Afturganga var á ferð í fréttum Stöðvar tvö þegar sagt var frá sprengingu og eldsvoða um borð í norska strandferðaskipinu Nordlys. (15.09.2011). Þar var sagt: Allir hinna slösuðu eru meðlimir áhafnarinnar. Það er lífseig ambaga að tala um áhafnarmeðlimi. Hér hefði farið betur á að segja: Allir sem slösuðust voru úr áhöfn skipsins, – eða þeir sem slösuðust voru allir úr hópi skipverja. Svo er því við að bæta að Nordlys er ekki ferja heldur strandferðaskip, hluti af hraðferðakerfinu (hurtigruta) sem tengir strandbyggðir Noregs.
Meðan margir bíði úrlausn sinna mála, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (15.09.2011). Hér hefði átt að segja, til dæmis – meðan margir bíða eftir úrlausn sinna mála. Og meira um mál úr sama fréttatíma: Er mál hans ólokið ..
Hefði átt að vera: Er máli hans ólokið. Þingflokksformaður sagði í sama fréttatíma að mál væri í miklum ágreiningi. Þingflokksmaðurinn átti við að mikill ágreiningur væri um málið. Fréttamenn nota þetta orðalag líka segja að eitthvað sé í ágreiningi þegar ágreiningur er um eitthvað Þá er þess loks að geta að formaður danska jafnaðarmannaflokksins var ýmist kölluð Hell eða Helle. Konan heitir Helle Thorning-Schmidt.
Egill sendi þetta (15.09.2011): Í sjónvarpsfréttum ríkis, var í kvöld sagt frá HVÍTÞVOÐUM peningum. Fréttamaðurinn hefur greinilega ekki „þvoð sér“ nægilega vel um eyrun þegar þetta var kennt í barnaskóla. Sagði Egill
Glöggur lesandi benti Molaskrifara á frétt í Fréttablaðinu (15.09.2011) um Landeyjahöfn og siglingar milli lands og Eyja. Í fréttinni segir að dæluskipið Skipið Skandia hafi legið óhreyft í höfn og síðan segir orðrétt: … því sé í raun ekki rétt að tengja saman siglingar Baldurs og hreyfingarleysi Skandia. Hreyfingarleysi skips?
Úr dv.is (15.09.2011): Sá tók þó hraustlega á móti sem endaði með að einn mannana tveggja lá blóðugur eftir í götunni. Ekki einn mannanna tveggja, heldur annar mannanna.
Mbl.is fær hrós fyrir að segja (16.09.2011): Kjörstöðum lokað í Danmörku. Í staðinn fyrir , – kjörstaðir loka í Danmörku eins og of margir sögðu of oft ekki fyrir löngu.
Skáldið Grímur Thomsen kannast einhverjir við, var sagt í Kastljósi (16.,09.2011). Skáldið Grím Thomsen kannast einhverjir við, – hefði betur verið sagt.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Haukur Kristinsson skrifar:
18/09/2011 at 19:35 (UTC 0)
Í kvöldfréttum var eðlilega sagt frá kosningum í „Landesparlament Berlin“, höfuðborgar Þýskalands. Sigurvegarinn er jafnaðarmaðurinn Klaus Wowereit.
Í fréttum var tekið fram að hann væri samkynhneigður. “Muss das sein?”