Nýr fréttalesari í Ríkissjónvarpinu (31.05.2011), Rakel Þorbergsdóttir komst prýðilega frá sínu í kvöldfréttum.
Molavin sendi eftirfarandi: visir.is fjallar í dag (01.06.2011) um forsetakjör í Alþjóða knattspyrnusambandinu. Þar segir m.a. „Englendingar hlutu afhroð í kosningunum um hvar ætti að halda HM 2018…“ Menn gjalda afhroð eða hljóta illa útreið, lúta í lægra haldi, bíða ósigur eða bara tapa. En hljóta ekki afhroð.
Kærar þakkir fyrir ábendinguna.
Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (31.05.2011) var ef. flt af orðinu agúrka haft agúrka. Í fréttum Ríkissjónvarpsins var ef. flt. hinsvegar agúrkna ,sem Molaskrifari hyggur að sé réttara, þótt finna megi dæmi um hina beyginguna.
Í fréttum Stöðvar tvö (30.05.2011) heyrði Molaskrifari útundan sér að talað var um að vindstrókar, eða hvirfilvindar, reistu súlur undan strönd Ástralíu. Eðlilegra hefði verið að segja að vindstrókarnir hefðu þyrlað upp súlum af haffletinum.
Of algengt er að heyra talað um fleiri ár , eins og gert var í íþróttafréttum Ríkissjónvarpsins (30.05.2011) þegar átt er við mörg ár. Fleiri en hvað, liggur beint við að spyrja?
Tvívegis heyrði Molaskrifari (01.06.2011) Ásmund Einar Daðason, segja í fréttum Ríkisútvarps, — eins og ég rakti hér áðan. Gallinn var bara sá að hlustendur höfðu ekki heyrt þingmanninn rekja neitt áðan. Svona eiga fréttamenn að lagfæra fyrir útsendingu, þegar viðtöl eru stytt, eins og þarna var sennilegt gert.
Molaskrifari hefur efasemdir um að rétt sé að tala um að urða kerbrot frá álverum í sjó, þegar þeim er fargað í flæðigryfjur þar sem þau smá saman verða skaðlaus.
En hver verður eftirmálinn? Svona spurði fréttamaður Ríkissjónvarps (01.06.2011) , þegar rætt var um ágreining ríkisstjórnarflokkanna um hernaðaraðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Líbíu. Þarna hefði átt að spyrja um eftirmál, afleiðingar eða eftirköst, ekki eftirmála. Stutt lokaorð á eftir meginefni bókar eru kölluð eftirmáli.
Molaskrifara varð á í messunni í Molum nr. 618. Þar sagði hann, að báðir umsjónarmenn morgunútvarps Rásar tvö hefðu sl. mánudag talað um að skipa konur í pils. Verið var að fjalla um klæðnað kvenna,sem keppa í badminton. Hið rétta er, að aðeins öðrum umsjónarmanninum varð þetta á . Endurhlustun, eftir réttmætri ábendingu leiddi í ljós, að hinn sagði : Skikka konur í pils, sem auðvitað er rétt orðalag. Viðkomandi umsjónarmaður er beðinn innilega afsökunar á að hafa verið hafður fyrir rangri sök. Molaskrifari vill auðvitað hafa það sem sannara reynist. Honum misheyrðist illilega og það enda þótt hann hlustaði oftar en einu sinni á þessi ummæli. Hann þarf kannski að endurnýja hátalarana við tölvuna sína.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
09/06/2011 at 23:10 (UTC 0)
Já, Rakel les vel og er skýrmælt. Skelfilegt er hinsvegar að heyra rangar áherslur og hrynjandi hjá sumum,sem koma á skjáinn. Sérstaklega slæmur er einn íþróttafréttamaður. Hann þyrfti að komast til talkennara. Merkilegt hverjum ráðamenn Ríkissjónvarpsins hleypa á skjáinn og að hljóðnema. Einn fréttamaður (áreiðanlega góður fréttamaður) er svo mjóróma og skrækur (skræk) að raun er að hlusta á.
Jóhann M Þorvaldsson skrifar:
09/06/2011 at 22:59 (UTC 0)
Tek undir með Molaskrifara að hinn nýi fréttalesari ríkisútvarpsins, Rakel Þorbergsdóttir, kemst prýðilega frá sínum upplestri. Helst vildi ég hafa hana sem oftast við fréttalestur, því þeir eru fáir sem ég heyri og skil eins vel og hana. Er ekki leikurinn til þess gerður?