Sumarfólk, sem ráðið er til afleysinga á fjölmiðla er misvel í stakk búið hvað móðurmálskunnáttu varðar. Það þarf því aðhald og eftirlit. Ljóst er að hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins er pottur brotinn í þessu efni. Þar er eins og vanti allt innra eftirlit með málfari og frágangi handrita. Þarna er stjórnun fréttastofunnar verulega áfátt. Þetta gildir reyndar um fleiri fjölmiðla. Það er eins og sé búið að útrýma prófarkalesurum og þeim sem ættu að lesa yfir handrit fréttamanna. Líklega er það þannig, að enginn les yfir handrit fréttamanna á fréttastofu Ríkisútvarpsins áður en fréttirnar eru lesnar fyrir okkur áheyrendur. Svo er stundum rétt eins og enginn á fréttastofunni hlusti á fréttalestur því sömu ambögurnar eru endurteknar án leiðréttinga í fleiri en einum fréttatíma.
Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan sex og klukkan sjö (20.07.2011) var sagt frá símahlerunarhneykslinu í Bretlandi. Þar var í báðum fréttatímunum tekið svo til að Rupert Murdoch hefði setið fyrir spurningum þingnefndar í gær. Rétt hefði verið að segja að hann hafi setið fyrir svörum á fundi þingnefndar í gær.
Í fréttum Stöðvar tvö (19.07.2011) var sagt frá stærð fyrirhugaðs hótels við hlið tónlistarhússins Hörpu og bætt við: … auk tveggja þúsund fermetra bílakjallara. Einfaldara og betra hefði verið að segja: … auk tvö þúsund fermetra bílakjallara.
Í íþróttafréttum Stöðvar tvö (19.07.2011) var sagt frá því að þjálfara hefði verið sagt upp störfum: Andri er fyrsti þjálfarinn til að vera rekinn í sumar. Hversvegna ekki: Fyrsti þjálfarinn sem er rekinn í sumar. Í sama fréttatíma var sagt að íslenskur leikmaður gerði kröfu um að Ísland sigraði Norðmenn og Dani. Undarlegt orðalag, að ekki sé meira sagt !
Oft átta fréttamenn sig ekki á því hvað þolmyndarnotkun getur verið hallærisleg. Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (19.07.2011) sagði fréttamaður um myndir af Mýrdalsjökli: Þá voru þessar fréttamyndir teknar af Erik …(eftirnafnið ógreinilegt) jarðvísindamanni. Skyldi hafa þurft að beita valdi til að ná myndunum af manninum? Streittist hann á móti ? Germynd er alltaf betri. Þá tók jarðvísindamaðurinn Erik … þessar myndir.
Íslenska körfuboltalandsliðið hefur sjaldan, ef einhvern tímann, verið jafnsterkt og nú…. var sagt í íþróttafréttum Ríkissjónvarpsins (19.07.2011). Molaskrifari er á því að betra hefði verið að segja: Íslenska körfuboltalandsliðið hefur sjaldan, ef nokkurn tíma, ( eða aldrei) verið jafn sterkt og nú.
Útvarpshlustandi sendi tölvubréf og þakkaði Molaskrifara og segir síðan (19.07.2011): ,,Ég hef oft heyrt snillingana í Efstaleiti fara með sömu amböguna aftur og aftur, nú síðast í fréttum kl. 11 í dag, þriðjudag.
„… og verður samkvæmt lækni laus úr öndunarvél …“
Hér þarf að skrifa: „og verður, samkvæmt upplýsingum frá lækni, laus úr öndunarvél“.
Dropinn holar steininn! “ Molaskrifari þakkar sendinguna. Þetta er orðið mjög algengt orðalag , ekki aðeins í Ríkisútvarpinu heldur og í dagblöðum. Samkvæmt lögreglunni , samkvæmt lækni. Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (20.07.2011) var sagt samkvæmt ísraelska hernum. Þetta orðalag er út í hött.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
21/07/2011 at 22:38 (UTC 0)
Réttmæt athugasemd hjá Atla Rúnari. Hann var fínn fréttamaður.
Jón Óskarsson skrifar:
21/07/2011 at 09:11 (UTC 0)
Atli Rúnar Halldórsson skrifar eftirfarandi Facebook síðu sína en hann hafði heyrt til „fréttamanns“ á Ríkisútvarpinu.
„Fátt er um börn á CNN og Sky. Ráðamenn þar á bæjum líta ekki á fjölmiðla sem leikskóla og meira að segja ekki sem háskóla! Þar þarf að kunna, geta og hafa einhverja lágmarksreynslu …“
Mér finnst í lagi að halda þessu til haga.