«

»

Molar um málfar og miðla 617

Í vikudagskrá Ríkissjónvarpsins bera sunnudagskvöldin af.   Í Landanum er jafnan  áhugavert  efni víðsvegar að af landinu  og Skarfamynd  þeirra  Páls Steingrímssonar og Friðþjófs Helgasonar (29.05.2011)  var frábær. Eiginlega afrek að mati Molaskrifara. Takk fyrir það. Ekki var Molaskrifari jafnhrifin af  Töfraflautu  Mozarts, sem Kenneth Branagh hefur   skáldað í kvikmynd. Tónlistin ævinlega jafnhrífandi, en myndgerðin og breytingarnar  voru ekki  til bóta. Þetta varð einhvern veginn ekki trúverðugur  friðarlofsöngur eins og ætlun leikstjórans líklega var. Sennilega er 30 árum  eldri óperukvikmynd Ingmars Bergmans um sama  verk  betri.  Í myndinni sem Ríkissjónvarpið sýndi  fór  René  Pape með hlutverk  Sarastros og hefur fengið mikið lof  fyrir.  Molaskrifara finnst hann þó ekki komast með tærnar þar sem Kristinn okkar Sigmundsson hefur hælana, t.d. í uppfærslunni í Drottningholms hallarleikhúsinu í Stokkhólmi. Þar var farið svo nálægt  frumgerð Töfraflautunnar sem kostur var. Þar  fór Kristinn á kostum eins og  ævinlega.

  Það er þó þakkarvert, að Ríkissjónvarpið skuli hafa uppgötvað að óperur er hægt að sýna í  sjónvarpi, en vonandi tekst betur til með valið næst.  

Glöggur lesandi  benti Molaskrifara á launfyndna  fyrirsögn  á  forsíðu Fréttablaðsins (30.05.2011): Breytir húsi Jóhannesar í Bónus.  Vaðlaheiðarvillan verður sem sé Bónus. Um að gera að fjölga Bónusbúðunum sem mest.  Fréttamaður Ríkisútvarpsins var líka óvart fyndinn í hádegisfréttum (30.05.2011) er hann sagði: … sem hann hefur  undir höndunum, en átti  við  sem hann hefur  undir höndum. Eitt  er að hafa eitthvað undir höndunum og annað að hafa eitthvað undir höndum.

Molavin sendi eftirfarandi: “ var að reyna að ganga í augun á sætisfélaga sínum…“  ,,Þetta orðalag kemur bæði fram í fyrirsögn og frétt á Pressunni. í dag, sunnudag.  Ég velti því fyrir mér hvort Delta flugfélagið sé farið að selja fleiri farþegum sama sætið, þannig að hver verði að sitja undir öðrum, eða hvort blaðamanni Pressunnar sé bara ekki kunnugt um íslenzka orðið „sessunautur.“ Sessunautar sitja þó að minnsta kosti hvor við annars hlið”.   Molaskrifari þakkar sendinguna.

 Í fréttum Stöðvar tvö  (29.05.2011) var  talað um háa fjárfestingu. Molaskrifara hefði þótt eðlilega að tala um mikla fjárfestingu. Þar var líka talað um eftirspurnarleysi, sem  er heldur undarlegt  orð!  Í þessum sama fréttatíma heyrði Moalskrifari ekki betur  en  fréttamaður  talaði um að  versla sér mun  eða muni  í verslun  norður í Skagafirði , í merkingunni að kaupa grip  eða  gripi.   Makalaust að sífellt  skuli  ruglað saman sögnunum að kaupa og versla , sem hreint ekki hafa sömu merkingu.

Í  Landanum í Ríkissjónvarpinu , þar sem  texti er  yfirleitt hnökralaus  var sagt frá silfurbergsnámunni í Helgustaðafjalli   við  Reyðarfjörð. Ekki heyrði Molaskrifari betur en þar væri  talað um  gangnamunninn, þegar átt hefði að tala um gangamunnann. Göng eru eitt, göngur annað. Munni er eitt, munnur annað.

Í  níu fréttum Ríkisútvarpsins á sunnudagsmorgni  (29.05.2011) var ein innlend frétt. Það var tilkynning frá  lögreglunni á Seyðisfirði þar sem varað var við slæmri  færð á Fjarðarheiði. Við fengum fréttir  af afleiðingum skýstróksins , sem  lagði hluta af bænum  Joplin í rúst. Okkur var sagt frá kjörsókn á Möltu,  tillögu Arababandalagsins um aðild Palestínu að Sameinuðu þjóðunum og landamæraeftirliti á  landamærum Danmerkur og  Þýskalands.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Orðrétt af vef Ríkisútvarpsins 30.05.2011: ,,Stofnunin hafi hunsað hljóðbandsupptökur sem hún hafi undir höndunum sem sanna að ísraelska leyniþjónustan hafi haft upp á Mousa í Noregi og haft í alvarlegum hótunum við hann í gegnum síma““.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>