«

»

Molar um málfar og miðla 630

Molavin sendi eftirfarandi (13.06.2011) „Bifreiðin skemmdist ekki mikið, en hann var ekki á númerum,“ sagði í 8-fréttum ríkisútvarpsins í morgun. Fréttaþulir höfðu þann sið lengst af að lesa handrit yfir áður en fréttalestur hófst. Og jafnvel að lesa yfir hausamótunum á fréttamönnum, sem létu óboðlegan texta frá sér. En nýjir siðir með nýjum herrum.” Rétt er það.

Ríkissjónvarpið sagði að flokkur tyrkneska forsætisráðherrans hefði  ekki fengið hreinan meirihluta í kosningum um helgina. Stöð tvö  sagði, að   flokkurinn hefði fengið hreinan meirihluta, sem var rétt.  Líklega  ruglaði Ríkissjónvarpið  saman hreinum meirihluta og auknum meirihluta – tveimur þriðju atkvæða, sem flokkurinn náði ekki. 

Moggasnilld, mbl.is (13.06.2011): Að sögn varstjóra sást til mannanna hlaupa frá bifreiðinni í morgun og voru þeir því teknir höndum. Lögreglan segir að bifreiðin hafi ekki verið með nein bílnúmer. Þá sakaði engan í eldsvoðanum

Það var þakkarvert, að Ríkissjónvarpið skyldi á Hvítasunnudagskvöld sýna íslensku þjóðinni tónleika  Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu, fimm vikum eftir að tónleikarnir fóru fram. Það var góð skemmtan og  vandaður þáttur.  Góð myndstjórn,  góðar kynningar og viðtöl.   Ríkissjónvarpið á  hinsvegar  að segja okkur satt. Þetta voru ekki opnunartónleikar eins og sagt var. Þetta voru þriðju tónleikarnir  sem   Sinfónían hélt í Hörpu. Frægt  var að  opnunartónleikunum mátti  ekki sjónvarpa né taka  upp. Upptaka  tónleika  númer  tvö mun hafa misheppnast. Það var staðfest í þættinum sem Molaskrifari þóttist vita, að þetta voru þriðju tónleikarnir í Hörpu, sem Ríkissjónvarpið sýndi okkur. Þegar Víkingur Heiðar kynnti aukalagið,  hið undur fallega lag  Sigvalda Kaldalóns Ave María, í eign útsetningu sagði hann efnislega: Ég lék það í gærkveldi og líka í fyrrakvöld. 

Þetta var fín dagskrá  eftir allan fjárans fótboltann, fyrr  um kvöldið. En hversvegna þurfti Ríkissjónvarpið að segja okkur ósatt ?   Þetta voru ekki opnunartónleikarnir. Þeir  liðu hjá ósýndir og  voru aldrei  skráðir  í myndrænu formi. Það var miður.

Molaskrifari nefndi  hér um  daginn hvað Ríkissjónvarpið gerði betur  við okkur en norrænu stöðvarnar, því okkur væri sagt á hverju kvöldi hver væri  fréttastjóri Ríkissjónvarpsins, – norrænu stöðvarnar létu fréttastjóra ógetið. Nú hefur maður,sem gjörþekkir málið, bent  Molaskrifara  á, að  þetta hafi ekki verið allskostar  rétt  því fréttastofur   NRK og  SVT greini áhorfendum frá því hver sé fréttastjóri. Hjá NRK er nafn  fréttastjórans neðst í nafnarununni í fréttalok, ekki efst eins og hjá Ríkissjónvarpinu. Því fór það framhjá Molaskrifara.  Fréttastofur  DR og  YLE nefna hinsvegar ekki fréttastjóra ekki á nafn.  Rétt skal  vera rétt.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Magnús skrifar:

    Það er virðingarvert að leiðbeina fólki varðandi íslenskt mál og veita fjölmiðlum aðhald á því sviði. Hins vegar er óþarfi að velta sér upp úr því þegar fólki verður fótaskortur eins og okkur getur öllum orðið. „Bifreiðin skemmdist ekki mikið en hann var ekki á númerum.“ Hér getur hugsast að fréttamaður hafi vitað að um jeppa hafi verið að ræða og því orðið þessi hræðilegu mistök á. Öllum getur orðið á. Í textanum frá Molavini er orðið „nýir“ skrifað með joði, „nýjir“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>