«

»

Molar um málfar og miðla 614

 

Molavin sendi eftirfarandi úr  dv. is  (25.05.2011):  Milljarðaskuldir N1 breytt í hlutafé. Það er ekki aðeins svo komið að nýfréttafólki reynist nær útilokað að ráða við aukasetningar; beyging nafnorða virðist því líka um megn.  Molaskrifari  þakkar sendinguna.

 Glöggur lesandi sendi Molum eftirfarandi (26.05.2011): ,,Ég rak augun í undarlega orðnotkun í morgun í Fréttablaðinu.  Á bls.2 er texti undir mynd af koparventli úr póstskipinu Phönix, þar stendur að „rústirnar“ hafi legið á hafsbotni í 130 ár. Ég get ekki annað en brosað að hugmyndaflugi blaðamanns.” Molaskrifari þakkar sendinguna.  Flak verður  að rústum. Orðfátækt  fjölmiðlamanna fer líklega vaxandi. Takk fyrir sendinguna.

Það er umhugsunarefni, eins og  bent hefur verið á í Fréttablaðinu (26.05.2011) að nokkrir helstu andstæðingar  ESB aðildar Íslands, þeir Ögmundur Jónasson og Styrmir Gunnarsson,  eru nú farnir að sækja í orðaforða nasismans og  Þýskalands Hitlers í umræðunni með því að nota  orð eins og  lífsrými og   blitzkrieg. Annar harður ESB  andstæðingur, Björn  Bjarnason,  hefur   áður  sagt að þegar umræðan sé  komin á   það stig að líkingar eru sóttar  til þýskra nasista, þá sé umræðunni   eiginlega lokið.  Í  Silfri Egils sagði Björn Bjarnason orðrétt  3.febrúar  2008: Björn Bjarnason: Heyrðu, Sigurður Líndal skrifaði þannig um þetta að hann skrifaði sig út úr umræðunni með því að fara að líkja gjörðum Árna Mathiesens við nasisma. Það var verið að víkja þingmanni á Evrópuþinginu, Daniel Hannan, úr EPP eða hægri flokknum, þingflokknum á Evrópuþinginu, af því að hann í þingræðu fór að vísa til þess að þingflokksforsetinn væri að beita einhverjum nasískum aðferðum. Af því að það er nefnilega staðreynd að þegar menn fara út í þann forarpytt að líkja andstæðingum sínum við nasista  þá eru þeir komnir út af borðinu, þá er þeim vikið úr þingflokkum og þá er eiginlega ekki hægt að ræða sjónarmið þeirra lengur. Þetta gerði Sigurður Líndal í Fréttablaðinu. Það er ekki hægt annað en að taka undir með  Birin. Hann verður að leiðrétta,,kúrsinn” hjá þeim skoðanabræðrum sínum Ögmundi Jónassyni og Styrmi Gunnarssyni.

Viljandi  vinna íslensk fyrirtæki eins og   Húsasmiðjan skemmdarverk á tungunni með því að  tönnlast á  orðinu tax-free í auglýsingum. Þarna  er líka verið að ljúga að lesendum. Hvorki Húsasmiðjan né önnur  fyrirtæki  geta  gefið kaupendum skattaafslátt. Þau geta  hinsvegar veitt afslátt, sem  er jafnhár  virðisaukaskattinum, í prósentum talið.  Þetta er ljótur  leikur.  Og þennan ljóta leik stunda reyndar fleiri fyrirtæki, en Húsasmiðjan.

 Í framhaldi af þessu spyr  Molaskrifari: Hversvegna  þarf fyrirtækið Holtakjúklingur að auglýsa Royal bringur?  Halda forráðamenn fyrirtækisins að Íslendingar kaupi frekar framleiðslu þess, ef hún er auglýst undir ensku nafni? Við neytendur erum kannski kjánar, en svo miklir kjánar held ég að við sé ekki.

Það er afar sjaldgæft að heyra  ambögur í  morgunþætti  Rásar eitt. Í morgun (26.05.2011) varð umsjónarmanni það á að tala um  að mælt hefði verið hundrað og þrjá  sentimetra öskulag við gíginn. Átti að  sjálfsögðu að vera hundrað og þriggja sentimetra öskulag. Einnig var sagt að  þetta væri  mesta öskudreifing í  Grímsvatnagosi  síðustu tíma. Betra hefði  verið að  tala um mestu  öskudreifingu á seinni tímum. Eða mestu öskudreifingu,sem sögur færu af í Grímsvatnagosi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>