Ríkisútvarpið er stjórnlaust. Þar fara stjórnendur sínu fram. Stjórn stofnunarinnar gerir ekki neitt.. Hún hefur líka lítil sem engin verkefni að lögum. Ráðuneytin sem eiga að fara með málefni Ríkisútvarpsins virðast hafa gefist upp. Gera ekki neitt.
Nýjasta afrek yfirmanna Ríkisútvarpsins er að bannfæra orðið Ríkisútvarp, þetta rúmlega áttatíu ára gamla heiti sem hefur lifað svo lengi með þjóðinni. Orðið Ríkisútvarp má nú hvorki heyrast í útvarpi eða sjónvarpi. Skammstöfunin Rúv dynur í eyrum hlustenda nótt sem nýtan dag. Ekkert má kenna til ríkis- eins eða neins og svo finnst kannski sumum í Efstaleitinu erfitt að segja orðið Ríkisútvarp. Söguna skal þurrka burt. Það virðist vilji stjórnenda.
Svo langt gengur þessi hreinsun stjórnendanna í Efstaleiti að orðið Ríkisútvarp er ekki lengur að finna á vefrænu símaskránni ja.is. Ef orðið Ríkisútvarp er slegið inn, kemur á skjáinn: Ekkert fannst. Sé farið á gulu síðurnar kemur líka á skjáinn: Ekkert fannst.
Þetta er öldungis ótækt. Þeir sem ábyrgð bera á málinu í stjórnkerfinu eiga að taka þá Efstaleitismenn til bæna sem standa fyrir þessum ósóma.
Hver í ósköpunum veitti Páli Magnússyni útvarpsstjóra leyfi til að breyta nafni stofnunarinnar sem honum var trúað fyrir ? Svar óskast. Þetta er auðvitað dæmalaus ósvífni.
18 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
22/09/2011 at 09:53 (UTC 0)
Verð að valda þér vonbrigðum. Er ósammála þér. Munurinn er ekki bara eitthvert hlutfall.
Steingrímur Jónsson skrifar:
22/09/2011 at 00:34 (UTC 0)
Jú, Eiður – RARIK var simnefni Rafmagnsveitna ríkisins og festist sem stytting. Svo var fjármálaráðherra falið að stofna hlutafélag um rekstur Rafmagnsveitnanna og það heitir í dag RARIK ohf. Ekki sé ég að það hafi nokkurs staðar verið gefin heimild fyrir því. En þú veldur mér miklum vonbrigðum sem íslenskumaður ef þú ætlar að samþykkja þetta orðskrípi sem nafn. Ekki er það þjálara en upprunalega nafnið þó styttra sé.
Ég sé bara nákvæmlega engan mun á því að stytta Ríkisútvarpið niður í RÚV en Rafmagnsveitur ríkisins í RARIK – Annars vegar 13 stafur niður í 3 og hins vegar 22 stafir (og bil) niður í 5. Nokkurn vegin sama hlutfall.
ANnars starfaði faðir minn um áratuga skeið hja ríkisútvarpinu og ég nú á annan áratug á Rafmagnsveitunum – ég skil hvaða þú ert að fara, það eina vonda við þetta fyrirtæki er nafnið!
Þorkell Guðbrandsson skrifar:
21/09/2011 at 16:35 (UTC 0)
Það má lengi fara í togstreitu út af smáatriðum og tittlingaskít. Aðalmálið er að Eiður hefur á réttu að standa. Það liggur fyrir, að yfirstjórn fyrirtækisins, sem enn heitir að lögum Ríkisútvarpið ohf., hefur gefið starfsfólki ströng fyrirmæli um að nota „Rúv“ í öllum lesnum textum. Þegar þetta bætist við ólíðandi hlutdrægni í fréttaflutningi t.d. af Alþingi Íslendinga, sem trúlega verður farið að kalla AÍ innan skamms, fer maður að spyrja sig hvort ástæða sé til að reka svona stofnun fyrir skattfé almennings?
Egill skrifar:
21/09/2011 at 12:12 (UTC 0)
Báknið heitir Ríkisútvarpið ohf., svo mér er til efs að það sé hreinlega löglegt að útrýma því nafni svona gjörsamlega. Hvaða rök eru fyrir því að þegar „Ríkisútvarpið“ er slegið inn á ja.is kemur svarið: „Ekkert fannst… Athugaðu hvort rétt leitarorð hafi verið slegið inn.“? Ætli það endi ekki með því að talað verði um „Morgunrúv“, „Síðdegisrúv“, „Rúvfréttir“ og „Rúvstjórann Pál“? A.m.k. ef núverandi stjórnendur fá ekkert aðhald og komast upp með þessa ósvífni.
Eiður skrifar:
21/09/2011 at 10:09 (UTC 0)
Það er ekki rétt að kenna Katrínu einni um það sem nú fer úiskeiðis í Efstaleiti. En ráðherrar verða að taka í lurginn á þeim sem ráða nú öllu í Ríkisútvarpinu.
Eiður skrifar:
21/09/2011 at 10:06 (UTC 0)
Var það ekki stytt í Rarik? Tvö orð og ekki þau þjálustu. Ríkisútvarpið er eitt orð og engum ofraun.
Steingrímur Jónsson skrifar:
21/09/2011 at 01:41 (UTC 0)
Eiður, farðu á vefsíðuna http://www.ruv.is og kíktu á hvað vefsíðan heitir…
En fyrst þú ert byrjaður – veist þú nokkuð hvað varð um Rafmagnsveitur ríkisins?
caramba skrifar:
20/09/2011 at 23:51 (UTC 0)
Ríkisútvarpið er enn að fullu og öllu í eigu þjóðarinnar en hefur orðið börnum og hröfnum að leik í boði VG. Verkdeyfð Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra hefur hvergi komið skýrar fram en í geðleysi hennar gagnvart stjórnendum þessarar stofnunar.
Eiður skrifar:
20/09/2011 at 22:27 (UTC 0)
Hollvinasamtökin, Þorgrímur , verða að láta þetta mál til sin taka. Það er verið að ganga af Ríkisútvarpinu dauðu.
Þorgrímur Gestsson skrifar:
20/09/2011 at 22:03 (UTC 0)
Já, það er rétt, Eiður, það er of langt gengið að setja þette Rúv í símaskrána. En ég ártti við að á vefsíðu Ríkisútvarpsins heitir það þó enn sínu gamla nafni. Ég held að hann hafi engan rétt haft til að gera þetta og ráðuneytisfólk virðist sofa. Ósk hefur komi frá stjórnarmanni Hollvinasamtakanna að við látum til okkar taka í þessu.
Ingimar Karl skrifar:
20/09/2011 at 21:46 (UTC 0)
Ég tek undir það með síðuskrifara að þetta er hið undarlegasta allt saman:
http://blogg.smugan.is/ingimarkarl/2011/08/08/rikisutvarpid-er-ur-sogunni/
Það má kannski nefna til gamans að manni finnst það nú orðið vera sérstakt tilefni til hróss þegar menn segja orðið Ríkisútvarp í Ríkisútvarpinu:
sbr. http://blogg.smugan.is/ingimarkarl/2011/08/28/fjolmidlaryni-3-stelpuslagur-um-varalit/
Eiður skrifar:
20/09/2011 at 20:43 (UTC 0)
Útvarp Reykjavík er einskonar kallmerki Ríkisútvarpsins,. Stofnunin hefur alltaf heitið Ríkisútvarpið, Þangað til núverandi stjórnendur fóru að kalla stofnunina Rúv.
Eiður skrifar:
20/09/2011 at 20:41 (UTC 0)
Rétt.
Pétur skrifar:
20/09/2011 at 20:12 (UTC 0)
Hvernig beygist Rúv?
Rúv, Rúv, Rúvi, Rúvs ?
Hef tekið eftir því að fréttir á „Rúv“ eru yfirleitt ekki lengri en 15 til 20 mínútur, afgangurinn af háftímanum frá 19:00 til 19:30 fylltur upp með íþróttaröfli.
Eiður skrifar:
20/09/2011 at 19:10 (UTC 0)
Auðvitað, Þorgrímur, finnur þú vísað til Ríkisútvarpsins á Google. Það er hinsvegar sýnist mér allgt gamalt frá því fyrir þessa arfavitlausu ákvörðun stjórnenda. Ríkisútvarpið er ekki lengur á símaskránni. Fréttastofa Ríkisútvarpsins er ekki lengur til, allt er Rúv Rúv og aftur Rúv. Mjög vafasamt hlýtur að vera að núverandi stjórnendur hafi heimild til að gera þetta. Páll Magnússon var tráðinn útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins , ekki Rúv. Sigrún Stefánsdóttir vinnur ekki hjá Rúv, heldur Ríkisútvarpinu.
Ragnhildur Valgeirsdóttir skrifar:
20/09/2011 at 19:08 (UTC 0)
ég hélt að rúv hafi alltaf heitið Útvarp Reykjavík
Ragnar Eiríksson skrifar:
20/09/2011 at 18:43 (UTC 0)
Leit á GOOGLE search skilar 642 niðurstöðum svo það er alla vega ekki alveg búið að útrýma „Ríkisútvarpinu“.
Ragnar
Þorgrímur Gestsson skrifar:
20/09/2011 at 18:12 (UTC 0)
Enn kemur Ríkisútvarpið upp þegar ég slæ það inn á Google, Eiður! Og enn heitir vefurinn Vefur Ríkisútvarpsins og þar er að finna Sögu Ríkisútvarpsins. Hitt er annað mál að mér hugnast ekki þessi á mikla notkun á skammstöfuninni. Og enn svarar ein manneskja á símanum: Ríkisútvarpið, góðan dag! Og segist ætla að halda því áfram! Heimildavinnan verður að vera í lagi!
Kveðja.
Þorgrímur Gestsson.