Árni sendi eftirfarandi (01.09.2011): ,, Tvennt er það sem mér finnst vert að „berjast gegn“.
Einhverra hluta vegna fer þetta í taugarnar á mér.
Annars vegar er það nafnorðið verð sem stöðugt er notað í fleirtölu.
Hitt er þegar stöðugt er staglast á því að þessi eða hinn hafi „misst“ x kíló.”
Molaskrifari er Árna hjartanlega sammála. Notkun orðsins verð í fleiritölu er hinsvegar ótrúlega útbreidd. Það er líklega erfitt að uppræta hana, en samt ber að andæfa. Að missa kíló er fáránleg aulaþýðing úr ensku. Þeir sem reyna að grenna sig léttast (vonandi) um x kíló.
Úr dv.is (01.09.2011): Kennari sem hafði það sem aukavinnu að vera fatafella í klámmyndum var í dag leyft að halda áfram kennslu. Enn eitt dæmið um vankunnáttu fréttaskrifara í grunnreglum íslenskrar málfræði. Kennara …. var leyft að halda áfram kennslu. Meira um sama úr dv.is, að þessu sinni fyrirsögn: Samkeppniseftirlitið kærir verðsamráð Byko og Húsasmiðjunni. Reynir Traustason,. sendu þennan bögubósa á skólabekk til að gefa honum tækifæri til að tileinka sér einföldustu reglur málfræðinnar !
Hér er aðvörun til lesenda: Trúið ekki einni einustu tölu, sem nefnd er í Útvarpi Sögu. Nýlega sagði útvarpsstjórinn að það kostaði 40 þúsund krónur að aka einkabíl til Akureyrar! Þá var hún að auglýsa ferðir rútufyrirtækis norður. Kannski hefur fyrirtækið auglýst í Útvarpi Sögu. Fyrir skömmu var sagt að miðað við verð Grímsstaða á Fjöllum ætti Ísland allt að kosta 300 milljarða! Svo var sagt að við nýjan Landspítala mundu starfa allt að fimmtán þúsund manns ! Í fréttum hefur verið talað um rúmlega fimm þúsund manns. Trúið ekki einustu tölu sem þið heyrið á þessari útvarpsstöð. Þetta fólk kann ekki að fara með tölur frekar en sannleikann. Trúið því ekki.
Gunnhildur spyr: ,,Krónan og Nóatún eru báðar í eigu Kaupás, stendur á mbl.is, en á þetta ekki að vera: Krónan og Nóatún eru báðar í eigu Kaupáss. ?” Það hefði Molaskrifari haldið.
Óvíst með hvenær Herjólfur siglir , segir í fyrirsögn á mbl.is (01.09.2011). Hér hefði verið einfaldara og betra að segja: Óvíst hvenær Herjólfur siglir. Í sama miðli er fyrirsögnin: Fellastígur fær upplyftingu. Í málvitund Molaskrifara er upplyfting að lyfta sér upp, skemmta sér, gera eitthvað sér til gamans. Í fréttinni kemur fram að Fellastígur er gangstígur sem á að betrumbæta.
Matreiðsluþættir Ríkissjónvarpsins ,,Grillað” sem lauk á fimmtudagskvöld (01.09.2011) eru líklega fyrstu alvöru íslensku matreiðsluþættirnir sem sýndir hafa verið í sjónvarpi hérlendis. Fagmannlega eldað, girnilegir réttir , – sem sagt prýðilegir þættir þar sem fagmannlega var að verki staðið. Matreiðsluþættirnir sem ÍNN sýnir eru hinsvegar, á stundum að minnsta kosti, kennslustundir í því hvernig ekki á að bera sig til við eldamennsku.
Úr frétt á visir.is (01.09.2011): Þeim fjölgar ört þingmannsbörnunum þessa dagana. Af fréttinni má ráða að börnum þingmanna sé að fjölga, – ekki þingmannsbörnum , fjölgunar sé von í fjölskyldum nokkurra þingmanna.
Ágætt að fá Útsvarið aftur í Ríkissjónvarpið. Sigmar og Þóra standa fyrir sínu. Breytingar á spurningaforminu eru ekki til bóta. Það var ekkert að þessu eins og það var. Það á aldrei að gera við það sem ekki er bilað (Eða eins og Ameríkanar segja: If it ain´t broken, don´t fix it). Fram til þessa hefur Útsvarið alltaf verið endursýnt. Það væri gott fyrir áhorfendur ef endursýning væri tímasett þegar þátturinn fyrst er fluttur. Þá hlýtur að vera búið að ákveða það. En líklega er til of mikils mælst að biðja Ríkissjónvarpið um þá þjónustu.
9 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
05/09/2011 at 23:20 (UTC 0)
Útúrsnúningur, Andrés.
Andrés Magnússon skrifar:
05/09/2011 at 22:01 (UTC 0)
Þú segir það að „missa … kíló“ sé aulaþýðing úr ensku, sem hlýtur að teljast ósennilegt í ljósi þess að engilsaxar telja líkamsþyngd sína í pundum eða steinum. Þetta orðalag (með kílóum) er altítt í dönsku, svo ekki er nú loku fyrir það skotið að þaðan sé þetta komið. En flatneskjan er auðvitað engu betri fyrir það.
Ætti það ekki að vera svo: „Krónan og Nóatún eru bæði í eigu Kaupáss“?
Kristian Guttesen skrifar:
04/09/2011 at 14:34 (UTC 0)
Í þessu sambandi er vert að benda á grein Ástu Svavarsdóttur á vef Árnastofnunar um nafnorðið verð: http://arnastofnun.is/page/arnastofnun_ord_pistlar_verd
Eiður skrifar:
04/09/2011 at 11:45 (UTC 0)
Þetta hefur verið kölluð reiðareksstefna. Fái hún að ráða ríkjum hætta Íslendingar senn að geta lesið , Njálu , að ekki sé minnst á Gerplu eða verk snillinga eins og Laxness, Þórbergs og Gunnars. Marga yngri höfunda gæti ég líkka nefnt..Vilt þú það? Eða svo ég taki upp talshátt þinn: Ert þú að vilja það.
Eiður skrifar:
04/09/2011 at 11:41 (UTC 0)
Henni var svo sannarlega trúandi til þess , – sá listakokkur sem hún er. Það horfa bara svo fáir á Skjáinn.
MK skrifar:
04/09/2011 at 01:11 (UTC 0)
Hrefna Sætran var með ágæta matreiðsluþætti á Skjánum.
Bjössi skrifar:
03/09/2011 at 23:43 (UTC 0)
Þú ert bara eki að fatta þetta því miður
Ef meirihlutinn er með t.d. þágufallssýki, þá er það orðið einfaldlega rétt mál
tungumál þróast, þannig er það bara
villtu ekki taka upp íslensku eins og hún var um 1900?
Eiður skrifar:
03/09/2011 at 18:25 (UTC 0)
Það er nú bara vegna þess að í íslensku er verð eintöluorð. Það er ekki nokkur ástæða til að breyta því.
Kári skrifar:
03/09/2011 at 17:41 (UTC 0)
Hvað í ósköpunum mælir gegn því að „verð“ sé notað í fleirtölu? Ég skil engan veginn af hverju menn eru sífellt að amast við því, bara af því það hefur ekki alltaf tíðkast.