«

»

Molar um málfar og miðla 662

 

Glöggur maður benti Molaskrifara á orðalag ,sem oft  væri notað í íþróttafréttum: Liðin sættust á jafntefli.  Var þá  samið um úrslitin, spurði hann?

Er nema von að spurt sé. Orðalagið er  út í hött. Líklega  er  átt við að liðin hafi orðið að sætta sig  við  jafntefli. Það er ekki sama og að sættast á jafntefli.

Úr mbl.is (18.07.2011): Að minnsta kosti átta gísl voru í haldi á meðan árásin var gerð í borginni Hotan.   Að minnsta kosti átta  gíslar ætti þetta að vera. Fleirtalan af gísl er gíslar.

Of oft heyrist talað um að gæði batni, eins og gert var í sexfréttum Ríkisútvarpsins (18.07.2011) Eðlilegra  er að tala um að gæði  aukist.

Í dagskrárauglýsingu á Stöð tvö var  tekið svo til orða að málin væru gerð upp á tveimur vígstöðvum.  Hefði  að mati Molaskrifara átt að vera : … á tvennum vígstöðvum.

Úr dv.is (18.07.2011) Össur benti jafnframt á að ríkisstjórnin hefði lýst því yfir frá fyrsta degi að engu yrði til sparað við að koma upp nýrri brú sem fyrst og að við það hafi verið staðið.  Venja er að tala um að  ekkert sé  til sparað,  en  hinsvegar  er sagt: Engu er  til kostað.   Ekki  engu er til sparað.

 

Þrímastra seglskip á  siglingu, segir í fyrirsögn á mbl.is (18.07.2011). Molaskrifari  er  á því að þarna ætti að standa   þrímastrað seglskip,  raunar  hefur skipið ekki uppi eitt einasta segl á myndinni,sem  birt er með fréttinni. Í fréttinni er talað um þriggja mastra seglskip.

Lesandi benti  Molaskrifara á frétt á forsíðu Morgunblaðsins (18.07.2011). Fyrirsögn fréttarinnar er svohljóðandi: Sífellt  fleiri risakettir finnast á  Íslandi.  Lesandi  spyr hvort  þessir  kettir hafi verið á  ráfi inni á  öræfum , eða hvað?   Fréttin  var um að  það gerðist æ algengara  að  fólk  veldi  sér  stórvaxna ketti sem gæludýr.  Þegar   reynt var að   nálgast  fréttina á mbl.is var  hún ekki  finnanleg.

Útvarpshlustandi  sendi eftirfarandi ábendingu (19.07.2011): ,,Eftir tvo, þrjá drykki gerðist drengurinn eitthvað lausmálgur”, var sagt í síðdegisútvarpinu nú rétt áðan.  Lausmálgur. Það var og.

Við lestur Morgunblaðsins nú um stundir rennur það oft  upp fyrir Molaskrifara  hve hin pólitísku  skrif  blaðsins   sverja sig í ætt við  skrif  gamla kommúnistamálgagnsins, Þjóðviljans.   Höfundur  Reykjavíkurbréfs um síðustu helgi kallar  aðalsamningamann íslands í viðræðunum við Evrópusambandið  töskubera Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Þetta orð  var í sérstöku  uppáhaldi hjá   ritstjórum Þjóðviljans á   viðreisnarárunum um embættismenn í utanríkisráðuneytinu. Morgunblaðsritstjóri fer í smiðju kommúnista , þegar hann vill  koma höggi á andstæðinga.  Athygli vekja   óvenjulega rætin  skrif Morgunblaðsins um aðalsamningamann Íslands. Þar  skáka Morgunblaðsmenn í því  skjólinu, að embættismenn  eiga ekki hægt um vik að  bregðast  við pólitískum árásum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>