«

»

Molar um málfar og miðla 705

Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ talaði (02.09.2011) um  gestafjölda á Ljósanótt. Hann talaði um  aukinn þéttleika í þátttökunni. Þetta er  auðvitað  hálfgert bull í kansellístíl. Hann var að tala um aukna þátttöku.

 

   Egill sendi eftirfarandi (02.09.2011): ,,Ég sá í sjónvarpsauglýsingu í gærkvöldi að Ljósanótt stendur yfir frá einn til fjórir september. Það er eins og auglýsingafólk kunni margt hvert ekki að nota raðtölur. Í auglýsingunni stendur: „1 – 4 september.“ Punkturinn er settur aftan við mánuðinn. Svo stendur, undir orðinu „Ljósanótt“, „– Reykjanesbær 2011“. Ljósanótt er í Reykjanesbæ, ekki í Reykjanesbær. Þarna hefur prófarkalesturinn steingleymst.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

  Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (02.09.2011) var   sagt: … vegna þess uppnáms sem málið hefur vakið. Mál geta  valdið uppnámi, ekki vakið uppnám. Þeir fréttastofumenn eiga að vita betur.

 

  Jóhann  sendi Molum   tengil á  frétt úr  Morgunblaðinu (02.09.2011).  Stórkostlegt lesefni. Mogginn bregst ekki. http://mbl.is/folk/frettir/2011/09/02/mel_b_eignast_stulku/

 

Úr mbl.is (02.09.2011): Frumvarpi um stjórnarráð var synjuð afgreiðsla úr allsherjarnefnd í morgun. Synjuð afgreiðsla?  Átt er  við  að frumvarpið hafi ekki fengist afgreitt úr nefnd.

 

Meira úr mbl.is (02.09.2011) Maðurinn hafði jafnframt verið til vandræða og valdið ónæði með að því hringja á dyrabjöllur í tíma og ótíma.  Að  hringja á  dyrabjöllur er barnamál. Næsti bær við að tala um  að dingla, þegar  dyrabjöllu er hringt.

 

Egill sendi eftirfarandi (2.09.2011): Matthías Matthíasson á Rás 2, sagði nú rétt áðan: „Hér eru allir veggir betrekkjaðir með myndum.“ Hér hefði mátt vanda sig betur.  Molaskrifari bætir  við að hann minnist þess í bernsku að sögnin að veggfóðra var nær óþekkt. Alltaf var talað um að  betrekkja, en í þessu tilviki hefði verið sagt: …. betrekktir með myndum.

 

Til er plagg sem heitir Málstefna Ríkisútvarpsins  ( líklega  er búið að breyta nafninu í Málstefna Rúv, því orðið Ríkisútvarp er nú  algjört  bannorð í Efstaleitinu). Í fyrsta kafla  sem ber   heitir  1. Almennt, segir  svo í  2. málsgrein:  ,,Allt málfar í Ríkisútvarpinu á að vera til fyrirmyndar og allt sem frá því kemur á vandaðri íslensku”.  Og  síðar í þessum kafla:  ,,Starfsmönnum Ríkisútvarpsins ber að kynna sér  málstefnuna og haga störfum sínum í samræmi við hana.”

 Þegar þetta er lesið  þá vaknar sú spurning  hversvegna hellt  er yfir  þjóðina  á  hverjum föstudagsmorgni á Rás  tvö í svo kölluðum slúðurþætti, töluðu máli sem er ambögusúpa krydduð  allskyns  enskuslettum?  Sletturnar gera súpuna ekki kræsilegri nema síður sé.  Þetta er í beinni andstöðu við   yfirlýsta  málstefnu Ríkisútvarpsins. Hversvegna  setur opinber stofnun sér starfsreglur og  hundsar þær síðan,  fer ekkert eftir þeim?  Lætur  eins og reglurnar séu ekki til.  Af hverju fara  yfirmenn Ríkisútvarpsins  ekki að þeim reglum sem þeir hafa sjálfir  samið og sett?  Eru  reglurnar og málfarsstefnan bara upp á punt?  Er  þetta bara sýndarmennska ?  Borin von er að búast  við svörum úr Efstaleiti. 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það líst mér hreint ekkert á. Heimur versnandi fer.

  2. Björn skrifar:

    Hvernig líst þér á nýjan veitingastað norður í landi sem heitir Kaffi Kú?
    Hann er að vísu í fjósi en ég hefði haldið að bændur væru betur að sér um íslensku en þetta

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>