Merkilegt blað er Morgunblaðið og verður æ merkilegra með hverjum deginum sem líður. Á bls. 4 (31.08.2011) er frétt með fyrirsögninni: Verð Grímsstaða sagt í samræmi við jarðaverð. Það er þó hvergi sagt berum orðum í fréttinni. Í nafnlausum Staksteinum á bls. 8 segir Morgunblaðið: Frá Kína kom maður á snærum lipurs næstum því lakkrísframleiðanda (Innskot Molaskrifara: Af hverju talar Morgunblaðið í dylgjum?) og bauðst til að kaupa jörð á margföldu því verði sem nokkrum manni hafði dottið í hug að setja upp.
Hvort eiga lesendur að trúa fréttum í Morgunblaðinu eða því sem, sett er fram sem staðreyndir í pólitískum skrifum blaðsins? Sennilega er varlegast að trúa hvorki Staksteinum né fréttum Moggans. Bæta má við að fram kemur í blaðinu að Íslendingar og Kínverjar hafi undirritað samninga um að efla fjárfestingar í Kína og á Íslandi. Það er til einhvers að gera samninga við Íslendinga , segir nú líklega einhver. Svo má líka geta þess að fram hefur komið að Grímsstaðir á Fjöllum hafa verið til sölu í tíu ár.
Í fréttum Stöðvar tvö (30.08.2011) var talað um eins milljón króna lán, þegar rétt hefði verið að tala um einnar milljónar króna lán.
Ríkharður benti á frétt á pressan.is (31.08.2011): Viðburðargestum er bent á að mæta tímanlega … Fréttin er um bílastæði í Hörpu og gjaldskyldu. Ríkharður benti réttilega á að það sem pressan.is kallar viðburðargesti eru gestir sem leggja leið sína í Hörpu.
Í tíufréttum Ríkissjónvarps (30.08.2011) var notuð sögnin að fjárkúga. Molaskrifari kannast ekki við að þessi sögn sé til í íslensku. Nafnorðið fjárkúgun er gegnsætt, gott og gilt. Talað er um að kúga fé af einhverjum, ekki fjárkúga einhvern.
Mikilvægt er að fara rétt með nöfn í fréttum. Í morgunútvarpi Rásar tvö (31.08.2011) sagði umsjónarmaður að leiðarahöfundur Fréttablaðsins væri Ólafur Stephenson. Ritstjóri og leiðarahöfundur Fréttablaðsins er Ólafur Stephensen. Nýlega var í morgunútvarpi Rásar eitt talað um ljóðskáldið Stephan G. Stephensen, ekki Stephansson eins og rétt er. Hvorugt var , að ég held leiðrétt. Auðvitað á að leiðrétta mannanöfn sé farið rangt með.
Molavin sendi eftirfarandi (31.08.2011) „Efnahagsbatanum á Íslandi er stefnt í voða vegna óróanum á alheimsmarkaði, sagði sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi…“ Sjá:
http://visir.is/alheimskreppan-stefnir-efnahagsbata-a-islandi-i-voda-/article/2011110839824. Vegna óróans ætti þetta að vera.
Meira frá sama: „lyfjaverð mun hækka hjá mörgum einstaklingum,“ segir fréttamaður Stöðvar-2. Á hann þá við að lyfjaverð hækki ekki hjá hjónum? Nei, trúlega er hér á ferðinni „orðbólga“ = notkun óþarfa orða í málsgreinum. Nægir að segja að lyfjaverð muni hækka hjá mörgum. Þetta er sömu gerðar og sú orðbólga að tala um flugvélar með svo og svo marga farþega „innanborðs.“
Molaskrifari þakkar sendinguna.
Þarflaus þolmyndarnotkun var í fréttum Stöðvar tvö (31.08.2011) þegar talað var um hreindýr skotin af veiðimönnum.
Það var svolítið undarlegt að heyra sagt í fréttum Ríkissjónvarps (31.08.2011) um seðlasendingu frá Bretlandi til Líbíu að féð hafi verið prentað í Bretlandi. Eðlilegra hefði verið að segja að peningaseðlarnir hefðu verið prentaðir í Bretlandi. Kannski er þetta sérviska Molaskrifara.
Umfjöllun fréttastofu Ríkissjónvarpsins um viðkvæmt mál þegar bera átti konu út úr húsi í Breiðagerði (31.08.2011) var vönduð. Umfjöllun fréttastofu Stöðvar tvö um sama atburð var hinsvegar tilfinningaklám. Hlustendur fengu ekkert að vita um forsögu málsins annað en að bankinn hafði átt húsið í tvö ár. Hvað var á undan gengið? Það skipti máli til að skilja fréttina.
Í Kastljósi (31.08.2011) var fjallað um kaup kínverska fjárfestisins Huang Nubos á Grímsstöðum á Fjöllum. Þar setti dr. Jón Ormur Halldórsson, dósent við Háskólann í Reykjavík málið í svo gott samhengi að viðtalið við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra sem kom í kjölfarið varð eiginlega marklaust. Þar var líka grunnt á þjóðrembunni. Það forkostulegt að menn skuli tala eins og skipgengt sé til Grímsstaða á Fjöllum og hugsunin með kaupunum tengist siglingum um norðurslóðir. Hvílíkt endemis rugl. Land Grímsstaða liggur hvergi að sjó.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
04/09/2011 at 11:51 (UTC 0)
Þetta er rétt ayhugað, Kristjón. Undarlegir borðsiðir ! Ráðherrann hefði til dæmis getað sagt að hann ætla ekki að kokgleypa það sem kæmi frá Kínverjum, jafnvel að hann ætlaði ekki að gleypa hrátt það sem frá þeim kæmi..
Kristjón Sigurðsson skrifar:
03/09/2011 at 23:37 (UTC 0)
Í viðtölum við Ögmundur Jónasson um kaup kínverska fjárfestisins Huang Nubos á Grímsstöðum á Fjöllum lagði hann hvað eftir annað áherslu á að hann ,,vildi ekki kyngja neinu ómeltu“ varðandi það að veita undanþágu vegna sölunar.
Er hér um að ræða nýja borðsiði?