„Hvað segið ÞIÐ krakkar? Hlakkar YKKUR til?“ sagði Linda Blöndal nú áðan í Síðdegisútvarpinu á Rás 2, þegar hún spjallaði við 6 ára skólakrakka. Er ekki nóg komið af ambögum þáttastjórnenda? – Þetta sendi Egill Molum. Það er greinilega minnkandi áhersla lögð á að þáttastjórnendur í Ríkisútvapi séu sæmilega máli farnir, – eins og þetta dæmi Egils ber með sér.
Molavin sendi eftirfarandi (23.08.2011): ,,Uppvakningurinn Staðsetningar-Móri lætur stundum á sér kræla. Nú síðast í DV: „Húsið er staðsett á einkaeyju milljarðamæringsins…“ – svona rétt eins og því hafi verið plantað þar um stundarsakir. Nægir að segja „húsið stendur á“ eða bara „húsið er á einkaeyju.“ Molaskrifari bætir við: Staðsetningar-Móri er einnig á kreiki í Morgunblaðinu (24.08.2011) en þar segir í undirfyrirsögn á bls. 6 í frétt um fyrirhugað fangelsi: Verður staðsett á Hólmsheiði. Fangelsið verður á Hólmsheiði.
Hvað segja Molalesendur um þetta orðalag á mbl.is (22.08.2011)? …grein formanns flokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í Morgunblaðinu nýverið þess efnis að leggja ætti umsóknina um aðild sambandinu til hliðar, hafa verið kornið sem fyllti mælinn fyrir marga. Molaskrifara hefði fundist eðlilegra að segja: … kornið sem fyllti mælinn hjá mörgum. Eða: …það sem reið baggamuninn hjá mörgum. Eða: … það sem réði úrslitum hjá mörgum.
Í fréttum Stöðvar tvö (22.08.2011) talaði fréttamaður um að gera bráðan bug að eu… Rétt er orðtakið að vinda bráðan bug að e-u. Gera strax ráðstafanir til að koma e-u í framkvæmd. (Mergur málsins etir Jón G. Friðjónsson bls.119)
Orðið óþurft er kvenkyns. Þessvegna hefði dagskrárgerðarmaður Ríkisútvarpsins (22.08.2011) átt að segja til mikillar óþurftar ekki til mikils óþurftar um eitraða plöntu sem finna má allvíða hér á landi.
Um handknattleiksþjálfara var sagt í íþróttafrétttum Ríkissjónvarps (22.08.2011) að honum hefði verið sagt upp sem þjálfari liðsins. Honum var sagt upp sem þjálfara liðsins.
Í sexfréttum Ríkisútvarps var talað um að hátt flækjustig hefði tafið úrlausn málsins (22.08.2011). Algjört flækjumálfar. Eða þannig. Í sömu frétt var sagt: … og sagðist vona að aðkoma Byggðastofnunar að málefnum Eyrarodda væri lokið þegar salan gengi í garð. Það er bara eins og jólin séu að koma ! Eitt er að ganga í garð , annað er að tala um að eitthvað sé um garð gengið. Svo hefði .þarna átt að segja, – aðkomu, en ekki aðkoma.
Í sama fréttatíma las einn reyndasti fréttaþulur Ríkisútvarpsins óhikað: Heimastjórn Palestínumanna tilkynnti í dag að sveitarstjórnarkosningar sem fram áttu að fara á vesturbakka Jórdanar í október hefði verið frestað um óákveðinn tíma. Hversvegna? Vegna þess að hann hlustaði ekki á það sem hann las. Það er höfuðsynd í þessu starfi. Kosningar var ekki frestað. Kosningum var frestað.
Egill sendi eftirfarandi: ,,Þessi myndatexti var á visir.is 18. ágúst: „Hilmar Kristensson hefur verið leigubílsstjóri í 15 ár en aldrei upplifað nokkuð í starfi sem jafnast á við atburði morgundagsins.“ Skv. þessu virðast starfsmenn 365 nú geta skrifað fréttirnar degi áður en þær gerast. Annars er þetta illa skrifaður myndatexti.”
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
03/09/2011 at 13:53 (UTC 0)
Þetta er að sjálfsögðu hin rétta merking orðsins strandaglópur, Ólöf. Orðabókin segir hinsvegar að strandaglópur geti verið sá sem er stöðvaður á ferð sinni og kemst ekki lengra. Ekki er ég sammála orðabókarmönnum um það. Strandaglópur er sá sem stendur eins og glópur á bryggjunni eða í fjörunni af því að hann hefur ekki komið til skips á réttum tíma.
Ólöf E Gísladóttir skrifar:
03/09/2011 at 13:05 (UTC 0)
Mér þykir orðið „strandaglópur“ dálítið skemmtilegt en ranglega notað um farþega sem hafa þurft að bíða í langan tíma á flugvöllum eða á hótelum vegna bilana eða seinkana flugvéla. Ég tel þá frekar vera fórnarlömb aðstæðna. Strandaglópar þeir sem geta sjálfum sér um kennt ef þeir missa af fluginu sínu. Er þetta rétt hjá mér?
Svo þykir mér „að vinda ofan af einhverju“ ofnotuð í fjölmiðlum síðan Jóhann vildi vinda ofan af Magma málinu.
Egill skrifar:
26/08/2011 at 14:15 (UTC 0)
Nei, Axel. Ef þú lest textann, þá sérðu að ég skrifaði orðið „ambögur“, en ekki Eiður. Það er vissulega eitt af uppáhaldsorðum mínum, á eftir þeim tveimur sem þú skrifaðir vitlaust í þessum stutta texta þínum. Hin eru „uppáhaldsorð“ og „örugglega“.
Axel skrifar:
26/08/2011 at 10:36 (UTC 0)
,,Ambögur“ er örugglegar uppáhalds orð Eiðs Svanbergs.
Arnbjörn skrifar:
25/08/2011 at 22:13 (UTC 0)
Framsöguháttur: … réð úrslitum … ; ‘réði’ er við’tengingarháttur.