Fréttatímar sjónvarpsstöðvanna á mánudagskvöldið (23.05.2011) voru ólíkir. Báðir góðir, hvor með sínum hætti. Ríkissjónvarpið sá þó til þess að fótbolti og formúla fengju rúman tíma, – Þar breytti engu þótt tæpur klukkutími af dagskránni seinna um kvöldið væri líka lagður undir fótbolta. Hjá ríkinu hefur fótboltinn alltaf forgang.
Hvað eftir annað hefur Molaskrifari að undanförnu heyrt fréttamenn segja að ekki sjái milli handa. Hafa lesendur heyrt þetta áður? Molaskrifari viðurkennir að þetta orðtak er honum framandi. Í niðamyrkri er hinsvegar talað um að menn sjái ekki handa sinna skil.
Í texta í dagskrárkynningu í Ríkissjónvarpi (22.05.2011) stóð: Ég finnst allt í lagi, að konur… Undarlegt hvernig svona villur komast alla leið á skjáinn heima hjá okkur áhorfendum.
Hvernig eru heimamenn að taka þessari stöðu? Svona spurði fréttamaður Ríkissjónvarps (22.05.2011). Sami fréttamaður sagði í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarps: Þeir íbúar sem þú hefur talað við, hvernig eru þeir að taka þessu? Þetta er að verða leiðinlega kunnuglegt orðalag í fréttum. Ekki til fyrirmyndar.
Svo kallað Smartland Mörtu Maríu á mbl.is er oft mikill ambögusjóður. Þar stóð (22.05.2011): Í íbúðinni eru innihurðir og fataskápar úr tekki ,en eitt af prýðum íbúðarinnar … orðið prýði er ekki til í fleirtölu. Þessvegna er þetta ekki rétt til orða tekið.
Í ljómandi góðum tónlistarþætti frá tónleikunum í Hörpu á Rás eitt (22.05.2011) sagði umsjónarmaður, að Hörpu kvintettinn væri skipaður af og taldi síðan upp nöfn tónlistarmannanna. Þarna var orðinu af algjörlega ofaukið. Rétt hefði verið að segja Hörpukvintettinn skipa, eða í Hörpukvintettinum eru…
Úr DV (23.05.2011): ,,Skiptum er lokið í þrotabúum L182A ehf , áður Lögmenn Laugardal ehf og M182B ehf, áður Fasteignasalan Miðborg ehf.. Engar eignir fundust í búunum en lýstar kröfur námu samtals 135 milljónum króna í félögunum tveimur. Félögin voru í eigu lögfræðinganna Björns Þorra Viktorssonar og Karls Georgs Sigurbjörnssonar ……. Félögin Lögmenn í Laugardal og Fasteignasalan Miðborg eru ennþá starfrækt í dag en undir nýrri kennitölu.” Varla getur það verið að þessi Björn Þorri sé sá hinn sami sem fjölmiðlar sífellt kalla til sem álitsgjafa. Ef svo er , getur það varla talist mjög trúverðugt, nema verið sé að spyrja um kennitöluflakk.
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
29/05/2011 at 12:54 (UTC 0)
Þetta er bara eftir öðru. Takk fyrir ábendinguna.
Sigríður B. skrifar:
29/05/2011 at 12:34 (UTC 0)
En hvað fannst þér þá um fyrirsögnina hjá Pressunni 23. maí 2011 sem hljómaði svona: ,,Mannslát í Reykjavík: Hinum handtekna sleppt eftir krufningu – Rannsókn heldur áfram“
Ég gat ekki annað en brosað þótt umfjöllunarefnið sé afar sorglegt.
Eiður skrifar:
24/05/2011 at 16:04 (UTC 0)
Rétt. Það er undarlegt að tala um ,,neikvæða ávöxtun“. Eiginlega alveg út í hött.
Sigurður Karlsson skrifar:
24/05/2011 at 15:44 (UTC 0)
Á vef Viðskiptablaðsins í gær mátti lesa um lífeyrissjóð: „Hrein ávöxtun á árinu 2009 var neikvæð um 4,9%.“
Mér hefur alltaf þótt erfitt að skilja hvernig vöxtur getur verið neikvæður, hefði haldið að það væri rýrnun eða minnkun. En ætli ávöxtun geti þá líka verið neikvæð rýrnun?
Þetta minnir svolítið á þann sem sagðist ekki hafa verið fullur heldur bara lítið edrú…