Það er því miður of algengt að talað sé um tvær dyr. Það gerir eyjubloggari (02.06.2011) og segir: Hér í Reykjavík eru dæmi um að fólk hafi tunnur sínar ofaní kjallara á bak við tvær læstar dyr,… Orðið dyr er fleirtöluorð. Þessvegna ætti að tala um tvennar læstar dyr, ekki tvær. Tvennar buxur. Ekki tvær buxur.
Ekki er víst að Staksteinahöfundur Morgunblaðsins hafi gert Ásmundi Einari Daðasyni,alþingismanni greiða með því að tala um hann sem hinn ,,unga og óspillta þingmann”. Það gæti átt eftir að festast við hann.
Úr dv.is (02.06.20011) Hópurinn vakti mikla athygli, lagður upp við gangstéttina á Skúlagötu, á meðan lögreglan ræddi við vígalegan mannskapinn í kvöld. Lagði lögreglan hópinn upp við gangstéttina? Ekki ber myndin sem fylgdi fréttinni það með sér. Hér skortir nokkuð á vandvirkni.
Úr mbl.is (02.06.2011): Ekki hefur tekist að landa samkomulagi um þinglok en þingflokksformenn funduðu oft í gær. Það er einhverskonar tískuorðtak hjá fjölmiðlamönnum nú um stundir að tala um að landa einhverju, þegar eitthvað er í höfn. Öllum andsk. er nú orðið landað. Þarna hefði átt að tala um að ekki hefði tekist að ná samkomulagi um þinglok, fremur en að landa samkomulagi.
Eftir fjölþætta og ítarlega umfjöllun þeirra Jóhannesar Kr. Kristjánssonar og Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi um svokallað læknadóp virðist kerfið seint og um síðir vera að rumska. Það þurfti spark, fast spark til að vekja þá sem áttu að gæta þess að kerfið væri ekki misnotað. Nú er búið að raska ró hliðvarðanna. Vonandi gæta þeir hliðanna betur en til þessa. Hrós fyrir það, Jóhannes og Sigmar.
Orðskrípið áhafnarmeðlimur er lífseigt. Það skýtur upp kollinum í ágætu Sjómannadagsblaði, sem fylgdi Morgunblaðinu (01.06.2011) Orðið skipverji er gott og gilt.
Molaskrifari rakst á einkennilegt orð í stjörnuspá Morgunblaðsins (02.06.2011). Þar er talað um vandamálalausnara! Líklega er átt við þann sem leyst getur vandamál.
Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins (02.06.2011) er fjallað um sparisjóðinn Byr. Þar segir í undirfyrirsögn: Saksóknari krefst fimm ára fangelsisdóms yfir fyrrverandi sparisjóðsstjóra og stjórnarformanni sem og fyrrverandi forstjóra MP banka. – Sakaðir um að hafa valdið Byr tjóni sér og öðrum til hagsbóta. Það er ekki á íslensku fjárglæframennina logið. Mánuðum saman varði Byr milljónum á milljónir ofan til að láta poppstjörnu fjasa fram og til baka um svokallaða fjárhagslega heilsu í sjónvarpsauglýsingum. Nú hefur komið í ljós að forráðamenn breyttu þessum eitt sinn öfluga sparisjóði í spilaborg blekkinga. Talinu um fjárhagslega heilsu var ætlað að slá ryki í almennings.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Skúli Pálsson skrifar:
02/06/2011 at 23:56 (UTC 0)
Svo kemur fyrir að fólk vandar sig of mikið og segir „tvenn pör af skóm“.