«

»

Molar um málfar og miðla 613

Ásgeir Páll   sendi Molum eftirfarandi,  þegar hann hafði lesið heimasíðu forsætisráðherra: ,, …  ákvað ég að senda þér þessi skilaboð þegar ég sá  „færslu“ á Facebook síðu Jóhönnu nokkurrar Sigurðardóttur. Hún skrifar:
„Nokkrar myndir úr fróðlegri og skemmtilegri fundaferð mín og velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson. Opnir fundir á Akureyri, Blönduósi og Akranesi og háskólinn á Bifröst og Dvalaheimili aldraðra í Borgarnesi heimsótt.“   Varla er þessi íslenska til fyrirmyndar”. Nei, öldungis ekki. Merkilegt að enginn  skuli sjá þetta og færa til betri vegar.

Úr mbl.is (24.05.2011): Nú er orðið ljóst að loftrýmið yfir Keflavík og Reykjavik lokar að nýju um kl. 23 í kvöld til kl. 8 í fyrramálið vegna ösku frá Grímsvatnagosinu. Flugvöllurinn á Egilsstöðum lokar einnig... Undarlegt hvað jafn einfalt mál getur vafist  fyrir fréttaskrifurum.  Loftrýmið yfir Keflavík og Reykjavík lokar  ekki neinu. Heldur ekki flugvöllurinn á Egilsstöðum.   Loftrýminu var  lokað og  Egilsstaðaflugvelli var lokað.

Úr  mbl.is (24.05.2011): Kostnaðurinn vegna þátttöku Dana í hernaðaraðgerðum í Líbíu er orðinn margfalt dýrari en stjórnmálamenn áætluðu þegar áætlunin var samþykkt á Folketinget. Kostnaður   verður ekki dýrari, kostnaður verður  meiri  eða minni en áætlað var.  Svo  er orðalagið,   samþykkt á  Folketinget  svolítið ánalegt.  Betra hefði verið að segja, að áætlunin hafi verið  samþykkt í danska þinginu. En það er nú kannski sérviska Molaskrifara.

Fyrst var gosið,sem var valdur að frestuninni, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps (23.05.2011). Það var og.

Það var ágætt hjá  Fréttastofu Ríkisútvarpsins að setja  hlutina í samhengi þegar verið  var að segja  frá  röskun á flugi í Evrópu vegna   Grímsvatnagossins. þá kom nefnilega fram að 500 flugferðir  höfðu fallið  niður  en  alls voru á áætlun 29 þúsund  ferðir þriðjudaginn 24. maí.

Tvö ensk orðtök hafa læðst inn í málið að undanförnu. Að vera á tánum, (vera á varðbergi) og krossa  fingur (krossleggja  fingur í von um að eitthvað gangi vel). Það er kannski óþarfa smámunasemi að nefna þetta. Molaskrifari gerir það nú samt.

Molaskrifari veltir því fyrri sér hvort einn reyndasti fréttamaður Ríkisútvarpsins, Jón Guðni Kristjánsson,  hafi fengið bágt fyrir hjá yfirboðurum sínum , þegar honum varð það á að tala um Fréttastofu útvarpsins, en  ekki fréttastofu RÚV, eins og  dagskipunin nú hljóðar.

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hjartanlega sammála þér, Magnús Karel.

  2. Magnús Karel Hannesson skrifar:

    Góðan dag.
    Hvað finnst þér þá um eilíft tal fréttamanna um bæinn Kirkjubæjarklaustur? Þekkja fréttamenn ekki orðið þorp? Kirkjubæjarklaustur er ekki bær, heldur frekar lítið þorp. Það er talað um bæjarskrifstofurnar á Klaustri og undir viðtali stóð á sjónvarpsskjánum XX bæjartæknifræðingur á Kirkjubæjarklaustri. Sveitarfélagið heitir Skaftárhreppur og því væri rétt að tala um hreppsskrifstofurnar og þá tæknifræðings Skaftárhrepps. Maður átti alveg eins von á því að fréttamenn færu að tala um borgarskrifstofurnar og borgarverkfræðing á Kirkjubæjarklaustri. Eru ekki starfandi málfarsráðunautar á fjölmiðlunum?
    Kveðja,
    Magnús Karel

  3. Friðrik Smári skrifar:

    Burtséð frá öðrum villum Hrannars B. (Jóhönnu Sigurðardóttur) þá kemur beygingin á nafni velferðarráðherra væntanlega til vegna þess að hann er merktur (e. tagged) í færslunni. Svipar til þess að við hverju færslu molaskrifara stendur: eftir Eiður.

    Með því að benda á þetta atriði er ekki verið að gera lítið úr öðrum villum Hrannars.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>