«

»

Molar um málfar og miðla 695

Hversvegna fá hægrimenn sínu fram? Þetta er fjögurra dálka fyrirsögn í DV (22.08.2011). Molaskrifari hyggur að málvenja sé að tala um að fá sitt fram, fá sínu framgengt. Hinsvegar er sagt að ná sínu fram. Í samningaviðræðunum náði félagið öllu sínu fram.

Í sunnudagsmogga (21.08.2011) er heilsíðuauglýsing um íslensk úr. Þar stendur stórum stöfum: Úr eld í ösku. Þetta er málvilla. Þarna ætti að standa úr eldi í ösku, en það er líklega að fara úr öskunni í eldinn að reyna að leiðrétta málvillur og ambögur frá auglýsingastofum.

Mbl.is (20.08.2011): Hlaut hún beinbrot við fallið en ekki er talið að hún sé mjög alvarlega slasaður. Það var og !

Þorkell Guðbrandsson sendi eftirfarandi: ,,Var að lesa grein á visir.is um kúna Yvonne í Þýskalandi og fárið í kringum hana. Ég er að vísu afskaplega ánægður með að blaðamaðurinn/mennirnir, sem rita og þýða fréttina nota orðið „kýr“ um skepnuna, en ekki skammaryrðið „belja“ eins og algengast er nú orðið þegar fólk treystir sér ekki til að beygja hitt. En hér koma tilvitnanir:
„Sú hugmynd reyndist þó andvana fædd þegar í ljós kom að Ernst hafði verið geldur.“ Þarna skýst þeim þótt skýrir séu; þarna átti að mínu mati að standa „geltur“.
„Ekkert hefur þó spurst til Yvonne, einn ellefu ára gamall gutti sagðist þó hafa fundið hófför Yvonne.“
Þarna hefur þeim skotist í þýðingunni. Á íslensku tölum við um „klaufir“ klaufdýra en „hófa“ hófdýra, t.d. hrossa. Á þýsku heitir þetta hinsvegar „hufe“ og á ensku „hoof“ og það hefur væntanlega villt fyrir.” Molaskrifari þakkar sendinguna, Allt er þetta rétt sem Þorkell segir.

Pressan.is (20.08.2011) … en gulur Vökubíll hefur verið að fjarlægja bíla sem leggja ólöglega auk þess sem lögreglan sektar grimmt. Bílar leggja ekki ólöglega. Bílum er lagt ólöglega. Lagt þar sem ekki má leggja bílum. Þar að auki orkar tvímælis að tala um að bíll fjarlægi bíla. Meira um bíla úr sama miðli sama dag: … en bíllinn stöðvaðist við vegrið en stóð hálfvega fram yfir brúnina. Það er ekkert til sem heitir hálfvega. Hér hefði til dæmis mátt segja að hálfur bíllinn hafi staðið fram af brúninni.

Það var óneitanlega svolítið skondið að sjá forseta lýðveldisins baða sig í ljósi fjölmiða í verkum Jóns Baldvins á tónleikum í Tallin við upphaf Íslandsdags.

Í sexfréttum Ríkisútvarpsins var sagt: … leikskólar bæjarins loka allir klukkan 16 15 á daginn. Leikskólunum er lokað. Þeir loka ekki. Þetta er ekki flókið þótt það vefjist fyrir sumum.

Eftirfarandi er úr íþróttafréttatíma Ríkissjónvarpsins (21.08.2011): Hvernig finnst þér hún (varnarlínana) fúnkera núna ? … og tæklaði boltann í netið. Náði hinsvegar að jafna leikinn með mínútu millibili. Skoraði gull af marki. – Ekki meira um það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>