«

»

Molar um málfar og miðla 733

Vonbrigði Morgunblaðsins og Útvarps Sögu með þátttöku í mótmælum á Austurvelli við þingsetningu og stefnuræðu forsætisráðherra eru næstum áþreifanleg. Báðir miðlarnir reyna að ýkja fjölda þátttakenda og láta mannfjöldatölur lögreglunnar sem vind um eyru þjóta. Þegar Ríkisútvarpið styðst við mannfjöldatölur frá lögreglunni fær það bágt fyrir. Í Staksteinum (05.10.2011) birtir Morgunblaðið pistil eftir Jón Magnússon lögfræðing, ágætan mann sem starfað hefur í fjölmörgum stjórnmálaflokkum. Ekki veit Molaskrifari í hvaða flokki Jón er nú staddur á sinni pólitísku reisu en hann er óánægður, eins og Mogginn, með frásagnir Ríkisútvarpsins af mótmælendum og finnst lítið gert úr hlut mótmælenda. Mogginn birtir pistil hans með mikilli velþóknun.
Þegar hernámsandstæðingar mótmæltu veru varnarliðs á Íslandi og Natóaðild Íslands þótti Morgunblaðinu mótmælendum alltaf gert of hátt undir höfði, sérstaklega í Ríkisútvarpinu. Blaðið gætti þess að birta myndir af mótmælafundum þar sem fundarmenn virtust sem allra fæstir og engin mannþröng heldur gisinn hópur. Þetta var vandalaust. Kunnur ljósmyndari Morgunblaðsins á stundum hafa spurt þegar hann var beðinn að taka myndir af fundum: Á að vera margt á fundinum? Þannig hefur Mogginn spilað með lesendur sína og gerir enn.

Er hægt að komast lengra í tilfinningaklámi en þegar í Útvarpi Sögu er talað um mótmælanda á Austurvelli með ,,rautt vatn í flösku” í minningu sonar síns? Varla.

Hjá Ríkisútvarpinu eða konunni sem kynnir dagskrána á hverju kvöldi ríkir undarlegur ruglingur um það hvenær kvölddagskrá hefst. Stundum hefst hún ekki fyrr en að loknu Kastljósi. Er Kastljós þá ekki á kvölddagskrá ? Stundum hefst kvölddagskráin strax að loknum fréttum. Til dæmis kvöldið sem útvarpað var umræðum um stefnuræðuna frá Alþingi. Það er fleira sem er á reiki. Í fréttum er fæðingarborg Gaddafis í Líbíu Sirte ýmist kölluð Sirt eða Sirte. Þeir erlendu fjölmiðlar sem Molaskrifari þekkir til kalla borgina Sirt, BBC kallar hana reyndar Sört.

Líklega er það að hverfa úr málinu að segja í fyrra vetur og á fimmtudaginn var svo dæmi séu tekin. Í fjögur fréttum Ríkisútvarps (04.10.2011) var talað um síðasta vetur og í inngangi Víðsjár í kjölfar frétta var talað um síðasta fimmtudag. Molaskrifara finnst að þarna hefði átt að segja í fyrravetur og á fimmtudaginn var. Í fyrrnefndum fréttatíma var talað um að afselta sjó. Þetta er hrátt úr ensku, desalinate. Málvenja er að tala um að eima sjó þegar náð er úr honum saltinu þannig að úr verði drykkjarvatn. Í upphafi Víðsjár var líka talað um snögglega heimsókn á vinnustofu Errós. Orðið snögglega er þarna út í hött. Átt var við stutta heimsókn. Í Víðsjá var ágætt viðtal við Sigurð Karlsson þýðanda og leikara. Þess gætti nokkuð að spyrill hefði mátt hlusta betur á það sem Sigurður sagði. Slíkt er nokkuð algengt.

Þessi frétt á visir.is (03.10.2011) er ekki beinlínis afreksverk:
Manneskja féll ofan í Reykjavíkurhöfn um sex leytið í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu er verið að vinna að því að ná manneskjunni upp úr höfninni. Svo virðist sem hún hafi dottið af bryggjunni en ekki er vitað meira um málið að svo stöddu.

Nokkur fjöldi sjúkra-, slökkviliðs- og lögreglubílar eru á vettvangi samkvæmt fréttamanni Vísis sem er á staðnum.http://www.visir.is/datt-ofan-i-reykjavikurhofn/article/2011111009586 Féll ofaní Reykjavíkurhöfn! Þarf að segja meira?

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir ábendinguna. Vissi reyndar að til eru fleiri aðferðir en sú að sjóða sjó.

  2. Eiður skrifar:

    Góð ábending, Sveinn. Takk fyrir það.

  3. Sveinn H. Guðmarsson skrifar:

    Aðeins um orðið „að afselta“. Það er gefið upp í ensk-íslenskri orðabók sem þýðing á enska orðinu „desalt“ en auk þess er það í íslensku orðabókinni. Hlýtur það þá ekki að teljast gott og gilt íslenskt orð? Eiming er aðeins ein af mörgum aðferðum til afseltunar sjávar og því ekki víst að það hefði átt við í þessu tilfelli.

  4. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    Það er misskilningur að afseltun (eða hvernig sem það væri sagt) sé endilega eiming. Í eimingu er sjórinn soðinn og gufunni safnað, en til eru fleiri aðferðir, til dæmis svokallað himnuflæði (osmósa), sem nota minni orku en eiming og eru því umhverfisvænni. Sjá um þetta t.d. http://en.wikipedia.org/wiki/Desalination

  5. Orðavinur skrifar:

    Samkvæmt Wikipedíu er nafn norðurafrísku borgarinnar komið úr grísku Grikkir nefndu borgina Syrtis. Á íslenzku mætti nota Syrt.
    Þess má geta að nafn ríkisins, sem borgin er í, er líka komið úr grísku. Grikkir notuðu nafnið Libye fyrir stóran hluta landsins sunnan Miðjarðarhafsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>