«

»

Molar um málfar og miðla 692

Fréttatími Stöðvar tvö á fimmtudagskvöld (18.08.2011) var mikil ambögusúpa. Stjórnendur fréttastofu Stöðvar tvö ættu að íhuga hvort sumir þeirra fréttamanna , sem þar komu við sögu séu ekki betur til annarra starfa fallnir.
Hér skal aðeins minnst á tvær fréttir. Í fyrirsögn á fréttavefnum visir.is segir um frétt Stöðvar tvö um gjafir til kvennadeildar Landspítalans: Gáfu kvenndeildinni gjafir. Í fréttinni segir: Meðgöngudeild Landspítalans hefur þegar verið afhentar fjörutíu milljónir króna. Ætti að vera: Meðgöngudeild Landspítalans hafa þegar verið afhentar …. Síðar í fréttinni var talað um konur með krabbamein í kvenlíffærum og brjóstum. Kvenlíffæri! Væntanlega var átt við leghálskrabbamein.
Svo var frétt um einn af mestu íþróttaviðburðum heims, sem Molaskrifari viðurkennir að hafa aldrei heyrt getið um, og væntir þess að svo sé um fleiri. Þetta er einhverskonar keppni slökkviliðsmanna og lögregluþjóna. Í inngangi fréttarinnar kom fram að líklegt þætti að kvenpeningur muni fjölmenna á leikana. Það kom nú reyndar alls ekki skýrt fram í fréttinni. Greinilegt var að fréttamaður hafði ekki hugmynd um hvað orðið kokhraustur þýðir. Í lokin var frá því greint að slökkviliðsmenn hefðu safnað fyrir ferðakostnaði með sölu á dagatölum. Orðrétt sagði fréttamaðurinn: Það hefur bókstaflega borgað sig fyrir strákana að vera í svona góðu formi því þeir hafa fjármagnað ferðina með sölu á dagatölum sem einmitt prýða þá sjálfa. Átt var við að slökkviliðsmennirnir hefðu safnað fé með því að selja dagtöl með myndum af sér. Ef stjórnendur Stöðvar tvö halda að þetta sé boðlegt þá vaða þeir í villu og svima um okkur áhorfendur.

Ósköp væri gaman í þessum heim, var sagt í þættinum Skassið og skinkan í Ríkissjónvarpinu (18.08.2011). Ósköp væri gaman í þessum heimi, hefði þetta átt að vera. Ríkisútvarpinu ber sérstök skylda til að vanda málfar í þáttum sem ætlaðir eru börnum.

Bjarni Sigtryggsson sendi Molum eftirfarandi: ,,Stundum blossa upp umgangspestir í málfari fólks. Aðila-sýkin herjaði lengi. Enn sér ekki fyrir endann á nafnháttar/dvalarhorfs-pestinni (liðið er að skora mark) og nú gengur „eftir-veiran“ ljósum logum þegar fjölmiðlafólk hefur tekið upp á því að nota orðið *eftir* í óvenjulegri merkingu í tíma og ótíma. Dæmi úr visir.is: „Lögreglumenn höfðu afskipti af manninum í Bankastræti í miðborginni eftir að hann var ekki í öryggisbelti.“ Mjög títt er að sagt sé að fólk slasist „eftir“ bílslys, þótt hitt sé augljóst að það er slys er menn slasast. Það er ekki alltaf bókstaflega rangt að segja að skemmdir hafi verið unnar „eftir“ innbrot, þótt hitt sé málvenja að segja að skemmdir hafi verið unnar við innbrot, fólk slasast í umferðarslysum eða hús eyðilagst í bruna, ekki eftir bruna.” Takk fyrir sendinguna, Bjarni.

Hér hefur stundum verið vikið að því sem Molaskrifari leyfir sér að kalla samkvæmt-fyrirbærið. Fréttamönnum hættir til að segja og skrifa: Samkvæmt lögreglunni, samkvæmt Sigurði, þegar betra væri að segja: Að sögn lögreglunnar, að sögn Sigurðar. Nýja útgáfu af samkvæmt-fyrirbærinu mátti heyra í fréttum Ríkissjónvarps (18.08.2011)… samkvæmt upplýsingum!

– Þetta hlýtur að vera mjög slæmt mál, er það ekki? Á þessa leið spurði fréttamaður Ríkisútvarpsins viðmælanda sinn í sexfréttum (18.08.2011). Ekki mjög fagmannlegt.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Bergsteinn. Breytir samt ekki skoðun minni á orðinu kvenlíffæri.

  2. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    Af vef Landspítala: „Um helgar sinnir bráðamóttaka 10D einnig konum með krabbamein í kvenlíffærum sem hafa verið í meðferð og eru í eftirliti á kvenlækningadeild.“

    Kvenlíffæri eru fleiri en legháls, til dæmis eggjastokkar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>