Undir miðnætti (20.07.2011) hlustaði Molaskrifari á lok þáttarins Risar falla á Rás eitt í Ríkisútvarpinu. Þátturinn var auglýstur sem fyrri þáttur af tveimur um ,,fall sögulegs veldis jafnaðarmannaflokkanna í Svíþjóð og Noregi”. Ekki var þess getið, að umsjónarmaður væri sagnfræðingur eða sérfróður um efnið. Verið var að endurtaka þáttinn. Hann var fyrst fluttur laugardaginn 16. júlí. Réttilega var sagt, að Norðmenn hefðu tvisvar hafnað ESB aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess var ekki getið, að í seinna skiptið í nóvember 1994 hefði verið afar mjótt á munum.
Síðan sagði umsjónarmaður um Norðmenn að þeir hefðu líka hafnað: …” þátttöku í EES ( Evrópska efnahagssvæðinu) á áttunda áratug”. Þetta er bara bull. Noregur Ísland og Liechtenstein mynda EES, Evrópska efnahagssvæðið. Noregur hefur verið hluti af EES frá upphafi. Samkomulag um það var undirritað í maí 1992. Þetta var ekki misheyrn. Molaskrifari er búinn að marghlusta á þessa fáránlega fullyrðingu. Það gerði hann vegna þess að hann trúði ekki sínum eigin eyrum.
Þátturinn þar sem þessu var haldið fram var fyrst fluttur 16. júlí og endurfluttur 20. júlí. Með sömu rangfærslunni. Það er ljóst, að almennt er ekki hlustað á fréttir Ríkisútvarpsins á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Enginn les fréttahandrit , nema sá sem skrifar. Nú er líka ljóst að á dagskrárskrifstofu hlustar fólk ekki á dagskrána , les ekki yfir handrit að útvarpsþáttum eða kannar hæfi umsjónarmanna.
Þetta er ótrúlegt fúsk. Þeir sem borga nauðungaráskrift að Ríkisútvarpinu, sem nú má ekki kalla Ríkisútvarp, verðskulda vandaðri vinnubrögð. Það er ekki hægt að treysta Ríkisútvarpinu.
Undir fyrirsöginni Hrikalega kynþokkafull á mbl.is (21.07.2011) , má m.a. lesa: Nú er átakið, 10 árum yngri á 10 vikum, formlega lokið. Ekki verður sagt að djúp hugsun eða rík máltilfinning liggi að baki hjá þeim, sem svona skrifar. Átakið er ekki lokið. Átakinu er lokið.
Ekki heyrði Molaskrifari betur en þulur læsi: Þessum fjórum konum hefur nú verið boðið bætur, í niðurlagi fréttar í sexfréttum Ríkisútvarps (20.07.2011). Þarna hefði betur verið sagt: Þessum fjórum konum hafa nú verið boðnar bætur.
Gunnar sendi Molaskrifara eftirfarandi:
,,Mér datt í hug að benda þér á jákvæða staðreynd. Það er þáttur Gunnlaugs Rögnvaldssonar í Formúlu 1, fyrst í Ríkissjónvarpinu og nú á Stöð 2.
Hann hefur lagt sig í líma frá upphafi við að íslenska hugtök sem aðrir hefðu sjálfsagt slett á ensku. Hér eru nokkur dæmi:
Pit stop = Þjónustuhlé
Pit = Þjónustusvæði
Penalty drive through = Akstursvíti
Start/Finish = Rásmark/Endamark
Race statistics = Kappaksturstölfræði
On pole position = Á ráspólnum
Race sector = Aksturssvæði
Race timing = Tímataka
Timing sector = Tímatökusvæði
… og svona mætti halda lengi áfram. Honum virðist metnaður í að tala án þess að sletta, sem er virðingarvert. Fleiri fjölmiðlamenn mættu taka sér hann til fyrirmyndar.”
Molaskrifari þakkar sendinguna, en játar að hann horfir ekki á neitt á Stöð tvö nema fréttir og hefur lítinn áhuga á að horfa á kappakstur á skjánum. Þetta er vissulega virðingarvert og hér skýtur Stöð tvö Ríkissjónvarpinu ref fyrir rass.
Skildu eftir svar