Fréttamynd í sjónvarpi (12.10.2011) af fólki sem stóð í biðröð á horni Laugavegar og Vatnsstígs var að bíða eftir að fá ókeypis miða á tónleika Bjarkar kallaði fram gamla minningu. Það hefur sennilega verið 1949 að tíu ára strákur vaknaði klukkan fimm að morgni og fór í biðröð við verslunina Viktor sem var þarna á horninu. Það hafði nefnilega frést að þar yrðu til sölu bomsur. Fyrir lesendur sem ekki vita hvað bomsur eru, er rétt að taka fram að bomsur eru skóhlífar. Þegar hann kom á vettvang var röðin orðin löng, en átti eftir að lengjast talsvert. Á þessum árum var vöruskortur og margt skammtað. Framvísa varð skömmtunarseðlum til að fá sykur og smjör svo nokkuð sé nefnt og reyndar vefnaðarvöru líka. Bomsurnar sem þarna voru á boðstólum voru gúmmíbomsur með rennilás rúmlega ökklaháar, ætlaðar karlmönnum. Þegar strákurinn komst loks að afgreiðsluborðinu voru bara til bomsur númer 45. Hann keypti þær samt. Auðvitað. Einn af kostgöngurum móður hans naut svo góðs af. Þetta rifjaðist allt í einu upp við að sjá myndina af biðröðinni þarna á horninu. Þær voru margar biðraðirnar í gamla daga.
Í fréttum Ríkissjónvarps (12.10.2011) var ítrekað talað um Reðasafnið á Húsavík. Samkvæmt beygingalýsingu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar ætti að tala um reðrasafn.
Úr mbl.is (13.10.2011): ,,Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tvær tilkynningar um innbrot í nótt. Fyrra tilvikið var misheppnað tilraun til innbrots í tölvuverslun í Holtasmára í Kópavogi.” Tilraunið misheppnaðist ! Það var og.
Í fréttum Stöðvar tvö (12.10.2011) var talað um meðlim áhafnar þýska kafbátsins ( sem sökkti Goðafossi). Átt var við skipverja í áhöfn kafbátsins.
Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins var (12.10.2011) talað um börn, konur og menn. Samkvæmt íslenskri málvenju fornri og nýrri eru konur menn. þessvegna hefði í þessu tilviki farið betur á því að tala um börn, konur og karla.
Nafnlausir Staksteinar Morgunblaðsins (13.10.2011) gagnrýna Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra vegna ferðalaga til útlanda. Þar fetar Morgunblaðið dyggilega í fótspor gamla kommúnistamálgagnsins, Þjóðviljans, sem lagði Gylfa Þ. Gíslason ráðherra í einelti vegna ferðalaga hans í tengslum við EFTA aðild Íslands og norræna samvinnu. Ekki leiðum að líkjast.
Mannfall í Mið-Ameríku, segir í fyrirsögn á visir.is. Orðið mannfall er samkvæmt gróinni málvenju notað um þá sem falla í orrustu eða bardaga. Hér er orðið notað um fólk sem lét lífið í miklu ofviðri. Betra hefði verið að nota orðið manntjón.
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
15/10/2011 at 00:03 (UTC 0)
Rétt er það Þorkell að sú kynslóð sem er að vaxa úr grasi skilur þetta ekki. Að til dæmis skuli bara hafa fengist ljósaperur með höppum og glöppum.
Þorkell Guðbrandsson skrifar:
14/10/2011 at 22:20 (UTC 0)
Ekki er beinlínis hægt að segja að minningarnar frá skömmtunarárunum séu skemmtilegar, það eru þær alls ekki. Hitt er annað mál að vöruskorturinn og skömmtunin var sá veruleiki, sem okkar kynslóð ólst upp við, Eiður. Ég hef verið að segja barnabörnunum frá þessum árum þegar þau hafa komist til vits og ára og ég held að þeim detti ekki einu sinni í hug að trúa gamla manninum. Einhvernveginn held ég að spillingin, sem virðist hafa gegnsýrt íslenskt þjóðfélag, hafi í raun byrjað með hermanginu og fitnað og stækkað eins og púkinn frægi á skömmtunarárunum. Það verður erfitt fyrir þjóðina að komast upp úr þeim hjólförum.
Eiður skrifar:
14/10/2011 at 13:42 (UTC 0)
Vel má það rétt vera, Lára. En þessi orðmynd er ekki í samræmi við það sem segir á vef Árnastofnunar.
Lára skrifar:
14/10/2011 at 13:21 (UTC 0)
Safnið heitir víst Hið íslenska reðasafn, sjá http://www.ismennt.is/not/phallus/isl.htm
Eiður skrifar:
14/10/2011 at 10:14 (UTC 0)
Já, hvort maður kannast ekki við orðið ,,bomsuslagur.“ Það lýsir ástandinu. Það var næstum slegist um torfengna hluti.
S Nikulás skrifar:
14/10/2011 at 08:44 (UTC 0)
Hérna hefði líka mátt minnast á orðið eða hugtakið „bomsuslagur“, sem stundum birtist í blöðum frá þessum tíma.
S