Bröns alla sunnudaga, auglýsir Ríkisútvarpið. Þetta er málstefnan í hnotskurn. Þar segir um aðsent efni og auglýsingar: ,,Auglýsingar skulu almennt vera á íslensku, en heimilt er að erlendir söngtextar séu hluti auglýsingar,”. Það er gott að móta málstefnu. En hún er lítilsvirði ef ekkert er farið eftir henni eins og þetta dæmi sannar. Orðið bröns er ekki íslenska. Það er enska.
Ekki færri en 10 þúsund flugskeyti hafa tínst í Líbíu á undanförnum mánuðum, segir mbl.is (02.10.2011). Það er þetta með að tína og týna. Ekki alveg á hreinu hjá þeim Moggamönnum. En hvernig flugskeyti týnast er svo einnig umhugsunarefni.
Braut Sigmundur Davíð þingskaparlög, er spurt í undirfyrirsögn á dv.is (03.10.2011). Þingskaparlög? Sá sem þetta skrifaði þekkir sennilega ekki orðið þingsköp. fundarsköp Alþingis. Þingskapalög, hefði þetta átt að vera.
Finnst þér lítið vera gert …? er gott dæmi um leiðandi spurningu. Þessa spurningu lagði fréttamaður Ríkissjónvarps fyrir mótmælendur fyrir utan Alþingishúsið (03.10.2011). Ekki faglegt.
Guðmundur Þór sendi Molum eftirfarandi (01.10.2011): ,,Vísir.is í dag:
Dirk Kuyt, leikmaður Liverpool, lét Tim Howard verja frá sér víti Ég á erfitt með að trúa því að leikmenn í knattspyrnu séu að láta markmenn verja frá sér víti, óheppni þess sem spyrnir eða snilld markmanna ræður frekar þar um, en alltof oft er þetta orðalag notað í íþróttafréttum.
Eins er afar oft skrifað eða sagt að eiga við meiðsli að stríða. Eru menn þá ekki einfaldlega meiddir?
Orðtakið „að lúta í gras“ er hins vegar snilld!”
Egill sendi eftirfarandi. Hann hafði verið að hlusta á Rás tvö á sunnudagskvöldi (02.10.2011): ,,Þórður Helgi Þórðarson sagði í kvöld: Ég grunar svona í heildina … í stað mig grunar. Óþarfi að missa svona vitleysu út úr sér.”
Í morgunútvarpi Rásar tvö (03.10.2011) sagði umsjónarmaður að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra væri kominn heim á klakann. Molaskrifari er aldrei sáttur við það þegar Ísland er kallað klakinn. Hversvegna sagði umsjónarmaður ekki að ráðherrann væri kominn aftur til landsins, kominn til baka frá Mexíkó? Það var líka undarlegt í þessum sama morgunþætti að heyra áróður fyrir því að fólk borðaði meiri harða fitu (mör) þvert á allar ráðleggingar manneldisfræðinga og lækna. Þetta er ekki hlutverk Ríkisútvarpsins.
Sellósnillingurinn Erling Blöndal Bengtson hefur komið við sögu í fréttum eftir að hann gaf Tónlistarsafni Íslands fyrsta sellóið sem hann eignaðist. Það var fallega gert. Í kunningjaspjalli rifjaði þekktur tónlistarmaður það upp við Molaskrifara að Erling Blöndal Bengtson hefði á sínum tíma flutt allar sellósvítur Bachs í Ríkisúvarpinu. Halldór Laxness hefði flutt formálsorð, sem væru með því besta sem sagt hefði verið um tónlist á íslensku. Gaman væri að fá að heyra þetta aftur.
Hér er stundum fjallað um fréttamatið á fréttastofu ríkisins í Efstaleiti. Það var einkennilegt fréttamat (03.10.2011) í áttafréttum á mánudagsmorgni. Þá voru endurflutt ummæli Ögmundar Jónassonar um ríkislögreglustjóraembættið og innkaup þess á ýmsum varnarbúnaði. Ummæli sem voru á sömu útvarpsrás nokkrum mínútum fyrr. Í ummælum Ögmundar var ekkert nýtt. Það sem var frétt í ummælum hans var það sem hann sagði um Guðmundar- og Geirfinnsmál. Hann sagðist mundu taka ákvörðun um hvað gert yrði varðandi endurupptöku eða frekari rannsókn málsins fyrir lok vikunnar. Þess var getið í lokin, en það var fréttin.
Heyrði Arnþrúði Karlsdóttur útvarpsstjóra Útvarps Sögu setja ofan í við einn af föstum símadónum stöðvarinnar (03.10.2011) og biðja hann um að taka sér símahlé. Það var ágætt. Nú bíð ég bara eftir að Arnþrúður Karlsdóttir hætti að ljúga upp á mig í þessu einkamálgagni sínu.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
04/10/2011 at 09:36 (UTC 0)
Kærar þakkir Þorgils Hlynur. Dagverður er fínt orð yfir þessa máltíð sem á að vera einskonar blanda morgunverðar og hádegisverðar.
Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:
04/10/2011 at 09:19 (UTC 0)
Sæll Eiður! Mikið er ég sammála þér um þetta vandræðaorð, „brunch“ (eða bröns). Ég kalla þetta dagverð (einnig hefur þetta verið kallað „dögurður“. Má ekki rekja það orð aftur til forníslensku? Þess má til gamans geta að Færeyingar kalla hádegisverðinn døgurða (þf. kk. veik beyging) og á sama hátt kallast kvöldverðurinn nátturði. Sumir hér heima fá sér pínulítið snarl rétt fyrir háttinn, til dæmis banana (eða bjúgaldin) áður en þeir bursta tennurnar fyrir háttinn og mætti vel kalla þá máltíð náttverð. Þakka þér innilega fyrir alla ágætu pistlana þína (eða molana), sem gaman er að fylgjast með. Með vinsemd og virðingu, Þorgils Hlynur Þorbergsson.
pax skrifar:
04/10/2011 at 08:24 (UTC 0)
Þú ert eins og eltihrellir….