«

»

Molar um málfar og miðla 732

Morgunblaðið getur verið undarlegt blað. Í frétt af hávaðamótmælum á Austurvelli (04.10.2011) segir: Svo virðist sem áætlunarflugi Flugfélagasins hafi verið beint yfir Austurvöll því minnsta kosti þrjár flugvélar merktar fyrirtækinu flugu beint yfir alþingishúsið svo mikill hávaði skapaðist. Er blaðamaðurinn segja lesendum Moggans að Flugfélag Íslands hafi tekið þátt í mótmælunum með því að beina flugi yfir þinghúsið ? Veit blaðamaðurinn ekki að aðflugið að norður-suðurbraut Reykjavíkurflugvallar liggur beint yfir Alþingishúsið þegar lent er til suðurs? Molaskrifari minnist þess er hann átti sæti á Alþingi að það gat verið daglegur viðburður og stundum oft á dag að ræðumenn þurftu að gera hlé á máli sínu því ekki heyrðist mannsins mál í þingsal þegar Fokkervélarnar voru í aðflugi. Svona hallærisleg vinnubrögð ættu að vera fyrir neðan virðingu Morgunblaðsins. Hvar er hún annars? Af hverju er verið að blanda vænisýki í fréttaskrif ?

Aðeins meira um Morgunblaðið þennan sama dag: Í pistli við hlið leiðarans lýsir einn af blaðamönnum blaðsins ánægju með eggjakast að alþingismönnum og dregur í efa lýðræðislegt umboð þingsins vegna icesave-kosninga. Hvað hefðu þeir Matthías og Styrmir sagt við svona skrifum? Að maður nefni nú ekki Bjarna Benediktsson sem einu sinni ritstýrði Morgunblaðinu. Öðruvísi mér áður brá.

Í fréttum Stöðvar tvö (02.10.2011) var sagt: … var aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttir. Grunnskólafræðslan um beygingu nafnorðsins dóttir hefur alveg farið framhjá þeim sem þetta skrifaði og sagði. Dóttir, dóttur, dóttur , dóttur. Í sama fréttatímavar sagt: …. hrannast upp á sjóndeildarhringnum. Málvenja er að tala um að eitthvað sé við sjóndeildarhring, en ekki á sjóndeildarhringnum.

Forseti bæjarstjórnar Voga kveðst hafa verið hótað, las fréttastjóri Ríkisútvarpsins fyrir okkur í hádegisfréttum (03.10.2011). Betra hefði verið: Forseti bæjarstjórnar Voga segir sér hafa verið hótað …. eða kvað sér hafa verið hótað.

Í íþróttafréttum Ríkisjónvarpsins (02.010.2011) var talað um Víkingsmenn. Molaskrifari er á því að venja hafi verið að kalla þá sem keppa fyrir Víking Víkinga. Er það rangt? Víkingsmenn er ekki fallegt orð.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (03.10.2011) var fjallað um kynjahlutfall í nefndum Alþingis og þá staðreynd að í fjárlaganefnd situr ein kona og átta karlmenn. Rætt var við formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem á þrjá karlmenn í nefndinni. Formaðurinn sagði þetta ekki ásættanlegt og kvaðst kannski að hluta eiga sök á þessu sjálf sem þingflokksformaður. Þetta hefði verið niðurstaða málamiðlunar. Hún hafi viljað skipa fólki niður þar sem kunnátta þess nýttist sem best. – Það er auðvitað skynsamleg vinnuregla, segir Molaskrifari, en var það þessvegna sem fjórði karlmaðurinn úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins er fyrsti varamaður hinna þriggja sjálfstæðiskarlanna í nefndinni? Varamaðurinn heitir Árni Johnsen. Enginn dregur í efa hæfileika Árna Johnsen alþingismanns þegar kemur að ráðstöfun opinberra fjármuna, peningum okkar skattborgaranna. Eða hvað?

Í auglýsingu í DV frá veitingahúsinu Ránni í Keflavík segir um söngvara og skemmtikrafta: .. og spannar prógramið þeirra í tvo til þrjá tíma á kvöldi á meðan að borðhald stendur yfir. Auglýsingastofan sem sendi þennan texta frá sér er ekki vönd að virðingu sinni. Þarna hefði til dæmis mátt segja: Þau eru með tveggja eða þriggja tíma dagskrá meðan borðhald stendur yfir.

Lýsandi dæmi um hvernig stjórnvöld fótumtroða lýðræðinu, segir bloggari á Moggabloggi (03.10.2011) Talað er um að fótumtroða eitthvað, ekki einhverju.

Egill sendi eftirfarandi: „Varstu ekki sátt með hana Lindu? spurði Andri Freyr Viðarsson á Rás 2 í morgun (03.10.2011) . Þarna ruglar hann tvennu saman. Annars vegar að vera sáttur VIÐ EINHVERN og að vera ánægður MEÐ EITTHVAÐ. Það er ekki hægt að vera sáttur með einhvern”

Einn af hinum orðprúðu símavinum Útvarps Sögu vakti athygli á því (03.10.2011) að Jóhanna Sigurðardóttir ætti afmæli fjórða október og þá fengi hún ávísun frá Tryggingastofnun ríkis sem löggiltur lífeyrisþegi. Stjórnandi þáttarins hlustaði á þetta án þess að leiðrétta símavininn (Í Útvarpi Sögu sakar aldrei að hafa það sem ósannara reynist). þótt hann örugglega vissi betur. Jóhanna Sigurðardóttir varð 69 ára 4. október. Sá aldur hefur ekkert með lífeyrisaldur að gera. Jóhann er í fullu starfi og fær því engar greiðslur frá Tryggingastofnun frekar en aðrir á þeim aldri. En það er auðvitað ástæðulaust í Útvarpi Sögu að nota ekki öll tækifæri sem gefast til skíta þingmenn og ráðherra svolítið út.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Nei. Því veldur tekjutengingin sem (við) Jóhanna áttum víst þátt í að koma á. hef aldrei fengið krónur frá TR.

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Fær fólk ekki grunnlífeyri þegar það verður 67 ára frá Tryggingastofnun ríkisins hvort sem það vinnur eða ekki ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>