Við getum boðið þér díl í nýjan bíl, auglýsir bílasalinn Ingvar Helgason og B&L í Fréttatímanum (07.10.2011). Orðið díll er ekki íslenska. Það er enskusletta og á ekki heima í auglýsingum fyrirtækja sem eru vönd að virðingu sinni. Sama gildir um slettuna bröns sem daglega dynur á hlustendum Ríkisútvarpsins.
Hreiðar sendi eftirfarandi: Á www.visir.is var í dag (07.10.2011) eftirfarandi fyrirsögn Jafnmargir kaupsamningar þinglýstir og árið 2007 – makaskiptum fækkar. Þarna á auðvitað að vera þágufall en ekki nefnifall og á að vera: Jafnmörgum kaupsamningum þinglýst og árið 2007 – makaskiptum fækkar. Rétt ábending. Það virðist næstum orðin regla í fjölmiðlum að tala um að kaupsamningar séu þinglýstir. Líklega gefur það til kynna að þeir sem skrifa hafi ekki hugmynd um hvað þinglýsing sé.
Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (07.10.2011) var sagt um ástandið í Mexíkó að almenningur væri hræddur við fjárkúganir. Í beygingalýsingu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar er orðið fjárkúgun ekki til í fleirtölu.
Í fréttum Ríkissjónvarps (07.10.2011) var sagt leist vel á blikuna. Ekki hefur Molaskrifari áður heyrt svona tekið til orða. Blika eru ský sem boða breytingar á veðri, venjulega til hins verra. Þess vegna er oft sagt. Nú líst mér ekki á blikuna, nú er útlitið ekki gott, nú er ekki von á góðu.
Fínn þáttur Lönu Kolbrúnar, Litla flugan á Rás eitt (07.10.2011) með Millsbræðrum , Inkspots og Deep River Boys, sem heimsóttu Ísland á sínum tíma. Rifjaði upp fyrir Molaskrifara þegar Delta Rythm Boys komu til Íslands í september 1955 og héldu fjölmarga tónleika fyrir fullu húsi í Austurbæjarbíói. Molaskrifari var þetta sumar eftir Landspróf fimmtán ára gamall í byggingarvinnu á Keflavíkurflugvelli og kom að minnsta kosti tvö kvöld í bæinn með Baldri vini sínum Oddssyni að hlusta snillingana, sem sungu, auk bandarískra söngva, um Flickorna í Småland og loks Vögguvísu Emils Thoroddsen, Litfríð og ljóshærð (ljóðið er eftir Jón Thoroddsen) og gerðu það svo ógleymanlega fallega að það ómar enn í huganum.
Vestmannaeyingum finnast sumar Evrópusambandsreglur afspyrnugóðar , eins og til dæmis að ekki megi nota skip eins og Herjólf til ferjusiglinga eftir 1. nóvember. 2015.
Stundum eru þeir sem kynna tónlist í Ríkisútvarpinu á hálum ís. Í morgunútvarpi Rásar eitt (08.10.2011) heyrði Molaskrifari ekki betur en þulur kynnti verk Debussys, Dans frá Bæheimi, eða Bæheimskan dans með þeim orðum að bóhemar þyrftu að dansa eins og aðrir ! Þetta stutta verk sem Jónas Ingimundarson lék listavel á píanó, svo sem hans var von og vísa, heitir á frönsku: Danse bohémienne og á ensku Bohemian Dance.
Molavin sendi eftirfarandi: ,,Svo segir í fyrirsögn á visir.is (orðrétt): Eftirsóttur hryðuverkamaður var uppáhald CIA. Vinsældir hans hljóta að hafa verið miklar.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Úr visir.is (08.10.2011); Að teknu tilliti til 10 milljarða króna hlutafé Íslandsbanka í Byr reiknast eiginfjárhlutfall Byrs hf. 13,5%. Molaskrifari hallast að því að hér hefði standa: Að teknu tillit til 10 milljarða króna hlutafjár … Að teknu tillit til einhvers. Í fréttinni var fjallað um gífurlegt tap sparisjóðsins Byrs, sem sífellt lét bulla í sjónvarpsauglýsingum um það sem sparisjóðurinn kallaði fjárhagslega heilsu!
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
09/10/2011 at 15:01 (UTC 0)
Sammála.
Þorvaldur S skrifar:
09/10/2011 at 12:49 (UTC 0)
Mér finnst bara ekkert að því að segja: „Almenningur óttast fjárkúgun“. Þetta hljómar fallega og er í samræmi við hefð, viðurkennt og þykir viðeigandi.
Eiður skrifar:
09/10/2011 at 11:42 (UTC 0)
Óttast fjárkúgara.
Nafnlaus skrifar:
09/10/2011 at 03:33 (UTC 0)
„Almenningur óttast fjárkúgun“ hljómar allavegana ekki vel.
Eiður skrifar:
08/10/2011 at 23:34 (UTC 0)
Ég held , Ármann, að hvort tveggja sé gott og gilt.
Þorvaldur S skrifar:
08/10/2011 at 21:46 (UTC 0)
Kúganir. Það orð væri rétt myndað skv. íslenskri málhefð, enda gefur félagi Mörður kost á því í sinni vænu bók, en þar segir: Kúgun -ar, -anir. Ljóst er að eintala orðsins á við það athæfi almennt að kúga fé af fólki, en sé orðið notað í fleirtölu á það við um tiltekin tilvik þar sem fjárkúgun hefur verið beitt. Alkunna er með ýmis orð að þau breyta merkingu eftir því hvort þau eru í eintölu eða fleirtölu. Þannig fer t.d. með vatn sem táknar gjarnan ákveðið efni (H2O) í et. en í fleirtölu ákveðinn skammt af vatni og á ákveðnum stað. Sama máli gegnir um möl. Og gull. Jafnvel má rökstyðja á sama hátt að nota verð í fleirtölu. – Eintöluverð er almennt notað um kostnað við að kaupa vöru eður þjónustu, en í fleirtölunni á verð við verðmiðana sem settir eru á vörurnar. Þessi notkun er ævagömul og kemur m.a. fyrir í Auðunar þætti vestfirska.-
Það segir því ekki endilega alla sögu þótt Árnastofnun birti ekki fleirtöluna á fjárkúgun.
Tillit. Í minni sveit dytti engum manni að segja: Að teknu tillit til… Í þessu sambandi sýnist mér að stýra falli á tillitinu og á sama hátt og engum sveitunga mínum dytti í hug að segja: ?Að teknum hest? myndu þeir allir segja: Að gengnum góðum manni en sá sem léti út úr sér:?Að gengnum góðan mann? mætti búa við háð og spé um hríð.
En þetta er auðvitað bara máltilfinning mín og minna sveitunga.
Ármann skrifar:
08/10/2011 at 18:36 (UTC 0)
Hef stundum verið að velta fyrir mér atriði sem kemur fyrir einmitt í þessari færslu þinni, það er ef einhverjum þykir eitthvað um þetta eða hitt.
„Vestmannaeyingum finnast sumar Evrópusambandsreglur afspyrnugóðar , eins og til dæmis að ekki megi nota skip eins og Herjólf til ferjusiglinga eftir 1. nóvember. 2015.“
Einhvern tímann sá ég á prenti…“börnunum þóttu berin góð“.
Er þetta rétt að þínu mati? Kv. Ármann.