«

»

Molar um málfar og miðla 618

Svona vörumst við svindlurum á net-  segir í fyrisögn í DV (30.05.2011). Þarna vantar lokin á setninguna.  Aukinheldur ætti þetta  að vera:  Svona vörumst við svindlara. Við  gætum okkar á  svindlurum. Vörumst  svindlara. Verið  var að ræða um þá sem  svindla á fólki í netverslunum.

Gunnar Bergmann sendi samkennurum sínum eftirfarandi setningu úr hádegisfréttum Ríkisútvarpsins og Molaskrifari naut  góðs af: :
„Jarðfræðingurinn varaði fólk við að fara of nærri brúninni vegna sprengihættu í hádegisfréttum RÚV.“
Hlýtur að vera stórhættulegur vinnustaður! Molaskrifari þakkar sendinguna.

Gunnar spyr:  Hefurðu skrifað eitthvað um tafsið, eins og ég kalla það? Sumir vilja kalla þetta hikorð, en stundum er þetta nú eitthvað meira en hik, finnst mér. Kannski eitthvert betra orð til yfir þetta. Ég á við: en,en,en, og, og, og , hérna, hérna, hérna, og fleira. Molaskrifari hefur  einhvern tíma  nefnt þetta.  Fór aðeins að hlusta  grannt og heyrði þá  endurtekið viðtal úr Samfélaginu í nærmynd í Ríkisútvarpinu (31.05.2011). Þar tókst þeim sem rætt var  við oftar en einu sinni  að segja  fjórum sinnum sko í  örstuttum setningum. Oft veit  viðkomandi ekkert  af þessum ósið. Hann er orðinn samgróinn. Vinir gerðu vel í því að benda   viðkomandi á þetta mállýti. Það hlýtur að vera hægt að venja  sig  tafsinu.

 Oft hafa verið gerðar athugasemdir í þessum Molum við  málfar umsjónarmanna morgunútvarps Rásar tvö.    Rætt var um klæðaburð  kvenna  sem  keppa í badminton (30.05.2011),  eða hniti, en það nýyrði hefur ekki náð festu. Annar umsjónarmanna  sagði að það ætti að  skipa konur í pils, hinn lét ekki sitt  eftir  liggja  og   sagði að skipa ætti stelpurnar í pils. Átt var við  að  skipa ætti konum að klæðast pilsum, er þær keppa í þessari íþróttagrein. Líklega ættu  þessir umsjónarmenn að hlusta á  Daglegt mál  Aðalsteins Davíðssonar,sem er á dagskrá á Rás eitt  í þættinum  Vítt og  brett á mánudagsmorgnum. Það mætti bregða plötu á fóninn á Rás tvö meðan þeir væru að hlusta.

Það er lofsvert, að Ríkissjónvarpið skuli nú ætla að sýna okkur íslenskar kvikmyndir.  Það er hinsvegar arfavitlaus dagskrárgerð  að   sýna  okkur á þriðja tug íslenskra kvikmynda  í sumardagskrá.

 Þessu  góða efni á að dreifa  á vetrardagskrána, þegar mun meira er horft á sjónvarp.  Það er svo bull og fyrirsláttur að Ríkissjónvarpið hafi   til þessa ekki haft fé  til að kaupa íslenskar kvikmyndir  til að sýna okkur. Allt er þetta spurning  um  forgangsröðun. Það hefði mátt minnka  fótboltann svolítið en auka íslenskt menningarefni. Fjárskortur   virtist til dæmis ekki hafa hamlað því að útvarpsstjóraembættið fengi  til umráða  einn dýrasta  glæsijeppa, sem  fáanlegur var á bílamarkaði á  Íslandi. Til hvers í ósköpunum. Var það eina leiðin til að komast milli húsa?  Meðan fjármunum er ráðstafað á þann veg,  blásum við á   krepputal  í dagskrárgerð eða kaupum á innlendu  efni til sýningar í sjónvarpi.  Þannig   ráðstafar ekki stofnun sem er í alvarlegum kröggum takmörkuðum fjármunum. Lagði stjórn Ríkisútvarpsins blessun sína yfir þennan gjörning? Eða var hún ekki spurð? Til hvers er hún?   

Í veðurfregnum frá Veðurstofu Íslands  er   stundum sagt: Mestur  vindhraði á landinu í morgun  voru  8 metrar á sekúndu …  Þetta er ekki  rétt. Þarna  ætti að  segja: Mestur vindhraði á landinu var átta metrar á sekúndu.  Vindhraðinn var….

Molaskrifari  mundi meta  það mikils , ef  fréttaþulir Stöðvar tvö og  Kastljóssfólk hætti að  segja honum  að fara ekki langt, þar sem hann situr í makindum  og horfir og hlustar. Þetta er algjörlega óþörf afskiptasemi.

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Molaskrifara varð á í messunni í Molum nr. 618. Þar sagði hann að báðir umsjónarmenn morgunútvarps Rásar tvö hefðu sl. mánudag talað um að skipa konur í pils. Verið var að fjalla um klæðnað kvenna,sem keppa í badminton. Hið rétta er, að aðeins öðrum umsjónarmanninum varð þetta á . Endurhlustun, eftir réttmætri ábendingu leiddi í ljós, að hinn sagði : Skikka konur í pils, sem auðvitað er rétt orðalag. Viðkomandi umsjónarmaður er beðinn innilega afsökunar á að hafa verið hafður fyrir rangri sök. Molaskrifari vill auðvitað hafa það sem sannara reynist. Honum misheyrðist svona illilega og það enda þótt hann hlustaði oftar en einu sinni á þessi ummæli. Hann þarf kannski að endurnýja hátalarana við tölvuna sína.

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Ómar Ingi.

  3. Ómar Ingi skrifar:

    Sæll Eiður

    Ég er áhugamaður um íslenska tungu og vandaða framsetningu á íslensku málfari. Ég hef mikla ánægju af því að lesa þessa pistla þína og er þér algerlega sammála að málfari margra fréttaritara beri að fylgja eftir og benda á þarfar leiðréttingar þegar við á.

    Mun klárlega halda áfram að lesa pistlana þína

    Kveðja

    Áhugamaður um íslenska tungu

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>