Viðtal við Styrmi Gunnarsson í Silfri Egils var um margt gott, enda Styrmir skýrleiksmaður og hefur sjaldgæfa yfirsýn yfir íslensk stjórnmál undanfarna hálfa öld, – dálítið bjagaða að vísu, að mati Molaskrifara. Styrmir skautaði léttilega (og Egill líka) framhjá ábyrgðinni á einkavæðingu ríkisbankanna sem var frumorsök hrunsins og sagði pólitísku fylkingarnar á Íslandi hafa riðlast. Það er rétt, en hann einblínir á afstöðuna til ESB þegar hann sagði þá Ragnar Arnalds og Guðna Ágústsson vel rúmast í sama flokki. Er Styrmir þá til dæmis sammála um að viðhalda forneskjulegu og steinrunnu landbúnaðarkerfi sem bæði Ragnar og Guðni styðja, kerfi þar sem neytendur eru fórnarlömb sérhagsmuna og gæslumanna þeirra ? Varla. – Við eigum að vera sjálfstæð þjóð utan ESB, sagði Styrmir. Grannar okkar Danir, Svíar og Finnar eru samkvæmt þessari fullyrðingu ekki lengur sjálfstæðar þjóðir. Það er auðvitað rangt. Það er líka rangt að höfuðtilgangur ESB sé að koma í veg fyrir stríð milli Evrópuþjóða. það var markmiðið þegar Kola og stálbandalagið var stofnað (Parísarsáttmálinn frá 1951 ). Síðan eru meira en sex áratugir og þá var heimsstyrjöld nýlokið. Það er söguleg tímaskekkja að segja þetta aðaltilgang ESB nú. Það veit Styrmir ofur vel. En þær eru margar missagnirnar í málflutningi þeirra sem berjast gegn nánari samvinnu okkar við Evrópuþjóðirnar.
Lesandi sendi eftirfarandi:
,,Innlent 08. október 2011 13:47, innlent
Kona féll í sjóinn við austurbakkann á höfninni í Reykjavík um eitt leytið í dag. Lögregla, slökkvilið og sjúkrabílar voru sendir á staðinn. Konunni var bjargað úr vatninu án teljandi erfiðleika. Hún er nú á slysavarnarstofu en er ekki illa haldin. Hann spyr sem vonlegt er : Er vatn í höfninni?
Hvar er slysavarnastofa? Er Slysavarnafélagið með hana?
Kona féll í sjóinn við austurbakkann á höfninni. Ég hélt að hafnarbakkinn héti Austurbakki og væri ekki á höfninni heldur í Reykjavíkurhöfn.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Í dagskrá norska ríkissjónvarpsins er þess jafnan getið þegar þættir eru frumsýndir hvort þeir verða endursýnir og þá hvenær. Það er líklega til of mikils mælst að Ríkissjónvarpið okkar geri þetta. Það er sennilega of flókið fyrir þá sem skipuleggja dagskrána.
Góð umrææða um spillingu á Íslandi á Rás eitt í þætti þeirra Jóns Orms Halldórssonar og Ævars Kjartansson á sunnudagsmorgni (09.10.2011) Landið sem rís. Rætt var við Jóhann Hauksson blaðamann um nýútkomna bók hans sem heitir Þræðir Valdsins og hér hefur áður verið vikið að. Umræðan rifjaði upp hvílíkan spillingarpytt Sjálfstæðisflokkurinn bjó til á Suðurnesjum, – hvernig milljarðaeignum sem Varnarliðið skildi eftir á Miðnesheiði var úthlutað , svona næstum gefins til sérvalinna gæðinga, orkumálin , sparisjóðurinn og stjórn Reykjanesbæjar þar sem meirihluti Sjálfstæðismanna seldi allar eignir bæjarins. Spilling Sjálfstæðismanna á Reykjanesi er líkast til efni í heila bók. Svo var líka í þættinum minnt á þegar formaður Sjálfstæðisflokksins skilaði 50 milljónum króna sem stórfyrirtæki höfðu afhent flokknum og ætluðust auðvitað ekki til neins í staðinn. Formaðurinn viðurkenndi þar með að þetta voru ,,óhreinir peningar” ef þannig má taka til orða. – Og enn eru margir kjósendur reiðubúnir að greiða þessum flokki atkvæði sitt svo hann komist aftur í valdaaðstöðu, komist að kjötkötlunum. Ótrúlegt.
Skildu eftir svar