Molavin er Molum sannarlega haukur í horni. Hann sendi eftirfarandi: „Ráðherrann lést af sárum sínum nokkru eftir árásina, en reynt var að fljúga með hann til Keníu þar sem að hann átti að ganga undir læknishendur.“
“Þegar notaðar eru algengar myndlíkingar í fréttafrásögn er eins gott að hafa þær réttar. Ég átti erfitt með að sjá fyrir mér deyjandi innanríkisráðherra Sómalíu koma gangandi undir hendur læknis í Kenía.”
Úr mbl. is (12.06.2011): Rigning eða súld er spáð á morgun og bætir í vind norðvestantil. Spáð er rigningu, ekki rigning.
Úr tíufréttum Ríkisútvarps (12.06.201) Magnhild Meltveit Kleppa, samgönguráðherra Noregs, segir að engu verði til sparað við að koma vegakerfinu í lag á ný. Molaskrifari hyggur að í samræmi við íslenska málvenju eigi að segja: .. ekkert verið til sparað, en hinsvegar: … engu verði til kostað.
Molavin nefndi þetta líka í tölvupósti og bætti við: ,,Jón G. Friðjónsson sagði svo í 117. pistli sínum um íslenzkt mál:
Spara ekkert til
Orðasambandið kosta e-u/miklu/litlu/öllu til (e-s) vísar til þess er menn kosta fé/peningum til e-s og er það allgamalt í málinu. Orðasambandið spara ekki/ekkert til (e-s) er eldfornt, jafngamalt elstu heimildum. Í Íslensku hómilíubókinni stendur:vísar oss til þess fagnaðar er vér skyldum ekki til spara að vér næðum. Í nútímamáli gætir þess nokkuð að þessu tvennu sé ruglað saman svo að úr verður spara engu til, t.d.: Tyrknesk yfirvöld ætla engu til að spara í þeim ásetningi sínum (11.10.07); Engu er til sparað [til að gera tónleikana sem best úr garði] (16.8.07) og verður engu til sparað til að hafa upp á hinum seku (8.7.05).,,
Í fyrirsögn (12.06.2011) talar mbl.is um góð gæði á kvikmyndahátíð á Patreksfirði. Nær væri að tala um gæðamyndir á kvikmyndahátíðinni, eða góðar myndir.
Fyrirspurn varðandi veðurfréttir í Ríkissjónvarpi: Hversvegna fáum við bara stundum að sjá kortið af Norður Ameríku? Er ekki hægt að setja borganöfn inn á Evrópukortið og kortið af Norður Ameríku, – eins og gert er í veðurfréttum Stövar tvö? Ég bara spyr.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
13/06/2011 at 17:20 (UTC 0)
Hjartanlega sammála.
Hallgrímur T Jónasson skrifar:
13/06/2011 at 13:49 (UTC 0)
Rætt var um veðurkort RÚV
Tilfinnanlega vantar veðurupplýsingar frá Færeyjum og Grænlandi.
Vona að ég sé ekki einn um þá skoðun.