Í auglýsingum í Ríkisútvarpinu (19.09.2011) var áskorun beint til Alþingis Íslands. Það er ekkert til sem heitir Alþingi Íslands. Við tölum um Alþingi Íslendinga. Auglýsingadeild Ríkisútvarpsins svaf á verðinum.
Egill sendi þetta (19.09.2011): ,,Reyni að forðast útvarpsþáttinn Sportrásina, því þar er nánast eingöngu rætt um fótbolta. Heyrði brot af þættinum í kvöld, áður en ég náði að stilla yfir á aðra útvarpsstöð. Þar sagði Þórður Helgi Þórðarson: Leiknir sigruðu Skagamenn …. En það er bull. Leiknir sigraði, eða Leiknismenn sigruðu.
Sigurgeir benti á þessa frétt: http://www.ruv.is/frett/eignir-kaupthings-jukust
Hann segir: ,,Teldi réttara að segja að verðmæti eigna Kaupþings hafi aukist. Mér finnst ólíklegt að Kaupþing hafi bætt við sig nýjum eignum og því felist breytingin í breyttu verðmati”. Líklega tilgáta, Sigurgeir.
Prófessor í svokallaðri kynjafræði við Háskóla Íslands talaði um quick fix, eða skyndilausnir í fréttum Stöðvar tvö (19.01.2011). Prófessorar við Háskóla Íslands eiga að tala við okkur á íslensku.
Þremenningarnir eru krafnir um var sagt í sex fréttum Ríkisútvarpsins (19.09.2011). Krafðir um var hinsvegar réttilega sagt í yfirlitinu í lok frétta. Eða hvað ? Í sama fréttatíma sagði íþróttafréttamaður: Var sagt upp sem landsliðsþjálfari .. Manninum var sagt upp sem landsliðsþjálfara ….
Egill er iðinn við kolann , – hann hlustar greinilega mikið á Rás tvö. Hann sendi þetta (20.09.2011): ,,Svo heyrum við í Arnar Eggerti,“ sagði Andri Freyr á Rás 2 í dag. Hann hefði átt að segja: „Arnari Eggerti“. Ekki hefði hann sagt: „Svo heyrum við í Arnar“, en beygingar mannanafna breytast ekkert þótt fleiri séu saman. Enginn magnafsláttur!”
Jón þakkar þessi pistlaskrif og segir: .. ,, þau hafa skerpt á íslenskukunnáttu minni. Ég verð að játa það strax að mér ofbýður ofnotkun t.d. fjölmiðlafólks á orðunum : Heyrðu,heldur betur, nákvæmlega…..”. Molaskrifari tekur undir um ofnotkun orða og orðasambanda. Þar étur hver ótæpilega eftir öðrum og lítið um frumleika.
Aðallega vegna skuldakrafa , var sagt í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (20..09.2011). Hefði átt að vera: … vegna skuldakrafna ….
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
22/09/2011 at 09:47 (UTC 0)
Þetta eru líklega leifar af gamalli íhaldssemi í mér, Elín,
Elín Sigurðardóttir skrifar:
22/09/2011 at 09:42 (UTC 0)
Sæll Eiður,
Ég þakka þér ljómandi pistla sem ég lít á af og til.
Mig langar að benda þér vinsamlega á að kynjafræði er ekki „svokölluð“ þó að þú viðurkennir hana ekki sem fræðigrein. Kynjafræði hefur verið til síðan á sjötta áratugnum bæði sem sjálfstæð fræðigrein og þverfagleg innan annara greina s.s. mannfræði, stjórnmálafræði, félagsfræði, sagnfræði og fleiri fræðigreina. Kynjafræði er kennd við helstu háskóla heims.
Ég hvet þig til að kynna þér viðfangsefni kynjafræðinnar og þú gætir orðið margs vísari.
Með kveðju, Elín.
Þorvaldur Sigurðsson skrifar:
21/09/2011 at 22:52 (UTC 0)
Ég get svarað Jóni ef Eiður er ekki í skapi til þess. Rigningarskúr getur verið bæði karl- og kvenkyns í íslensku og má bera fyrir sig í þeim efnum ekki ómerkari mann en félaga Mörð og höfuðverk hans, Íslenska orðabók handa skólum og almenningi. Þótt Jón kannist ekki við orðalag eður orðanotkun er ekki þar með sagt að ráða þurfi heilan ráðunaut til að laga málfarið við Rúv (bara til að skaprauna Eiði) að málvitund hans. Fleiri kunna nefnilega að hafa rétt fyrir sér og það jafnvel þótt þeir séu ekki sammála margnefndum Jóni.
Jón Sveinsson skrifar:
21/09/2011 at 19:34 (UTC 0)
Sæll Eiður og þakka þér fyrir að taka undir orð mín. Mig langar að spyrja þig hvenær rigningar skúr, gjarnan stytt í skúr eða skúrir skv. minni málvenju, er nú allt í einu orðin í karlkyni í veðurfréttum R.u.v.-sjónvarp.
Ég held ég muni rétt að sú stofnun hafi nýlega auglýst eftir málfarsráðunaut, ef svo er þá þarf sá sem þar ræður að taka til hendinni.
Þá langar mig að geta þess að fyrir margt löngu, nánar tiltekið þann 10. feb. 2001 birti velvakandi grein eftir mig varðandi íslenska tungu undir yfirsögninni „Nöldur“.
Gaman þætti mér að þú skoðaðir hana ef þú hefur tækifæri til, því það er eins og lítið hafi breyst í tímans rás.
Með kærri baráttukveðju til þín Jón Sveinsson
E.s. Mér þætti vænt unm að fá línu frá þér á netfangið mitt, því ég get mætavel sent þér þessa grein af áhugi er fyrir hendi. J.S.