«

»

Molar um málfar og miðla 693

Það er ánægjulegt að  Ríkisútvarpið skuli hafa verið tilnefnt til Emmyverðlauna fyrir fréttaflutning af gosinu í Eyjafjallajökli og gott til þess að vita að þeir sem  standa að þessum tilnefningum skuli hafa fólk á sínum snærum sem hefur svo  gott vald á íslenskri  tungu að það getur   metið og  borið saman  fréttaflutning  íslenskra fjölmiðla. Nema  verið sé   að  veita  verðlaun fyrir myndmiðlunina eina, sem vissulega var oft  frábær enda  viðfangsefnið einstakt. Myndatökulið Ríkissjónvarpsins stóð sig  frábærlega eins og svo oft áður. En ef aðeins er miðað við myndefnið  þá hefðu  frábærir ljósmyndarar Morgunblaðsins líka átt að fá  tilnefningu til Emmyverðlauna.

 

-Hvað er helst í slúðurfréttum spurði umsjónarmaður morgunútvarps Rásar  tvö (19.08.2011)  í vikulegu  viðtali við slúðurfréttamann  stofnunarinnar. Slúðurfréttamaðurinn sagði þjóðinni meðal annars að kona nokkur að nafni  Christine O´Donnell  , bauð sig fram í fyrra á Alþingi. Hún er frá  Delaware. Ekki  gerðu umsjónarmenn athugasemd við þetta bull. Molaskrifari   minnist þess ekki að þessi kona  hafi verið í framboði til Alþingis. Hvað þá að Alþingi sé í  Delaware ríki. Það  var  þar ekki  þegar Molaskrifari var við nám í Delaware  fyrir löngu og enn er talið að Alþingi sé á Íslandi. Í anda málstefnu  Ríkisútvarpsins var líka talað um  risastóra ræðu, rosa planræðu, vera með eitthvað í töskunni, kaupa tíma, ökónómían virðist tröllríða öllu, global warming, hann er mormóni, það mun spila gegn honum, austurstrandarríkisstjórinn. Til að kóróna þetta var svo  fluttur langur, nauðaómerkilegur   viðtalskafli á  ensku,- óþýddur að sjálfsögðu.  Allt er þetta líklega  í samræmi  við margnefnda  málstefnu  Ríkisútvarpsins.  Stjórnendur Ríkisútvarpsins eru  beðnir  að hlífa okkur hlustendum  við svona   bulli.

 

 Að loknum slefburði vestan frá Bandaríkjunum var svo fluttur  pistill um tímabundna   forheimskun sem  samkvæmt rannsóknum fylgir sólböðum á  sólarströndum. Sá  pistill var prýðilega  fluttur og á vönduðu máli.  

 

Egill sendi eftirfarandi: ,,Í útvarpsauglýsingu segir: „Líkaðu við Sónísenter …“ Hvernig getur þú líkað við eitthvað? Á það ekki að vera:  „Láttu þér líka við …“? Þá sér maður stundum á dv.is: „Vertu fyrstur vina þinna til að líka við þessa frétt.“ Þetta truflar málvitund mína, en þína?”   Molaskrifari tekur undir með Agli. Auglýsingadeild  Ríkisútvarpsins samþykkir hvaða ambögu sem er.

 

Það var prýðilegt dæmi um kansellístíl nútímans, þegar starfandi menntamálaráðherra  talaði um lausnamiðaða nálgun í sexfréttum Ríkisútvarpsins (19.08.2011)

 

Dálítið er einkennilegt að tala um hróplegan þyrluskort eins og  gert  er í fyrirsögn á mbl.is (19.08.2011)

 

Áskell sendi eftirfarandi: ,,Ian var drepinn af hárkarli við strendur Seychelleseyja á þriðjudaginn síðastliðinn. Hann hafði verið að snorka við strönd eyjunnar Praslin í brúðkaupsferð þeirra hjóna.

……….Auðvitað var þetta hræðilegur atburður. Ekki skal úr því dregið en nafnorðið „hárkarl“ og sögnin að „snorka“ eru nýyrði sem ég kann ekki við.” Undir það tekur  Molaskrifari. Í stað þess að tala um þriðjudaginn síðastliðinn, hefði verið betra að segja , – á þriðjudaginn var.

 

   Ríkissjónvarpinu tókst að klúðra myndblönduninni í beinni útsendingu  þegar Hörpuljóslistaverk Ólafs Elíassonar var tendrað (20.08.2011).  Svo fór myndin í rugl, en vera má að það hafi verið staðbundið þar sem Molaskrifari var staddur. Í tíufréttum Ríkisútvarps var sagt þetta kvöld: … og verður þar með sleginn endir á  menningarnótt þetta árið. Það var nú svo!   Slá botninn í ,  binda enda á.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>