«

»

Molar um málfar og miðla 631

Þórhallur Jósepsson hefur oft gaukað  góðum ábendingum að  Molaskrifara. Hann sendi eftirfarandi (15.06.2011):

Á vef Alþingis er þessi fyrirsögn um mál dagsins: Minningarfundur á Alþingi 15. júní 2011 í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta
Fæðingarafmæli? Ég verð að viðurkenna að þetta kemur mér spánskt fyrir sjónir. Ég hélt að afmæli dygði. En, eru ekki orð Alþingis lög? Þýðir þá nokkuð að bera brigður á þetta?
Þó leiðir þetta málblóm Alþingis hugann að öðru, sem varðar tímamót. Það er ártíð. Ég lærði, fyrst í barnaskóla og síðan kyrfilega í Menntaskólanum á Akureyri, að við ártíð væri raðtala. Þegar t.d. 150 ár eru liðin frá dánardægri manns, væri það 150. ártíð hans. Nú virðast menn ekki skilja þetta lengur og klifa á 150 ára ártíð (eða hver talan nú er sem við á). Svo tekur hins vegar snilldin fyrst flugið, þegar einhverjir vitringarnir ætla að vanda sig gríðarlega og segja: 150 ára árstíð Jóns …,.!!!   Kærar þakkir fyrir þetta, Þórhallur.

Molavin bendir á eftirfarandi úr Morgunblaðinu (15.06.2011): „Fimm býflugnabændur fóru til Álandseyja í Finnlandi.“ segir á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Þessi fullyrðing er ekki aðeins landfræðilega röng, heldur hefur það verið viðtekin regla að tala um Áland og Hjaltland, í stað Álandseyja eða Hjaltlandseyja. Og alls ekki um Shetlandseyjar, eins og stundum heyrist. Við myndum heldur ekki segja að fimm íslenskir sauðfjárbændur hefðu farið til Grænlands í Danmörku.  – Molaskrifari þakkar sendinguna.

Lesandi Mola þakkar  þakkar fyrir  þessa pistla og segir: ,,Ég rakst á þessa fyrirsögn á mbl.is: „Gagnrýndu Obama en ekki hvorn annan.“ Þetta ætti að vera: „Gagnrýndu Obama en ekki hvor annan,“ því hvor og annar beygjast ekki saman. Hvor gagnrýndi annan.
Þessi afbökun/misskilningur á beygingu orðanna hvors og annars sést æ oftar í netmiðlum.
Hér má lesa fréttina: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2011/06/14/gagnryndu_obama_en_ekki_hvorn_annan/  Molaskrifari þakkar sendinguna.

Annar dyggur lesandi  sendi eftirfarandi: Blaðamenn virðast rugla saman því að vera sáttur við einhvern og að vera ánægður með eitthvað, sbr. frétt á Vísi í dag:
Spelling var allt annað en sátt með ljósmyndarann sem ætlaði að ljósmynda leikkonuna, börnin og bílinn, en starfsmenn leikskólans og foreldrar komu í veg fyrir það.“
Sömuleiðis er of algengt að lesa eða heyra auglýst: Líttu við hjá okkur, í merkingunni líttu inn eða komdu við. Að líta við merkir einfaldlega að líta um öxl … horfa aftur fyrir sig, ekki að koma í heimsókn.  Molaskrifari þakkar  sendinguna.

Í   Fréttablaðinu  (15.06.2011) rakst Molaskrifari á þessa fyrirsögn á kjallaragrein: Ekki frestun greiðslna nýrra umsókna. Vart getur  það  talist málhagur eða  málvís maður, sem  samdi þessa fyrirsögn. Hvað skyldi annars  greiðsla umsókna vera?

Stöku sinnum skýtur  Ríkissjónvarpið inn  góðum þáttum milli fótboltaleikjanna. Þannig var  þátturinn Nótan, uppskeruhátíð tónlistarskólanna í landinu hreint  afbragð, – það sem   Molaskrifari sá af honum,  hér fyrir fáeinum kvöldum. Molaskrifari  var að heiman kvöldið sem þátturinn var sýndur og tók hann því upp.  Þegar til kom vantað  niðurlag  þáttarins því  Ríkissjónvarpið  stendur sjaldnast við auglýsta  dagskrártíma, sem er auðvitað rakinn dónaskapur við viðskipavinina.  Það var glæsilegt ungt  tónlistarfólk,sem kom fram í þessum þætti. Tónlistarskólarnir gætu verið  Ríkissjónvarpinu  efnisnáma. Þá  gæti  Ríkissjónvarpið líka sýnt ungu fólki að fleira getur verið eftirsóknarvert í lífinu en að elta  bolta. Líklega er þó borin von að það gerist meðan núverandi stjórnendur  reka   Ríkissjónvarpið   sem fótboltarás og vídeóleiga.

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Benedikt skrifar:

    Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála því að venja sé að tala um Áland frekar en Álandseyjar. Ég kalla þennan ágæta stað alltaf Álandseyjar (og líklega Hjaltlandseyjar sömuleiðis) og ætla að halda því áfram.

    Svo finnst mér svolítið skrýtið að segja að það sé landfræðilega rangt að tala um Álandseyjar í Finnlandi. Eyjarnar eru vissulega sjálfstjórnarsvæði, en undir finnskum yfirráðum samt sem áður. Það er m.ö.o. ekki beinlínis vitlaust að segja að Álandseyjar séu í Finnlandi, ekki frekar en að Færeyjar séu í Danmörku, en líklega yrðu eyjarskeggjar á báðum stöðum ánægðir með að maður sleppti því að nefna „herraþjóðina“.

  2. Eiður skrifar:

    Þetta er líklega rétt athugað, Leifur.

  3. Leifur skrifar:

    Sæll

    Skrifað var: ,,Lesandi Mola þakkar þakkar fyrir þessa pistla og segir: ,,Ég rakst á þessa fyrirsögn á mbl.is: „Gagnrýndu Obama en ekki hvorn annan.“ Þetta ætti að vera: „Gagnrýndu Obama en ekki hvor annan,“ því hvor og annar beygjast ekki saman. Hvor gagnrýndi annan.“

    Ætti þetta ekki að vera: ,,Gagnrýndu Obama en ekki hver annan.“? Því þátttakendur í kappræðunum voru sjö en ekki tveir eins og fyrirsögnin gaf til kynna. Hvor á við þegar rætt er við annan af tveimur.

    Kveðja, Leifur

  4. Eiríkur Kristjánsson skrifar:

    „Þessi afbökun/misskilningur á beygingu orðanna hvors og annars sést æ oftar í netmiðlum.“

    Auk þess sem þetta á greinilega að vera „hver annan“ ekki „hvor annan“

    Sjá umræðu hér:
    http://blog.eyjan.is/esg/2010/07/27/molar-um-malfar-og-midla-362/

  5. Gunnar skrifar:

    Þegar rætt er um ártíð, þá er rétt að nefna einnig, að nú eru ýmsir bögubósar farnir að nota það orð um afmæli í stað dánardags/dánarafmælis. Má þar benda á, að 2006 gaf Íslandspóstur út smáörk með frímerkjum. Tilefnið var samkvæmt áritun: „50 ára ártíð fyrstu Evrópufrímerkjanna 1956-2006″, en um þessar mundir voru liðin 50 ár frá útgáfu fyrstu „Evrópufrímerkjanna“, en slík merki eru enn gefin út ár hvert, þannig að ártíð þeirra er ekki komin.

    Gunnar

  6. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    „Sömuleiðis er of algengt að lesa eða heyra auglýst: Líttu við hjá okkur, í merkingunni líttu inn eða komdu við. Að líta við merkir einfaldlega að líta um öxl … horfa aftur fyrir sig, ekki að koma í heimsókn.“
    Þetta er misskilningur. Í nútímamáli hefur orðasambandið „að líta við“ tvær merkingar og er ekkert athugavert við það. Molavin gæti þá allt eins sagt: „„Að koma við“ þýðir einfaldlega „að snerta“, ekki að koma í heimsókn“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>