Ábúðarmikill fréttamaður Ríkissjónvarps stóð á tröppum kínverska sendiráðsins í Reykjavík (28.08.2011) og sagði þjóðinni að kínverski fjárfestirinn Huang Nubo væri heiðursfélagi í Kommúnistaflokki Kína. Það er bull.
Þökkum veitta tillitsemi, stendur á skilti við veginn skammt frá Egilsstöðum þar sem framkvæmdir stóðu yfir. Ekki er málvenja að tala um að veita tillitssemi, heldur sýna tillitssemi, en í því orði eru tvö ess. Betur hefði farið á því ef á skiltinu hefði staðið: Þökkum tillitssemina.
Það er til fyrirmyndar hjá Stöð tvö að birta borgaheiti á veðurkortum bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Ríkissjónvarpið ætti að gera þetta líka. Það getur ekki verið tæknilega erfitt.
Molavin sendi eftirfarandi: „Öðlaðist nirvana við bjúguát“ Svo segir i millifyrirsögn DV fréttar (29.08.2011) um mataræði þingmanna. Það verður æ ljósara að nýjustu árgangar fjölmiðlafólks hafa ekki lært meðferð móðurmálsins. Bjúgnakrækir er þeim væntanlega ókunnugur. Þekkja ekki íslenzku jólasveinana, aðeins amerísku kókakóla-sveinana.
Fyrirsögn á mbl.is (29.08.2011: Sprengdi sig inn í mosku í Írak. „Samkvæmt fyrirsögn var þetta innbrot, sprengdi sig inn í mosku. Samkvæmt fréttinni sprengdi hann sig inni í mosku. Nokkur munur.“ Molaskrifari þakkar þeim sem sendi.
Jóna sendi eftirfarandi (29.07.2011): ,,Mig langar að vekja athygli þína á stafsetningarvillu sem fór mikið í taugarnar á mér um daginn þegar málefni Landakotsskóla voru til umræðu og aftur nú þegar búið er að skipa nefnd sem á að kanna hvað hæft sé i sögum um illa meðferð á nemendum skólans á árum áður. Vísir birtir frétt um þetta í dag og um leið tengil í eldri fréttir. Þar á meðal í tilkynningu frá starfsmönnum skólans þar sem talað er um „misyndisverk“ í stað misindisverka. Ætli þeir haldi nokkuð að þessi meintu óhæfuverk séu mis-yndisleg-verk?” Molaskrifari þakkar Jónu sendinguna.
Hér kemur sending frá Hreiðari (30.08.2011): ,,Þáttastjórnandi á Bylgjunni tók svona til orða í morgun: „Súkkulaðigrísir eru 36% ólíklegri til að þróa með sér hjartasjúkdóma en þeir sem gera það ekki“. 🙂
Þá er þreytandi að heyra íþróttafréttamenn 365 miðla vera stöðugt að tala um að menn „grýti boltanum….“. Molaskrifari þakkar Hreiðari sendinguna.
Landafræðikunnátta fréttamanna virðist á stundum af skornum skammti. Í sexfréttum Ríkisútvarps (30.08.2011) heyrði Molaskrifari ekki betur en fréttamaður talaði um Grímsstaði í Fjöllum. Grímsstaðir eru á Fjöllum, Hólsfjöllum. Í sama fréttatíma var sagt að síðustu misseri hefði verið talað um skort á lambakjöti og kjúklingi. Skilst, en ekki vel að orði komist. Þetta hefur reyndar verið nefnt hér áður.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Viðar Freyr Guðmundsson skrifar:
01/09/2011 at 17:31 (UTC 0)
Því má við þetta bæta að menn ‘öðlast’ ekki nirvana á þennan hátt sem líklega er átt við. Nirvana þýðir bókstaflega ‘að slökkva á’ eins og þegar loginn slokknar á kerti. Nirvana er ekki himnaríki eins og menn skilja það í vestrænni menningu heldur endirinn á lífinu, endirinn á þjáningu, það er í raun ekkert. Þannig að ef menn öðlast nirvana við bjúguát þá eru menn væntanlega steindauðir, allt svart, búið, endir.