Merkilegt er að út skuli komið fimm binda verk um íslenska myndlist. Enn merkilegra er að lesa um að í þessu veglega riti skuli ekki minnst einu orði á gagnmerka listamenn eins og til dæmis Karólínu Lárusdóttur og Pál frá Húsafelli og raunar fleiri. Karólína er þjóðkunnur og verðlaunaður listamaður, hún er vel menntaður málari og fjölhæfur. Verk hennar , olíumálverk vatnslitamyndir og þrykk prýða mörg íslensk heimili (sjá mynd). Páll frá Húsafelli er rammíslenskur listamaður, sem ekki síst hefur leitað fanga í heimahögum. Verk hans hafa vakið verðskuldaða athygli.
Hvað er hér á ferðinni? Er þetta sagnaritun í gamla sovéska stílnum þar sem þeir einir komast á blað sem eru í náðinni ? Hvaða skýringu gefa ritstjórar verksins. Er Karólína Lárusdóttir ekki listamaður? Er Páll frá Húsafelli ekki listamaður? Bæði eiga svo sannarlega heima í íslenskri myndlistarsögu. Það er einskonar sögufölsun að láta þeirra ógetið í þessu mikla fimm binda verki.
Útvarp Saga talar um það sem ,,leikþátt” þegar Árni Þór Sigurðsson féll í götuna er kastað var í höfuð hans á leið til kirkju. Honum er ætlað að hafa gert sér þetta upp. Eini leikþátturinn sem við sáum í sjónvarpi við þingsetninguna var þegar forsetafrúin klöngraðist yfir varnargirðinguna. Það var greinilega vel undirbúið og sviðsett lýðskrum. Sjónvarpið myndaði bakhluta frúarinnar við prílið. DV er ákaflega hrifið af þessu (05.10.2011). Útvarp Saga er ódulbúið málgagn Ólafs Ragnars Grímssonar, – ásamt Morgunblaðinu, svo einkennilegt sem það nú er.
Jafnréttisstofa er óánægð með kynjaskiptingu í nefndum Alþingis, of fáar konur, – of margir karlar. Hjá Jafnréttisstofu starfa samkvæmt blaðafregnum fimm konur og einn karlmaður. Er ekki rétt að Alþingi geri athugasemd við það?
Það er algengt rugl að fólk kalli umræður um stefnuræðu forsætisráðherra eldhúsdagsumræður. Það er rangt. Samkvæmt málvenju eru eldhúsdagsumræður almennar stjórnmálarumræður sem fara fram á Alþingi undir þinglok þegar komið er fram á vor eða sumar.
Lögreglan á Hvolsvelli lét í gær taka tvo hunda af lífi sem staðnir voru að verki við að bíta kindur á tveimur bæjum í Austur-Landeyjum fyrrinótt. (mbl.is 05.10.2011) Það er auðvitað ekkert rangt við þetta orðalag, en kannski er það fullhátíðlegt að tala um að taka af lífi þegar verið er að lóga hundum.
.. og þaðan til Björgvin í Noregi, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (05.10.201).Eignarfall borgarheitisins Björgvin er Björgvinjar. Það er góðra gjalda vert að nota gömul íslensk heiti erlendra borga en þá verða menn líka að kunna með þau að fara. Prýðilegt var í sama fréttatíma að heyra talað um að haska sér, – í merkingunni flýta sér, drífa sig. Þetta var algengt orðatiltæki á bernskuheimili Molaskrifara en heyrist sjaldan nú um stundir.
Í fréttum Stöðvar tvö (05.10.2011) var talað um samkeppnislegt tjón. Betur hefði farið á því að orða þessa hugsun á annan veg. Í sama fréttatíma var sagt frá ástandinu í Grikklandi og talað um uppsagnir á 30 þúsund opinberum starfsmönnum. betra hefði verið að segja að 30 þúsund ríkisstarfsmönnum hefði verið sagt upp (störfum).
Þegar manni finnst eitthvað undarlegt er stundum sagt að það komi manni spánskt fyrir sjónir. Ekki spænskt eins og sagt var í fréttum Stöðvar tvö (05.10.2011)
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Jakob Jonsson skrifar:
08/10/2011 at 13:03 (UTC 0)
Mer fannst surt i broti ad heyra ad hin reynda frettakona Edda Andresardottir kynni ekki ad beygja ordid „faraldur“ Hun sagdi „farald“ a.m.k. tvisvar i frettum stodvar 2 i gaer. Ekki gott