«

»

Molar um málfar og miðla 727

Það er engu líkara en það sé ólæknandi sýki hjá mörgum fjölmiðlamönnum að halda að nafnorð sem stendur fremst í setningu þurfi alltaf að vera í nefnifalli. Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins klukkan sjö (28.09.2011) var sagt: Fundur stjórna … (samtaka lögreglumanna) …. lauk ekki fyrr en…. Fundi lauk. Fundur lauk ekki. Þetta er hreint ekki flókið.

Það var svolítið nýr tónn í viðtölunum við þingmennina Margréti Tryggvadóttur og Guðmund Steingrímsson á Rás tvö (28.09.2011). Margrét á ekki margt sameiginlegt með sumum flokkssystkinum sínum eins og t.d. Birgittu Jónsdóttur. Það var hárrétt að lausnin á deilunum um stjórnarráðið lá fyrir mörgum dögum áður en málið leystist. Hluti þingflokka íhalds og framsóknar ákvað hinsvegar að halda niðurrifsræðum sínum áfram þótt málið væri í raun leyst. Það er þessum flokkum og þessum þingmönnum þeirra til skammar.

Sé tekið mið af leiðara Morgunblaðsins (29.09.2011) og skrifum á heimasíðu Björns Bjarnasonar um ríkislögreglustjóraklúðrið er í lagi að skauta framhjá laganna bókstaf, – stundum. Svona getur nú réttlætið verið sveigjanlegt.

Guðmundur Þór sendi eftirfarandi (27.09.2011):
,,Jónas Margeir Ingólfsson skrifar í dag á Visir.is:
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segist vera sár og svekkt yfir svartagaldursrausi Samtaka atvinnulífsins.
Orðið „svartagaldursraus“ kemur síðan tvívegis fyrir í fréttinni.
Í hádegisfréttum útvarps mátti svo heyra að Jóhanna talar um „svartagallsraus“ en ekki „svartagaldursraus“. Á þessu tvennu er mikill munur. Svartagaldur er galdur sem beitt er til ills, ekki ætla ég Vilhjálmi Egilssyni að hafa vilja né getu til slíks. Svartagall merkir hins vegar bölsýni og er augljóst að það orð á við hér.
Ég er oft hugsi yfir notkun þolfalls og þágufalls á orðinu kvöld með forsetningunni í. Gjarnast er farið að segja „í gærkvöld“ sem mín máltilfinning segir að sé rangt. „300 manns mættu á minningarstund í gærkvöld“ var sagt í fréttum og endurtekið, kemur oft fyrir. Ég kem í kvöld en ég kom í gærkvöldi segi ég, hvað finnst Molaskrifara?” Molaskrifari er Guðmundi Þór sammála. Rétt er að geta þess að svartagaldurinn var leiðréttur er kom fram á daginn.

Af pressan.is (27.09.2011): Dýraverndunarsinnar eru æfir yfir atviki sem átti sér stað á dögunum en ungur karlmaður gekk í burtu án afleiðinga eftir að hafa kastað hvolpi ítrekað langt út í sjó svo að á honum sá. Gekk í burtu án afleiðinga! Endemis vitleysa.

Pólitískir skriffinnar Morgunblaðsins umgangast sannleikann oft með býsna sérstæðum hætti. Í nafnlausum Staksteinum þaðan sem höfundur kastar sínum stöku steinum úr glerhúsi segir (28.09.2011): ,,Óklárað álver í Helguvík er eitt skýrasta dæmið um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Hún talar sig ekki frá því.” Þeir sem hafa fyrir því að kynna sér stöðu þess máls vita að ókláraða álverið hefur ekkert með atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar að gera. Hún hefur ekki staðið í vegi fyrir því. Hér er unnið eftir reglunni að séu ósannindi endurtekin nægilega oft fara sumir að trúa þeim. Á því lifir Mogginn um þessar mundir. Allt er stopp. Ekkert gerist. Ekkert hefur verið gert. Ríkisstjórnin vill landinu og fólkinu illt. Þeir sem vilja bara sjá svart. Sjá bara svart.

Það hefur áður verið nefnt í Molum að það er til fyrirmyndar hjá Stöð tvö að birta borganöfn á veðurkortum. Hversvegna getur Ríkissjónvarpið ekki gert það líka?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>