Þræðir valdsins heitir nýútkomin bók eftir Jóhann Hauksson blaðamann. Kunningjaveldi, aðstöðubrask og hrun Íslands er undirtitill bókarinnar. Bókin er lipurlega skrifuð og læsileg og þar er víða leitað fanga, ekki síst í ritum erlendra fræðimanna sem fjallað hafa um þessi mál. Höfundur fjallar meðal annars um nokkur alræmd spillingarmál undanfarinna ára á Íslandi. Athyglisverð er frásögnin af því hvernig framsóknarmaðurinn Gunnlaugur Sigmundsson náði til sín hálfopinbera einokunarfyrirtækinu Kögun (sem kannski ætti að heita Klögun vegna málaferla). Einnig er Giftarmálið svonefnda tekið til umfjöllunar í bókinni. Þar sólundaði hópur sjálfkjörinna framsóknarmanna milljörðum úr búi Samvinnutrygginga. Milljörðum sem þeir áttu ekki. Milljarðarnir voru eign þeirra tugþúsunda Íslendinga sem höfðu skipt við Samvinnutryggingar. Í þriðja lagi skal svo nefna ofsóknir tveggja framsóknarráðherra gegn Birni Friðfinnssyni ráðuneytisstjóra, – ofsóknir sem þeir hlutu dóm fyrir. Þessi mál eru rakin í bókinni og sannast sagna er það með ólíkindum að stjórnmálaflokkurinn sem ól af sér þessa spillingu skuli enn vera á dögum og rífa kjaft. Molaskrifari mælir með bókinni.
Skrifað er á mbl.is (06.10.2011): Karlmaður á fertugsaldri var í gær dæmdur í sextíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast með hótunum og lífláti á stöðumælavörð við skyldustörf. Eftir orðanna hljóðan drap karlmaðurinn stöðumælavörðinn. Sem betur fer var það ekki þannig. Hann mun hafa hótað stöðumælaverðinum lífláti sem svo sem er nógu slæmt.
Meira úr mbl.is (06.10.2011): Ísraelskir hermenn uppgötvuðu í morgun að skemmdarverkamenn höfðu málað hakakrossa á veggi grafhýsis Jósefs í borginni Nablus Kannski smámunasemi. Molaskrifara finnst að hér hefði fremur átt að tala um skemmdarvarga en skemmdarverkamenn.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (0710.20ll) Var talað um Valgerði Bjarnadóttur viðskiptaráðherra. Valgerður Bjarnadóttir hefur aldrei verið viðskiptaráðherra. Það hefur Valgerður Sverrisdóttir hinsvegar verið. Þetta var ekki leiðrétt. Til hvers er fréttastjóri? Til hvers er vaktstjóri ? Hlusta þeir ekki? Hlustar enginn á fréttastofunni? Hversvegna er þetta ekki leiðrétt. Löngum var svo að það eina sem leiðrétt var , var ef rangt var farið með nöfn fólks. Er nú sá siður líka aflagður? Í fréttum Ríkissjónvarpsins um kvöldið var danski skákmeistarinn Bent Larsen kallaður Bent Larson.
Egill sendi eftirfarandi (06.10.2011): … þar sem undir 21 árs landslið Íslendinga eru með það enska …“ sagði Þórður Helgi á Rás 2 í kvöld, en hann ruglar sífellt saman eintölu og fleirtölu. Landsliðið er, leikmennirnir eru. Landsliðið eru ekki. Egill segir einnig (07.10.2011): Ég skipti yfir á Bylgjuna til tilbreytingar. Í morgun sagði Ívar Guðmundsson: „Hann er alltaf eins og laus byssukúla þegar hann kemur hingað“, en þar á hann líklega við enska orðatiltækið: „Like a loose cannon“ ef einhver er óútreiknanlegur eða hvatvís. Það er óþolandi þegar útvarpsfólk tekur að sér að þýða orðatiltæki úr ensku, þvílíkt bull!
Lögreglumenn eru verulega ósáttir með sín kaup og kjör, sagði fréttamaður í sexfréttum Ríkisútvarpsins (06.10.2011) . Betur hefði verið sagt: Lögreglumenn eru verulega ósáttir við laun sín og kjör.
Ríkissjónvarpið brást ekki í kvöld (07.10.2011) frekar en fyrri daginn. Enn ein ameríska unglingamyndin, Campus Confidential á besta tíma kvölds. Myndin fær einkunnina 4,7 (af 10,0) á Internet Movie Database og nær ekki einu sinni inn í Leonard Maltin´s Movie Guide.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
08/10/2011 at 13:45 (UTC 0)
Alveg eins og unglingar geta haft gott af .því að lesa ,,fullorðinsbækur“ hafa .þeir gott af að sjá góðar kvikmyndir ekki bara botnfallið úr bandarískri bíómyndaframleiðslu
Axel skrifar:
08/10/2011 at 12:53 (UTC 0)
Í sjálfu sér skiljanlegt að Rúv sýni að minnsta kosti eina mynd á viku ætlaða unglingum. En það mætti vissulega vanda betur valið á þeim. Það hlýtur að finnast annað í tunnunni en rusl og slepja.