«

»

Molar um málfar og miðla 725

Aftur sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps í kvöld (27.09.2011) að eitthvað hefði ollið nokkrum áhyggjum. Hann notaði sama orðalag fyrir fáeinum dögum , sjá Mola um málfar og miðla 721. Hann heldur að til sé sögn sem heitir að olla, (eins og gamall blaðamaður, Sigurður Hreiðar, nefndi á Fésbókinni) en svo er ekki. Þetta er sögnin að valda. Það er tilölulega auðvelt að tileinka sér hvernig hún beygist og hvernig á að nota hana. Þessi fréttamaður þarf að læra móðurmálið betur.

Metnaðarleysi Ríkisútvarpsins varðandi vöndun málfars kristallast í þættinum Virkum morgnum sem er á dagskrá Rásar tvö frá klukkan níu til tólf fimm daga vikunnar. Þar ráða ríkjum þau Guðrún Dís Emilsdóttir og Andri Freyr Viðarsson. Það á að halda fólki sem talar um að senda kveðjur til Sandgerðar (Sandgerðis) frá hljóðnemum í Efstaleiti. Í þættinum var talað um (26.09.2011) að versla hamborgara og einnig fengu hlustendur að heyra að random væri ekki rétta orðið heldur shuffle. Þessi tvö ensku orð eru oft á tökkum geislaspilara og tákna að þá raðar spilarinn lögunum á geisladisknum í handhófsröð. At random þýðir af handahófi og sögnin to shuffle þýðir að stokka (t.d.spil). Hversvegna er ekki fengið fólk til að stjórna þessum þætti sem er sæmilega máli farið ?

Símafyrirtækið Vódafón auglýsir í sjónvarpi (26.09.2011): Appaðu þig í gang! Hvaða endemis rugl er hér á ferðinni? Hversvegna eru gerðar auglýsingar sem eru venjulegu fólki óskiljanlegar?

Í fréttum Ríkissjónvarpsins (26.09.2011) var sagt: 1,2 milljarður. Hefði átt að vera 1,2 milljarðar, en 1,1 milljarður. Í yfirliti við lok sexfrétta las þulur: Hlutabréf hækkaði … Þulir verða að hlusta á það sem þeir lesa. Það er undirstöðuregla.

Egill sendi eftirfarandi (26.09.2011): ,,Í fyrirsögn á visir.is stendur: Vann næstum 2 milljarða á Internetinu. Var hann s.s. hársbreidd frá því að vinna? Það mætti skilja á fyrirsögninni, en hið rétta er að hann vann andvirði tæpra tveggja milljarða króna. Þarna er fyrirsögnin villandi.” Um þetta er Molaskrifari Agli ósammála. Hann átti ekki erfitt með að skilja fyrirsögnina og finnst hún ekki villandi.

Gestkomandi hundur beit sauðfé, segir á vef Ríkisútvarpsins (26.09.2011). Þetta er eins og með Akureyri í gamla daga. Þá var þess alltaf sérstaklega getið að utanbæjarmenn, aðkomumenn, hefðu verið að verki ef innbrot voru framin í bænum. En er það ekki svo þegar hundar ráðast á fé að þá er talað um að hundar leggist á fé ?

Hjálmtýr Heiðdal sendi eftirfarandi (26.09.2011) : ,,Haldið verður málþing um stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar á vegum RIFF. Nafn málþingsins er: Hvert fer íslensk kvikmyndagerð héðan?”Ég sendi eftirfarandi athugasemd til þeirra sem sendu mér tilkynninguna: Hver semur svona fyrirsögn?
Er íslensk kvikmyndagerð á förum? Er það innihald fyrirsagnarinnar?
Ef svo er þá er eins gott að menn setjist niður og ræði málin – t.d. hvaða lönd eru
vænleg sem nýr dvalarstaður íslenskrar kvikmyndagerðar.
Fer hún héðan í heilu lagi – allt heila dótið – menn, tæki og skrifborð??
Það kemur fram í textanum að það á að ræða „um stöðu og samkeppnishæfi íslenskrar kvikmyndagerðar“Hvernig væri að semja fyrirsögn í samræmi við það?
Einfaldast er: Staða kvikmyndagerðar á Íslandi. Sjálfsagt má semja betri fyrirsögn, en sú sem var valin er afleit.” Molaskrifari þakkar Hjálmtý sendinguna.

Fjölmiðlabrandari ársins var í Morgunblaðinu (27.09.2011). Þar var sagt frá því að eigandi og forstjóri Fjölskylduhjálparinnar og fyrrverandi (og kannski núverandi þáttgerðarmaður í Útvarpi Sögu) útnefndi fyrirtæki vinkonu sinnar Arnþrúðar Karlsdóttur Útvarp Sögu það sem hún kallaði ,,fjölmiðil mannúðar 2010” ! Óalfur Ragnar mætti , enda sjónvarpsvélar á staðnum.
Það eru fleiri en Molaskrifari gáttaðir á þessum fáránlegheitum því lesandi sendi Molum eftirfarandi og spyr : ,,Sástu fjölmiðil mannúðar sem tilnefndur var í gær, Útvarp Saga ? Það er kannski von þegar aðalstjórnandi símabulls þessarar útvarpsstöðvar er kosinn á stjórnlagaþing.- Ólafur Ragnar afhenti Arnþrúði verðlaunin.
Kannski að Árni Johnsen fái næstu verðlaun: Þingmaður byggingarlistarinnar? Eða Ólafur Ragnar fyrir hógværð og lítillæti ? Hver veit ?”
Hvaða samfélag er þetta?” Ekki er nema von að spurt sé. Nú þarf að yrkja öfugmælavísur í gamla stílnum.

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Kristian Guttesen skrifar:

    Þorvaldur, ef þetta er úr inngangi Fjölnis, þá er sagt að Tómas Sæmundsson hafi skrifað hann en ekki Jónas Hallgrímsson (Sjá, t.d. Kristinn E. Andrésson, Ný augu: tímar Fjölnismanna, Bókaútgáfan Þjóðsaga: Reykjavík, 1973, bls. 46 & 53).

  2. Eiður skrifar:

    Molaskrifari er ekki nógu tæknifróður til að vita við hvað er átt. Í hans eyrum er þetta bara óskiljanlegt bull.

  3. Tæknivæddur spyr skrifar:

    Appaðu þig í gang! – er bölvað bull. En hvaða orð á þá að nota á íslensku í staðinn fyrir enskuna application?

  4. Gunnhildur skrifar:

    Ég er sammála Agli. Betur hefði farið að skrifa að maðurinn hefði unnið tæpa tvo milljarða, en næstum. Það er fallegra mál og auðskilið.

  5. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    Valda, olli, valdið. Svo er hefðin upp á síðkastið. En einhverntímann reit maður nokkur: „Allt sem ollað getur siðaspillíngu verður þessvegna útibirgt úr ritgjörðum okkar.“ Nú væri þetta skrifað af bögubósa ef marka má Eið. Og kannski er svo. Hins vegar læðist ögn af efa inn í hugskotið þegar athugað er hver skrifaði um siðaspillínguna. Þessi klausa er nefnilega tekin úr inngangsorðum Fjölnis og stendur á 13. bls. í fyrsta heftinu. Sigurður Nordal sagði: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt; það kalla ég íslensku.“ Og honum er ég sammála jafnvel þótt til séu menn með máltilfinningu sem ekki viðurkennir þetta.

  6. Þorsteinn R. Þorsteinsson skrifar:

    Ég er HÉRNA ekki HÉRNA sérlega góður í HÉRNA málfari og reyni því að HÉRNA herma eftir HÉRNA því sem heyra má í HÉRNA fjölmiðlum.
    T.d:
    KR vann leikinn – hvað ætla þeir að gera við hann?
    KR vann íslandsmótið – þá er það farið fyrir fullt og allt.
    KR vann bikarinn – áttu þeir í barátuu við bikar?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>