«

»

Molar um málfar og miðla 718

Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (18.09.2011) var sagt frá olíumengun í sjó undan ströndum Svíþjóðar. Sagt var að tekist hefði að ná upp 130 þúsund tonnum. Molaskrifara fannst magnið vægast sagt ótrúlegt. Á fréttavef sænska dagblaðsins Dagens Nyheter var sagt að tekist hefði að hreinsa upp 150 rúmmetra af olíu. Hvernig víkur því við að svona deilla nær alla leið inn í stofu til okkar ? Það er eins og enginn lesi fréttahandrit yfir áður en fréttirnar eru lesnar fyrir okkur. Það er vont vinnulag. Stór olíuleki við Svíþjóð, sagði í fyrirsögn á mbl.is. Stór leki? Í fréttinni á mbl.is er talað um tekist hafi að dæla upp 130 þúsund lítrum af olíu. Það er dálitið annað en 130 þúsund tonn eins og Ríkisútvarpið sagði okkur frá.

Í sama fréttatíma var sagt frá vígslu nýs vígslubiskups í Skálholti. Þar var orðalag á stundum heldur klaufalegt. Þá var séra Kirstján Valur Ingólfsson vígður af biskupi Íslands í embættið. Óþörf þolmynd. Betra hefði verið: Þá vígði biskup Íslands séra Kristján Val Ingólfsson vígslubiskup í Skálholtsumdæmi. Líka var talað um nýr vígslubiskup hefði verið vígður inn í embættið og vígður til embættis. Þetta var ágætlega orðað á mbl.is: ,,Fjölmenni var við vígsluathöfn í Skálholti í dag þar sem biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, setti sr. Kristján Val Ingólfsson í embætti vígslubiskups í Skálholtsumdæmi”.

Frétt á visir. is (18.09.2011) er óvenjulega illa unna unnin. Sjá http://www.visir.is/gedlaeknir-metur-lithaisku-modurina-sakhaefa/article/2011709179937 Fréttin mun hafa verið endurtekin nær óbreytt í hádegisfréttum Bylgjunnar. Glöggur lesandi sem benti á þetta nefndi einnig aðra frétt á visir.is um flugmenn hefðu verið neyddir til að lenda með fársjúkan farþegan. Þeir urðu að lenda, þeir neyddust til að lenda. Það var enginn sem neyddi þá til þess.

Harpa bendir á eftirfarandi af vefnum fotbolti.net: Á 39. mínútu var tekið boltann af Angel Di Maria, leikmanni Real Madrid, sem reiddist og fór beint í tæklingu og fékk gult spjald fyrir. Takka, Harpa. Ekki var þetta gott.

Það er undarlegt að Ríkisútvarpið skuli ekki geta tilgreint við frumflutning þátta eða mynda hvort og hvenær umræddur þáttur verður endurfluttur. Þetta gera velflestar norrænu stöðvarnar. Þetta eru slök vinnubrögð, – það lítur út fyrir að dagskrá sé ekki skipulögð mjög langt fram í tímann. Þessu ætti þó að vera auðvelt að breyta.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það finnst mér í lagi, – er þó enginn æðsti dómstóll frekar en fyrri daginn!

  2. Hafsteinn Már skrifar:

    ,,Hefði verið rétt að segja að flugmennirnir hafi verið tilneyddir?“ Spyr ég af einskærri forvitni.

  3. Eiður skrifar:

    Settur í embætti finnst mér hafa aðra mertkingu en að vera settur til að gegna embætti. Þakka þér línurnar.

  4. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    ,,Fjölmenni var við vígsluathöfn í Skálholti í dag þar sem biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, setti sr. Kristján Val Ingólfsson í embætti vígslubiskups í Skálholtsumdæmi”.
    Er hr. Kristján þá settur vígslubiskup? Og þá væntanlega til bráðabirgða?
    Annað; svar þitt til Jónsens í Mogganum í dag var prýðilegt. (Bara svo ég sé ekki alltaf með skæting).

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>