! Mér finnst verið að rugla saman beygingum á örðum sem enda á -ur og þeim sem gera það ekki. Síðan er vitleysan orðin að málvenju. Orðið blökk er dæmi um þetta. Hér er rétt að segja til blakkar af því orðið endar ekki á -ur. Hvað finnst þér?

    Með kveðju og þökk fyrir góða pistla

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>