Úr mbl.is (25.08.2011) : Slysið bar að með þeim hætti að rútubílstjórinn tók hægribeygju á grænu ljósi en á sama tíma hjólaði maðurinn beint til austurs með þeim afleiðingum að rútan ók á hann. Rökrétt skýring ?
Gunnhildur benti réttilega á eftirfarandi: Fyrirsögn af visir.is: „Sagði Landsbankann haga sér eins og eiturlyfjasjúkling“. Hér vantar „ur“ í lok setningar.
Það er allt að verða vitlaust í Bandaríkjunum út af fregnum af yfirvofandi skilnaði Will Smith og eiginkonu hans til þrettán ára, Jödu Pinkett-Smith.
Segir á fréttavef Morgunblaðsins mbl.is (25.08.2011) Að sögn Mogga eru því um 313 milljónir manna í þann veginn að ganga af göflunum út af skilnaði einhverra hjóna. Ekki bregst Mogginn og ekki lýgur Mogginn!
Konnektikött, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps skýrt og greinilega er fjallað var um eitt af Bandaríkjunum Norður Ameríku, Connecticut. Þeir sem fást við fréttir ættu að vita að nafn þessa ríkis er borið fram konnettikött. Ekkert k. Rétt er að geta þess, að seinna var þetta rétt borið fram í fréttum.
Bjarni Sigtryggsson sendi Molum þetta: ,,Blaðamaður Morgunblaðsins beygir málfræðilega rétt nafnorðin „stjarna“ og „hola“ í fleirtölu og eignarfalli í frétt sinni um væntanlegt lystihótel á Hólsfjöllum. Þar er talað um fimm stjarna hótel og 18 holna golfvöll. Nú eru hins vegar málvenjur ekki alltaf rökréttar né málfræðilega nákvæmar. Það er orðin löng hefð fyrir því að tala um níu holu eða 18 holu golfvöll – og eins um fjögurra eða fimm stjörnu hótel. Sama á við um „hendi“ í fótbolta þar sem oftast væri rétt að tala um „hönd.“ Trúlega verður þessi sérvizka málsins að fá að lifa þvert á málfræðilegar beygingarreglur. Molaskrifari tók einnig eftir þessu, Bjarni. Þakka þér ágæta athugasemd. Þetta er sennilega rétt hjá þér, að rökfræðin og málfræðin ráða ekki við málvenjuna hvað þetta varðar.
Egill sendi Molum þetta: ,, … að blár gamall bíll með sennilega tveimur mönnum hefði stoppað og kallað á dóttur hennar …“ var í frétt á dv.is í dag (26.08.2011). Þetta kemur frá aðstoðarskólastjóra nokkrum. Ekki er von á góðu þegar svona snillingar eru þeir sem eru menntaðir til að kenna börnunum okkar. Gamall bíll getur ekki kallað á neinn, jafnvel þótt hann sé blár! (Fleira er líka rangt hér.) Meira frá Agli: ,,Það hefur pirrað margan aðdáanda Popppunkts þegar Gunnar Hjálmarsson hendir „TVEM stigum á band“ eða segir að það muni TVEM stigum á liðum, en ekki tveimur. Eins segja þeir félagar allt of oft setningar á borð við: „Skálmöld FENGU tvö stig“, „Stjórnin SVÖRUÐU þessu rétt“ eða „Valdimar ERU með 23 stig“ “., Molaskrifari játar, að hann horfir aldrei á Popppunkt. Takk fyrir sendingarnar, Egill.
Molaskrifari hlustar nánast aldrei á Útvarp Sögu. Þegar honum var bent á að verið væri að fjalla um svokölluð diplómatavegabréf með margskonar rangfærslum og lygi fór hann að leggja við hlustir. Föstudagsmorguninn 26. 08. 2011 á tólfta tímanum var útvarpsstjórinn greinilega í miklu uppnámi og röddin eins og hún væri bæði með hálsbólgu og hita. Svo var skyndilega gert nokkuð langt tónlistarhlé. Þá heyrðist allt í einu aftur í útvarpsstjóranum. Nú var röddin skyndilega allt önnur, – öll lasleikamerkin horfin sem dögg fyrir sólu. Útvarpsstjórinn ræddi þá meðal annars dagskrárbreytingar vegna verslunarmannahelgarinnar sem væri að nálgast ! Hvað var á seyði? Varla mismæli. Var verið að útvarpa gömlum símaþætti frá því rétt fyrir verslunarmannahelgi, en láta hlustendur halda að verið væri að útvarpa beint ? Af hverju var verið að tilkynna dagskrárbreytingar um verslunarmannahelgi um miðjan september ? Var Útvarp saga að blekkja hlustendur ? Við bíðum svars. Er þetta ekki eitthvað sem fjölmiðlanefnd ætti að athuga? Á ekki nefndin sú að veita fjölmiðlum aðhald og tryggja að ekki sé verið að blekkja hlustendur/lesendur?
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Kristinn R. Ólafsson skrifar:
31/08/2011 at 10:41 (UTC 0)
Þó að ég sé nánast ávallt sammála Bjarna Sigtryggssyni um íslensku og hann hafi eflaust rétt fyrir sér um málvenjur styð ég Morgunblaðsmann í holna- og stjarnamálinu. Mér finnst reisn yfir þessu Ég leyfi mér líka þann útúrboruskap að segja og skrifa “18 holna golfvöllur”, “fjögurra stjarna hótel”, “500 evra seðill”, “20 gráðna hiti” (mér þykir reyndar vænna um “stigin” sem láta nú undan síga fyrir gráðunum, e.t.v. fyrir engilsaxnesk áhrif (degrees) þótt gráða sé hið besta orð, tökuorð úr latínu (gradus), segir í Íslenskri orðsifjabók).
Og ég segði/skrifaði hikstalaust “sex þotna flugsveit”…