«

»

Molar um málfar og miðla 745

Pallborðshlutinn af Silfri Egils (16.10.20119 var óvenju slakur. Það bitastæðasta í þeim hluta Silfursins var frásögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur frá bókamessunni miklu í Frankfurt. Þar var vel að verki staðið. Þetta var landi og þjóð til sóma. Stórgott viðtal við Þorstein Pálsson lyfti svo Silfrinu aftur. Ekki er líklegt að viðtalið hafi vakið sérstakan fögnuð við Rauðavatn þar sem heita Hádegismóar.

Áskelli benti á eftirfarandi (16.10.2011): ,,Í frétt á mbl.is segir: ….Einnig er unnið að því að sækja búnað um borð í skipið sem hallar til hliðar.
Hér væri óvitlaust að nota orðið ,,slagsíða“. “ Réttmæt athugasemd.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (17.10.2011) var sagt frá landsfundi stjórnmálaflokks um næstu helgi og tekið þannig til orða : … kosið verður um stjórn flokksins. Eitthvað er skrítin hugsunin á bak við þetta orðalag. Eðlilegt hefði verið að segja: Kosið verður í stjórn flokksins. Það er sömuleiðis orðið mjög algengt að segja að kosið verði um e-ð þegar eðlilegra er að segja að atkvæði verði greidd um e-ð, til dæmis ályktun eða tillögu.

Egill segir: ,,Í texta í Spaugstofunni í gær (16.10.2011) stóð:… að fá sér í tánna. Auðvitað á að tala um að fá sér í tána. Hvaða dómadagsvitleysa er þetta?” Meira frá sama : ,,Ólafur Páll Gunnarsson spurði viðmælanda í Rokklandi, nú áðan, þegar hann vildi vita hvenær tiltekin hljómsveit ætti að byrja: Þið eruð ON hvað? Eftir klukkutíma? Hvers vegna þurfa útvarpsmenn að taka upp svona bull, þótt þeir séu að tala við fólk sem svarar með slangri? Er hann að sýnast svalari en ella?’’ Ekki ósennileg skýring, Egill.

Danska sjónvarpið (DR2) sýndi (16.10.2011) sígildan vestra frá 1962 The Man Who Shot Liberty Valance. John Ford leikstýrði þessari mynd og leikarar ekki af lakara taginu, James Stewart, John Wayne, Lee Marvin, Vera Miles, Edmund O´Brien og Andy Levine ( feiti karlinn í Roy Rogers myndunum í Austurbæjarbíói í gamla daga) Fjögurra stjörnu mynd í L.Martin´s Movie Guide, sem er frekar sjaldgæft. Æ meira horfir Molaskrifari á norrænu stöðvarnar.

Tær og leiftrandi snilld á pressan. is (16.10.2011): Áhafnarmeðlimur uppgötvaði líkið í gestakáetu skipsins Carnival Dream sem hafnaði í Port Canaveral á austurströnd Flórída á laugardagsmorgun. Áhafnarmeðlimur er orðskrípi sem ekki ætti að sjást. Skipverji er gott orð. Gestakáeta skipsins? Var bara einn farþegaklefi í skipinu? Svo er sagt að skipið hafi hafnað í Port Canaveral ! Líklega er átt við að skipið hafi komið til hafnar í Port Canaveral. Kjötið var skemmt og hafnaði í ruslafötunni. Hvílíkt bull.

Það er orðið algengt að heyra sagt að engu sé til sparað. Þetta sagði kona sem rætt var við í fréttum Stöðvar tvö (16.10.2011). Betra er að segja: Ekkert til sparað. Engu til kostað.

Fréttamaður Stöðvar tvö talaði í fréttum (16.10.2011) um að forða tjóni. Hvert forða átti tjóninu kom hinsvegar ekki fram. Betra er að tala um að forðast tjón eða koma í veg fyrir tjón.

Í sexfréttum Ríkisútvarps (16.10.2011) var sagt: Fjármálaráðherra leggur fram fjárlagafrumvarp ( það gerði hann reyndar fyrir tveimur vikum) og önnur frumvörp því tengdu. Því tengd, hefði átt að segja.

Fínn Landi í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöldi (16.10.2011)svo sem endranær. Skemmtilegt ,,skúpp” fréttin um vaxhólkana frá Siglufirði og söng séra Bjarna Þorsteinssonar.

Tilgerðarlega konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins sagði okkur að kvölddagskráin á sunnudag (16.10.2011) hæfist með þættinum Kexverksmiðjan. Það var rangt. Sá þáttur var á dagskrá kvöldið áður, á laugardagskvöldi. Engin afsökun, engin leiðrétting. Ekki frekar en fyrri daginn.

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurjón Halldórsson skrifar:

    Sæll Eiður. Ekki getur viðmiðunin alltaf verið hvað er „gróið í málinu“. Orðalagið „að forða tjóni“ og hitt að „engu“ sé til sparað hefur tíðkast að minnsta kosti jafnlengi og það að tala um fimm „stjarna“ gistihús. Nefna má að á vefnum Tímarit.is finnast álíka mörg dæmi um „forða tjóni“ (69) og um „forðast tjón“ (80), og sum gömul. „Forða tjóni“ er jafnótækt fyrir því.

  2. Eiður skrifar:

    Sjálfsagt má um það deila, Sigurjón. Held að hitt sé orðið nokkuð gróið í málinu.

  3. Sigurjón Halldórsson skrifar:

    Fjögurra „stjörnu“ mynd? Ekki fjögurra stjarna?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>