«

»

Molar um málfar og miðla 616

Í áttafréttum  Ríkisútvarps  (28.05.2011) var ítrekað talað um  konungsdæmi. Molaskrifari hyggur að málvenja sé að tala um konungdæmi og konungsríki.

Þar var líka sagt: … Þegar leigubíll,sem hann ætlaði með var ekið af stað … . Leigubíl var ekið af stað, ekki leigubíll.

Stundum kemst einhver  villa á kreik í fréttum. Villuna étur svo hver  fjölmiðillinn á fætur  öðrum upp að óathuguðu máli. Þetta gerðist  hjá   Morgunblaðinu og  Ríkisútvarpinu þar sem talað var um Hrafnistu í  Kópavogi.  Nema þá að villan eigi rætur að rekja til lögreglunnar. Þetta var hinsvegar  rétt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (28.05.2011), en þá var réttilega talað um Hrafnistu í Hafnarfirði.

Viðtal Sigmars Guðmundssonar við landlækni í Kastljósi í síðustu viku hefur orðið Molaskrifara umhugsunarefni.  Landlæknir  fór allur undan í flæmingi þegar  Sigmar spurði um kjarna  þess alvarlega máls sem læknadópið er. Læknar senda  lyfseðla  rafrænt um   svokallaða lyfseðlagátt. Meðaltölvubjáni veit að það er sára einfalt  að fylgjast með því rafrænt  hve mikið af   tilteknum  lyfjum tiltekinn einstaklingur  fær með lyfseðlum og frá hvaða læknum. Ekki  getur  verið að Persónuvernd setji sig á móti því  að  reynt sé að stemma þessa lyfjaá að ósi. Svör embættislæknisins voru þannig að  maður var engu nær. Þetta er í eðli sínu ekki flókið mál.

Gera verður  nokkrar kröfur um formlegt málfar í  fréttum Ríkisútvarpsins. Þar  eiga fréttamenn að  forðast barnamál og slangur.  Í hádegisfréttum (28.05.2011) var  talað um að hneppa menn í fangelsi , en  notað orðalagið, að stinga mönnum inn.  Ekki við hæfi, jafnvel þótt verið sé að tala um þá sem eitthvað hafa til saka unnið.

Upphæðirnar skipta hundruðum milljónum króna, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (28.05.2011). Hér hefði átt að segja: Upphæðirnar skipta  hundruðum milljóna króna. Þegar   fólk mismælir sig, sem alltaf getur komið fyrir, þá er að leiðrétta mismælið. Hér var ekkert leiðrétt. Kannski vissi sá sem las ekki betur, eða var ekki að  hlusta  það sem hann las.

Meira úr  fréttum Ríkissjónvarps  þetta sama kvöld: .. hann segir það velta á hverjum og einum flokksmanni hvort umbótatillögur flokksins ná fram að ganga.   Molaskrifari hallast að því að hér hefði frekar átt að segja: … hvort umbótatillögur flokksins nái fram að ganga.  Eitthvað  var landafræðikunnáttunni áfátt  hjá fréttamanni, sem  sagði okkur frá  gervinhnattamyndum af brennisteinsdíoxíði í Grímsvatnagosi.  Fréttamaður  talaði um  gervihnött  háskólans í Wisconsins Madison.  Líklega hefur  verið átt við gervihnött á vegum  Wisconsin háskóla, sem er  í Madison, höfuðborg  Wisconsinríkis í Bandaríkjunum..

Frétt á  visir.is (28.05.2011): … en þar gengu lögreglumenn og stöðumælaverðir á milli bíla sem voru lagðir ólöglega og sektuðu þá.  Bílunum var lagt ólöglega. þeir  voru ekki lagðir ólöglega. Þetta hefur sést áður.  Svo voru það eigendur bílanna, sem voru sektaðir. Ekki bílarnir.

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta er réttmæt ábending.

  2. Lilja skrifar:

    Ekkert að þakka Eiður.
    Mér sýnist reyndar að þú hafir núna tekið gagnrýni þína á fréttaflutning Morgunblaðsins og Ríkisútvarpsins um Hrafnistumálið út úr Molunum. Hefði ekki verið eðlilegra að leyfa þessu að standa í Molunum og viðurkenna að þér hefði sjálfum orðið á í messunni hvað þetta varðar?

  3. Eiður skrifar:

    Takk fyrir ábendinguna.

  4. Lilja skrifar:

    „Stundum kemst einhver villa á kreik í fréttum. Villuna étur svo hver fjölmiðillinn á fætur öðrum upp að óathuguðu máli. Þetta gerðist hjá Morgunblaðinu og Ríkisútvarpinu þar sem talað var um Hrafnistu í Kópavogi. Nema þá að villan eigi rætur að rekja til lögreglunnar. Þetta var hinsvegar rétt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (28.05.2011), en þá var réttilega talað um Hrafnistu í Hafnarfirði.“

    Lestu þetta Eiður – http://www.hrafnista.is/?ew_news_onlyarea=content1&ew_news_onlyposition=5&cat_id=8010&ew_5_a_id=378402

  5. Lilja skrifar:

    Hrafnista í Kópavogi – sjá http://www.hrafnista.is/heimilin/hrafnista_kopavogi/

  6. Guðfinnur P. Sigurfinnsson skrifar:

    Sæll og blessaður.

    Það er með hundruð og amböguna ,,hundruðir“ – ,,upphæð“ og fjárhæð.

    Þykir rétt að minna á að sagt er að til sé Guð í upphæðum en þegar talað er um peninga þykir mér fara betur á að tala um – fjárhæðir – , sem geta þess vegna verið hundruð (ekki hundruðum) miljónir eða miljarðar, hvort heldur er líklegra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>