«

»

Molar um málfar og miðla 699

Molavin sendi: ,, … því hafa blaðamenn haldið sig til á göngum hótelsins…“ sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 á miðvikudagskvöld. Þarna er blandað saman tvennu; að halda til e-s staðar – og að halda sig e-s staðar. Í bezta falli er þarna um fljótfærni að ræða – í versta falli vanþekkingu á móðurmálinu. Hvorugt er boðlegt. – Satt og rétt, Molavin. Svo  er líka talað um að halda sér til.

 

Lesandi sendi Molum efitrfarandi úr mbl.is (23.08.2011): Í fyrsta lagi byrjar hann hvern dag á því að klifra upp í tré og í öðru lagi fær hann vikulegan vítamínkokteil með æðalegg … og  spyr  hvað æðaleggur sé. Molaskrifari getur ekki svarað því.  

 

Hann getur  verið viðsjáll viðtengingarhátturinn. Egill  sendi  Molum (24.08.2011)þetta: ,,Enn gera Vísismenn sig seka um að kunna ekki viðtengingarhátt. Þar stendur: „Nágrannar stjörnukokksins Nigellu Lawson kvarta nú undan því að þeir geta séð þessa kynþokkafullu konu ganga um nakta í íbúð sinni.“ Hér á að skrifa „geti séð …“
Viðtengingarhátturinn vefst fyrir fréttaskrifurum”.

Þetta er einnig frá Agli: ,,Haft er eftir Ingva Hrafni (á Vísi): „„Mér er andskotans sama hverja menn elska svo lengi sem þeir eru góðir starfsmenn og góðar manneskjur.“ En Ingvi Hrafn sagði þetta ekki. Hann sagði: „„Mér er andskotans sama hverja menn elska, ef þeir eru góðir starfsmenn og góðar manneskjur.“ Orðskrípið „svo lengi sem“ er tekið úr ensku: „as long as“, sem er ekki til í íslensku. Óviðkunnanlegt þegar mönnum eru lagðar slíkar ambögur í munn, þeim að ósekju”.

 

Meira frá Agli: „Þetta var hinn hófstillti og tæknivæðni, Bjarki M. Karlsson,“ var sagt nú áðan á Rás 2 (24.08.2011). Tæknivæðni? Er hann þá tæknivæðinn? Er hann ekki frekar tæknivæddur?  –  Að sjálfsögðu.

Og: ,,Á Vísi skrifar Jón Hákon Halldórsson: „Maðurinn mótmælti gæsluvarðhaldsúrskurðinum og sagði það klárt mál að hann myndi snúa til baka úr landinu.“ Afsakið, en ég skil ekki setninguna.”  Það gerir Molaskrifari ekki heldur.

 

Ómar Einarsson spyr vegna fréttar á mbl.is: http://mbl.is/frettir/erlent/2011/08/24/minnismerki_lokud_i_washington/

 Hvort ekki sé eðlilegra að tala um að aðgangi  að minnimerkjum  eeða kennileitum sé  lokað, frekar en að minnismerki séu lokuð.  Molaskrifari  er   sammála Ómari.

 

Úr visir.is (24.08.2011) … en meðal auðæfa Þorsteins er landið Vatnsendi, sem Sigurður Kristján átti og arfleiddi syni sínum árið 1967.  Dálítið undarlegt að tala um landið Vatnsenda,  eðlilegra  væri að tala um Vatnsendaland, en látum það nú vera.. Þá er sögnin að arfleiða, láta einhvern fá eitthvað í arf ,  rangt notuð. Þarna  ætti að standa:  …  og arfleiddi son sinn að 1967.

 

Ríkissjónvarpið var með frétt um vetnisbíla (24.08.2011) eins og þeir  væru  rétt á næsta  leiti, – handan við hornið eins og  nú tíðkast að segja. En er það ekki ennþá svo að til þess að framleiða  fullan eldsneytistank af vetni þarf meiri orku en   fullur   eldsneytistankur skilar ?  Meðan svo er getur vetni vart talist hagkvæmur kostur.

 

“Auðvirðilegt,, segir  eigandi Sjávarbarsins, segir í undirfyrirsögn á  dv.is (24.08.2011). Auvirðilegt var manni kennt að ætti að skrifa og segja, en þetta virðist  smám saman hafa verið að breytast og  er nú líklega viðurkennt  sem  gott og gilt  ritmál og talmál.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorkell Guðbrandsson skrifar:

    Þótt það sé ótengt íslensku máli og ritun þess, þá þykir mér gott að sjá athugasemd um vetnisvinnslu og -notkun. Rafgreining á vatni til að vinna vetni til að nota sem orkubera er vægt orðað óhagkvæmur kostur. Vera má að við getum vænst þess að metangas og lífræn olía (biodiesel) geti nýst til að knýja fiskiskipaflotann okkar. Hvað varðar hinsvegar samgöngur á landi held ég að við verðum að gæta okkar á því að halda til haga tilteknum virkjunarkostum, hagkvæmum virkjunarkostum, til þeirra hluta. Við verðum að sætta okkur við að einkabíllinn, í þeim mæli sem við þekkjum, er ekki kominn til að vera nema í mjög skamma hríð enn. Í mjög náinni framtíð verðum við að byggja á almenningssamgöngum, sem verða að meira eða minna leyti knúnar milliliðalaust með raforku. Það getur einnig haft þær afleiðingar, að við getum ekki leyft okkur að búa jafn dreift í landinu og við gerum í dag. Bið Eið afsökunar á þessari predikun, en ég gat ekki orða bundist.

  2. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    „„Nágrannar stjörnukokksins Nigellu Lawson kvarta nú undan því að þeir geta séð þessa kynþokkafullu konu ganga um nakta í íbúð sinni.“ Hér á að skrifa „geti séð …“
    Viðtengingarhátturinn vefst fyrir fréttaskrifurum”.“
    Hér á ekkert endilega að skrifa „geti séð“ „geta séð“ er fullboðlegt. Í setningu sem byrjar á að er ekki skylda að hafa viðtengingarhátt. Hvernig hljómar: Ég kvarta undan því að ég geti ekki…“ í samanburði við: „Ég kvarta undan því að ég get ekki…“
    Samkvæmt minni máltilfinningu (og eins og alkunna er eiga menn að láta sína máltilfinningu ráða) hljómar seinna dæmið ekki síður og eiginlega bara betur.

  3. Eiður skrifar:

    Takk fyrir svarið. Skýring á hreinu.

  4. Manni1 skrifar:

    Hér er svarið Molaskrifari og Molavin:

    Æðaleggur er nál í æð, sett inn í æð rétt undir húð í fæti, hönd eða á höfði.

    http://www.hugtakasafn.utn.stjr.is/hugtak.adp?id=13283&leitarord=S&tungumal=en

    http://www.fyrirburar.is/index.php?option=com_content&view=article&id=36&Itemid=138

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>