Úr mbl.is (23.08.2011): … um borð í uppsjávarskipinu Álsey VE. Molaskrifari játar, að orðið uppsjávarskip hefur hann aldrei heyrt áður. Þetta er líklega orðað svona til koma í veg fyrir að lesendur haldi á Álsey VE sé kafbátur.
Vestur í Bandaríkjunum voru menn á tánum, sagði Ríkissjónvarpið (23.08.2011) vegna þess að senn eru tíu ár frá árásinni á tvíburaturnana
Gamall fréttalurkur , eins og hann orðaði það sjálfur, benti Molaskrifara á fyrirsögn þessarar fréttar á visir.is (23.08.2011) Hersveitir
Gaddafis skutu frá sér : http://www.visir.is/hersveitir-gaddafis-skutu-fra-ser/article/2011110829603. Hann spurði líka hvort þá væri hægt að skjóta að sér, nema þá að skjóta sig. Rétt er það, að ekki er þessi fyrirsögn vel samin.
Úr mbl.is (23.08.2011) um aðildarumsókn Íslands að ESB, sem sögð er tilgangslaus (þessvegna birtir mbl.is fréttina): ,,Þrátt fyrir að íslenska krónan sé enn frekar verðlaus í alþjóðlegum skilningi þá hefur evran hrunið í gegnum gólfið undanfarna mánuði,“ segir í greininni. Hér er svo sannarlega þýtt bókstaflega og eftir orðanna hljóðan. því í greininni á ensku segir: … and although Iceland’s króna remains fairly worthless in an international sense, the Euro has fallen through the floor in recent months. Það er ekki í góðu samræmi við íslenska málvenju að segja að eitthvað hrynji í gegnum gólfið þótt það sé gott orðalag á ensku.
Þau eru einkar smekkleg ummælin sem höfð voru eftir Ingva Hrafni Jónssyni á dv.is (23.08.2011): „Guðmundur Steingrímsson hefur alveg frá því hann gekk í Framsóknarflokkinn verið hommi. Framsóknarhommi,“ sagði sjónvarpsstjóri ÍNN, Ingvi Hrafn Jónsson, þegar hann gaf álit sitt á stjórnmálatíðindum dagsins í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis í dag. Slæm er hún oft pólitíska umræðan á Íslandi, og ekki eru þessi ummæli sjónvarpsstjórans til bóta.
Þátturinn ,,Eyðibýlið” er oft með því besta sem flutt er á Rás eitt. Nýlega heyrði Molaskrifari endurfluttan þátt í þessari þáttaröð þar sem Magnús R. Einarsson ræddi við Hlín Agnarsdóttur leikstjóra og rithöfund. Fínn þáttur í alla staði. Hlín nefndi að það gæti verið gaman að aka bíl í Bandaríkjunum og Kanada og nefndi leiðina frá Minneapolis til Winnipeg. Þetta skildi Molaskrifari vel, en þessa leið hefur hann ekið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Það kom einnig fram að Hlín kennir framsögn og raddbeitingu. Ætli fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi verið að hlusta ? Þar hefði Hlín sannarlega verk að vinna, enda þótt þar séu ýmsir sem kunna hvort tveggja vel, þá eru þar aðrir sem þurfa kennslu og leiðsögn.
Davíð Steinn sendi eftirfarandi: ,,Rak augun í eftirfarandi á visir.is vegna jarðskjálfta í BNA: Skjálftinn skók austurströnd Bandaríkjanna en svo virðist sem gríðarlega lítil eyðilegging hafi orðið þrátt fyrir mikinn styrk.
Mér þykir orðalagið „gríðarlega lítil eyðilegging“ vera hálf kjánalegt. Alveg gríðarleg þversögn.” Molaskrifari er hjartanlega sammála.
Frá Agli: Margrét Maack spurði í Kastljósþætti kvöldsins: „Hvaða kýr átt þú?“ En auðvitað átti hún að spyrja um kúna. Þetta vefst fyrir mörgum. Kýr, kú, kú, kýr. Já, það er ekki ofmælt að þetta vefjist fyrir mörgum. Það er líka margt skrítið í kýrhausnum þegar kemur að fallbeygingum.
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Axel skrifar:
30/08/2011 at 17:39 (UTC 0)
Ég upplýsi Egil hér um að ég er forfallinn ,,vera“ sjúklingur og verð það örugglega eitthvað áfram. Finnst það bara svolítið flott. Gef mig heldur ekki út fyrir að vera réttritunurséní. Berst raunar fyrir því að meðaljónar geti tjáð sig í rituðu máli eins vel og þeir kunna án eilífra leiðréttinga og pots. Gott og blessað að veita fjölmiðlafólki hæfilegt aðhald varðandi málnotkun. En of oft eru leiðréttingar og athugasemdir málverndara og molavina á gráu svæði eða hreinlega rangar eins þetta með kýrnar sýnir. Hver liggur þá í ambögusúpunni?
Sendi hér slóð á ágætis umræðu Stephen Fry um tungumál og menningu:
http://www.youtube.com/watch?v=J7E-aoXLZGY
Friðrik skrifar:
30/08/2011 at 14:48 (UTC 0)
Egill: Ef maður kærir sig um er hægt að finna villur alls staðar, eins og ‘r’-ið sem vantar inn í nafnið hennar Margrétar í ummælunum þínum hér fyrir neðan. Það er enginn maður að meiri þótt hann geri það.
En að búa til villur þar sem engar eru og hafa ekki manndóm í sér til að biðja þá afsökunar sem leiðrétta þær og eiga hlut að máli er sorglegt, svo ekki sé meira sagt. Það ber vitni mun alvarlegri mannlöstum en þeim að missa út úr sér rangfallbeygt orð í hita leiksins.
Ég er sammála þeim sem skrifar hér að neðan og nota hér þínar leiðréttingar til að taka undir með honum (án dvalarhorfs): Leiðréttingafíknin virðist fara úr böndunum hér á þessari síðu“. Sammála?
Egill skrifar:
30/08/2011 at 03:26 (UTC 0)
Já Axel, það er oft gott að vera vitur eftirá. En til að halda öllu til haga, þá vantar orðið „að“ í athugasemd þína hér að neðan. „… vera fara úr böndunum“ er rangt. „vera að fara úr böndunum“ er aðeins skárra, en óþarfi þó að nota sífellt hjálparsögnina „er“ (vera) með öðrum sögnum, sbr. t.d.: „Ég er að skilja þetta“. Skárra er að segja: „Ég skil þetta“.
Axel skrifar:
29/08/2011 at 22:48 (UTC 0)
Spurning þá bara að sleppa athugasemdinni Egill. Algjör óþarfi að gera lítið úr starfi fólks upp úr þurru. Leiðréttingafíknin virðist svolítið vera fara úr böndunum á þessari síðu.
Egill skrifar:
28/08/2011 at 16:34 (UTC 0)
Bið Magréti forláts, horfði bara á fyrsta hlutann og missti því af samhenginu.
Margrét Erla Maack skrifar:
28/08/2011 at 06:10 (UTC 0)
Hvaða kýr, hvaða kýr, hvaða kúm, hvaða kúa. Já, það er ekki ofmælt að þetta vefjist fyrir mörgum. Það er líka margt skrítið í kýrhausnum þegar kemur að fallbeygingum.
Margrét Erla Maack skrifar:
27/08/2011 at 21:01 (UTC 0)
Nei, ég spurði „Hvaða kýr átt þú?“ því að þær voru fleiri en ein. Ein rauð, ein með horn og ein „með kálf í maganum.“