Úr mbl.is (15.06.2011): Starfsfólki var sagt að rekstur verksmiðjunnar yrði haldið áfram óbreyttum og starf framkvæmdastjóra auglýst eins fljótt og kostur er. Það var og. Rekstur verksmiðjunnar verður ekki haldið áfram. Rekstri verksmiðjunnar verður haldið áfram.
Síbrotamaður dæmdur í 2,5 árs fangelsi, segir í fyrirsögn á mbl. is (16.06.2011). Um var að ræða tveggja og hálfs árs fangelsi. Samkvæmt þessari sérkennilegu reiknilist Mogga þá eru 9 mánuðir líklega 0,75 ár. Endemis rugl!
Í íþróttafréttum Ríkisútvarpsins (14.06.2011) var talað um íþróttaviðburð í Árósaborg. Málvenja er að tala um Árósa, ekki Árósaborg.
Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (15.06.2011) var talað um að niðurfella skuldir. Af hverju ekki að fella niður skuldir? Í sama fréttatíma var talað um könnun um hagi (nemenda). Betra hefði verið að tala um könnun á högum (nemenda).
Stöð tvö sagði frá því að sláttur hefði hafist undir í Eyfafjöllum í dag, 15. júní. Ekki alveg rétt. Molaskrifari var á ferð undir Eyjafjöllum daginn áður. Þá var sláttur hafinn hjá Ólafi bónda á Þorvaldseyri. Allir sem þar eiga leið um ættu að skoða safnið sem Ólafur hefur komið upp við þjóðveginn. Þar er mikill fróðleikur um eldgosið í Eyjafjallajökli. Vel að verki staðið.
Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan sex að morgni (16.06.2011) var sagt nokkuð ítarlega frá frétt úr Viðskiptablaðinu um fyrirbærið Gift. Gift var hópur sjálfkjörinni forystumanna Framsóknarflokksins ,sem tók að sér að annast tuttugu milljarða úr búi Samvinnutrygginga, – milljarða sem átti að greiða fyrrum viðskiptavinum þessa gagnkvæma tryggingarfélags. Framsóknarhópnum sjálfkjörna tókst að koma öllu þessu fé í lóg, sólunda því öllu og stofna til mikilla skulda. Ekki varð Molaskrifari var við að þessi frétt væri flutt í næstu fréttatímum Ríkisútvarpsins, klukkan sjö, átta og níu þennan morgun. Hún var heldur ekki í hádegisfréttum. Henni var greinilega kippt út. Skortir þó ekki að sömu fréttirnar séu marglesnar þar á bæ í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum. Undarlegt fréttamat. Hefur Framsóknarflokkurinn enn svona mikil ítök á fréttastofu Ríkisútvarpsins?
Molaskrifari hafði lúmskt gaman af því að sjá forstjóra íslenska Lottósins gorta af því að Lottóinu hefði verið hrósað í útlöndum fyrir gegnsæi og góðan rekstur. Þá minntist Molaskrifari þess, er hann spurði Lottóforstjórann um kostnað við gerð tiltekinnar sjónvarpsauglýsingar , þar sem Lottóið lét sækja konu til Búlgaríu til að leika í auglýsingunni. Svar forstjórans var, að hann þyrfti ekki að svara slíkum spurningum frá ,,fólki úti í bæ”, eins og hann orðaði það svo snyrtilega. Það var nú meira gegnsæið!
Molaskrifari vonar, að honum hafi misheyrst, er honum heyrðist sagt í upphafi dags (16.06.2011) á Rás eitt, að hlustendur hefðu heyrt Brandenborgarkonsertinn eftir Johann Sebastian Bach. Brandenborgarkonsertarnir eru nefnilega sex, muni Molaskrifari rétt. Ekki er langt síðan að í Ríkisútvarpinu var talað um frægasta píanókonsert Griegs, sem Víkingur Heiðar lék með Sinfóníunni í Hörpu. Edvard Grieg samdi bara einn píanókonsert.
Í kynningu á efni morgunútvarps Rásar tvö (16.06.2011) var sagt, að við fengjum að kynnast hefðum og helgileika þjóðhátíðardagsins. Molaskrifari þekkir ekki orðið helgileiki, í merkingunni helgi, eins og hér var greinilega átt við. Helgileikur er hinsvegar trúarlegur sjónleikur.
Gleðilega þjóðhátíð !
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
17/06/2011 at 18:33 (UTC 0)
Þakka þér, Bernharð. Ég var að vona að þetta hefði verið misheyrn, en í aðra röndina er ég feginn að svo var ekki.
Bernharð Haraldsson skrifar:
17/06/2011 at 17:25 (UTC 0)
Eiður!
Þér misheyrðist ekki með „Brandenborgarkonsertinn!
BH