Gamall vinur Molaskrifara að vestan sendi eftirfarandi:
,,Sæll, félagi: Sit hér og horfi á beina útsendingu frá Hörpu. Fram kom hvatamaður fjársöfnunar, sem er tilgangur tónleikanna og talaði um þörfina á „vermdun“ Þeirra, sem söfnunin beinist að. Nú hef ég oft heyrt þannig tekið til orða. Að „vermda“ einhvern eða eitthvað. Þetta þekki ég ekki vestan úr fjörðum. Þar var rætt um að „vernda“ en ekki að „vermda“. Orðið er m.a. dregið af nefnorðinu „vernd“ en ekki „vermd“. Það er sitthvað að vernda og að verma – þó hvorttveggja geti verið gott og gilt.
Þá eru það veðurfréttirnar. Þar er til skiptis rætt um regnskúrina og regnskúrinn. Enn að vestan. Nafnorðið „skúr“ í karlkyni var haft til skiptis um „kofa“ á lóðinni og „bíslag“ sem gjarna var byggt framan við verbúðir sjómanna þegar efni tóku að aukast og fólk tók sér búsetu í gömlum verbúðum með áföstu „bíslagi“. Smbr. „skúrþak“, sem var hallandi þak sem gjarna var sett yfir slíkar byggingar. Orðið skúr í kvenkyni var hins vegar ætíð notað um rigningar þær, sem ekki voru ætíð bestu vinir skúrþaka. „Rigningarskúrinn“ var því í huga okkar Vestfirðinganna talsvert annað en „rigningarskúrin“.
Þá er það orðatiltækið „laust fyrir“, sem er orðið harla algengt í mæltu máli. Mér var kennt það í barnaskóla, að rétt væri að ræða um „laust eftir“ þegar svo háttaði til að tímaviðmiðun væri rétt aðeins liðin t.d. „laust eftir kl. 22“. Þ.e. „laust eftir“ að klukkuslátturinn væri yfir staðinn. „Laust fyrir“ væri hins vegar merkingarlaust. Þar hefur ekkert tímaviðmið verið „losað“. Þar eigi menn hins vegar að nota „rétt fyrir“ – eða „skömmu fyrir“ en alls ekki „laust fyrir“. Það væri merkingarleysa.
Hvað segir þú um þetta?” Molaskrifari þakkar góða sendingu. Allt eru þetta réttmætar ábendingar.
Svo er hér tímabær pistill frá Þórhalli Jósepssyni: ,,Eftirfarandi frétt var á mbl.is nú áðan (31.08.2011) (1. málsgrein fréttarinnar):
„Sofandi siglingafræðingur er ástæða þess að ferjan MF Sogn sigldi í strand í höfninni í Brimnes í Noregi síðastliðinn föstudag. Maðurinn svaf við störf sín og vaknaði rétt áður en skipið sigldi á bryggjuna.“
Það athyglisverðasta að mér finnst við þetta er að veffrétt hins norska Aftenposten, sem er heimild mbl.is, notar starfsheitið „navigatör“ um það sem gagmalgróin málvenja, jafnt íslensk sem norsk, er að kalla skipstjóra (kaptein/skipper) eða stýrimann (styrmann)(ég vona mér fyrirgefist að vera ekki sá sérfræðingur í norsku að hafa stafsetninguna óyggjandi rétta).
Það er einkar athyglisvert að íslenskir blaðamenn (og norskir) skuli ekki lengur þekkja þessi starfsheiti. Siglingafræðingur hefur um langan aldur ekki verið starfsheiti, mér vitanlega, nema hér áður fyrr í millilandaflugvélum. Jú, líka í tunglferðum.
Svo eru það vinnubrögð blaðamannsins, sem greinilega hefur ekki hirt um að lesa frétt Aftenposten með nægilegri athygli. Þar stendur að ferjan hafa strandað um 200 metra frá höfninni. mbl.is segir fyrst að ferjan hafi strandað í höfninni (sem er vissulega mögulegt) en síðar, í sömu málsgrein, að hún hafi siglt á bryggjuna. Viðkomandi blaðamaður hefði betur fengið einhvern til að lesa textann yfir hjá sér, einhvern sem hefur að minnsta kosti komið niður á bryggju og áttar sig á þeim reginmun sem er á því að stranda í höfn og að sigla á bryggju.
Svo má líka spyrja hvernig sé hægt að sofa við störf sín?”
Kærar þakkir fyrir sendinguna, Þórhallur. Það er mikilvægt að vanda sig við fréttaskrifin.
Það bar ekki vott um frumlegheit eða hugmyndaauðgi hjá Ríkissjónvarpinu að láta nýja þáttaröð heita Ísfólkið, – nappa nafni á frægum bókaflokki norsks rithöfundar og telja sig geta komist upp með það. Ríkissjónvarpið varð auðvitað að láta í minni pokann og kemur engum á óvart. Þetta var bjánaleg bíræfni. Fyrsti þáttur Ragnhildar Steinunnar var hinsvegar áhugaverður og ágætur í alla staði. Takk fyrir það.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
02/09/2011 at 23:24 (UTC 0)
Kærar þakkir, Bernharð. Kveðjur til Hansa.
Bernharð Haraldsson skrifar:
02/09/2011 at 22:49 (UTC 0)
Legg orð í belg.
Rigningarskúrinn er í karlkyni í minni heimabyggð við Eyjafjörð. Veðurfræðingurinn, sem hugsanlega er vitnað til, er af vopnfirskum uppruna í móðurætt, en þar í sveit mun karlkynsmyndin vera ríkjandi.
Bæti við, að í gær sá ég auglýsingu frá Arion banka, kynnir eitthvað sem kallað er „Sérsniðin þjónusta fyrir allar tegundir námsmanna.“ Nú stunda nemendur nám af ýmsum toga, en ekki hef ég áður séð þá greinda eftir tegundum, en má þó vera, að slíkt sé gert. Herferð bankans ber heitið „sjómann“ og kemur heiti hennar fjórum sinnum fyrir í auglýsingunni. Þetta „sjómann“ þekki ég ekki í nefnifalli, tel þetta vera þolfall.
Í Vikudegi, netútgáfu dagsins í dag, segir svo: „Gestir virða kýrnar fyrir sér úr glerskála á Kaffi Kú“. Þarna er um að ræða aukafall. (vikudagur.is)
Bæði orðin „sjómann“ og „kú“ eru algerlega út úr kú!
Þorvaldur Sigurðsson skrifar:
02/09/2011 at 19:15 (UTC 0)
Enn af skúr. Jafnvel þótt Vestfirðingar tali um regnskúrina í kvenkyni hefur komið fram í athugasemdum við þátt Eiðs að slíkt er ekki algilt á voru landi. Á mínum heimaslóðum er regnskúrinn í karlkyni og er jafngott hinu, enda gefur félagi Mörður hvorttveggja í bók sinni og telur jafngilt.